föstudagur, júlí 20, 2007

20. júlí 2007 - Umhverfisverndarhópurinn Seifing Æsland



Sagt er að fólk geri góðlátlegt grín að ungliðahópnum Seifing Æsland og brosi jafnvel út í annað þegar sést til þeirra vera að mótmæla virkjunum og álverum, neyslukapphlaupi og bílisma. Ekki ég. Það er aldrei að vita nema um sé að ræða alvöru umhverfisverndarsinna sem fara á milli á reiðhjólum eða hestum öfugt við íslenska vinstrigræna sem allir nema Magnús Bergsson mættu á bílum á landsfundinn í febrúar síðastliðnum.

Ég vænti þess svo að þessir alvöru náttúruverndarsinnar muni senn halda til Þingvalla og faðma grenitrén eystra til að koma í veg fyrir að þau verði skemmdarvörgum Þingvallanefndar að bráð. Þá efa ég ekki að þau hafi haft nokkuð til síns máls er þau mótmæltu neysluhyggjunni í Æslendingum nútímans í Kringlunni á dögunum, enda þykir mörgum sem kaupgleði mörlandans sé löngu komin út yfir allt velsæmi. Sum þeirra bera það reyndar með sér að vera meinilla við sjampó og aðrar umhverfisskaðlegar vörur.

Ef að líkum lætur munu þau sömuleiðis berjast hatrammlega gegn notkun minkapelsa og skjótast upp í Helgadal (stutt að fara) og hleypa út nokkrum minkum til að bæta æslenska náttúru og koma í veg fyrir að minkarnir muni kveljast úr innilokunarkennd. Þá efa ég ekki að þau muni reyna að sökkva hvalbátunum og þeim hluta fiskiskipaflotans sem er í höfn, enda fiskistofnarnir í útrýmingarhættu að mati Hafró og umhverfisverndarsinna.

Þegar þeir verða svo búnir að kála nokkrum orkuverum og tryggja lokun álveranna, mun fátt vera eftir til bjargar á Æslandi annað en að flytja suður á Jótlandsheiðar. Þá hafa þeir náð tilgangi sínum og tekist að seifa Æslandi.

Muna svo bara að síðasti Íslendingurinn á að taka fánann með sér.


0 ummæli:







Skrifa ummæli