miðvikudagur, júlí 18, 2007

18. júlí 2007 - Flugfarþegar

Eins og allir vita, þjást Íslendingar af sjálfspyntingarhvöt og vilja því ekki vakna á eðlilegum tíma og fljúga til útlanda á venjulegum vökutíma. Svona hefur þetta verið um áratuga skeið. Ekki dugir að benda á Flugleiðir og þeirra stífu áætlun um hámarksnýtni og því sé verið að nýta vélarnar sem koma frá Ameríku eldsnemma að morgni og þurfa því að fara strax til Evrópu svo vélarnar nái Ameríkuflugi síðdegis.

Hin flugfélögin gera þetta líka. Æsland Express sendir fleiri flugvélar í loftið klukkan sjö að morgni að því er virðist, einvörðungu til að hrekkja væntanlega flugfarþega. Til að bæta gráu ofan á svart, telur SAS það vera merki um hressa Íslendinga að vakna fyrir allar aldir og eltir því hin félögin. Flugstöðin er því stútfull af morgunfúlum væntanlegum flugfarþegum á hverjum einasta morgni.

Ég fór með nokkrar manneskjur til Keflavíkur í morgun og í veg fyrir SAS flugið sem er þó á skikkanlegum tíma samanborið við hin félögin. Aksturinn suðureftir gekk vel því samkvæmt flugáætlunum Keflavíkurflugvallar áttu þrettán flugvélar að fara í loftið milli sjö og átta, en mínir farþegar þurftu ekki að mæta til innritunar fyrr en klukkan að verða sjö og voru því á eftir verstu umferðinni um flugstöðina og samt komnir vel tímanlega á flugvöllinn.

Á leiðinni heim hugsaði ég með mér að ég myndi lenda í verstu morgunumferðarófærð á leiðinni. Ég fór framhjá Straumsvík strax eftir klukkan 07.30 og þaðan tók aksturinn heim í Árbæinn einungis um 20 mínútur. Kannski var ég á undan morguntraffíkinni, en samt sýnir þetta vel hve lítil liðkun í umferðinni hefur mikið að segja. Nú er Reykjanesbrautin orðin tvær akreinar alveg frá Hafnarfirði til Reykjavíkur og einustu hindranirnar eru tvenn umferðarljós í Garðabænum og umferðin flýtur áfram eins og ekkert sé.


0 ummæli:Skrifa ummæli