laugardagur, júlí 07, 2007

7. júlí 2007 - Niðurskurður

Þegar ég byrjaði til sjós árið 1966 mátti hver sem var fiska upp að 12 mílum við Íslandsstrendur. Hér voru fleiri hundruð erlendir togarar að veiðum, enskir, þýskir, belgískir, rússneskir og frá mörgum öðrum þjóðum. Aflinn var misjafn, en almennt var talið að þorskveiðar væru á mörkum ofveiði.

Því var gripið til þess að draga úr veiðum útlendinga með útfærslu fiskveiðilögsögunnar 1972 og 1975. Þá var mikil bjartsýni ríkjandi, en þá voru sömuleiðis að berast svartar skýrslur frá Hafrannsóknarstofnun til áminningar þess að ekki væri nægur í sjónum. Það var þó ekki fyrr en um 1984 sem núverandi kvótakerfi komst á og þannig reynt að stýra veiðunum svo allir fengju nóg og eins til að nóg væri eftir af fiski í sjónum til handa komandi kynslóðum.

Síðan eru liðin 23 ár. Búið er að skera þorskveiðina niður um kannski allt að tveimur þriðju og samt er enn veitt of mikið. Næsta kynslóð er komin og enn er verið að skera niður. Fiskveiðistjórnunarkerfið sem átti að vera leiðbeinandi er nú orðið að reglu og alltaf má veiða minna og minna. Það má vel vera að þetta sé allt gott og blessað, en þá er líka ekkert að marka það sem á undan er gengið. Staðan nú er eins og ef verið væri að byrja með veiðistýringu, en ekki eins og slíkt hefði byrjað fyrir 23 árum.

Eru ekki einhversstaðar mjög alvarlegir ágallar á fiskveiðistjórnunarkerfinu?

Fyrir nærri fjórum áratugum brugðust síldveiðarnar og hrun varð á fiskmörkuðum vestanhafs. Þetta leiddi af sér kreppu öllu verri en þessa tilbúnu kreppu stjórnvalda árið 2007. Árin 1967 og 1968 þurfti að grípa til hrikalegra gengisfellinga með stórfelldu atvinnuleysi og almennri vesöld um tíma. Það var eðlilegt því þá voru öll eggin í sömu körfunni. Síðan þá hefur fjölbreytnin aukist umtalsvert, m.a. með tilkomu hinna hötuðu álvera. Nú eru uppi hávær barátta gegn álverum þótt tilkoma þeirra stuðli að náttúruvernd á alheimsvísu jafnframt því sem útgerðarmenn eru byrjaðir með gömlu gengisfellingartugguna sína.

Útgerðarmenn fengu fiskinn á silfurfati og nú verða þeir að bera sjálfir ábyrgð á honum. Því hlýtur það að vera algjör krafa að ekki verði hlustað á vælið í þeim, en að reynt verði að hraða uppbyggingu stóriðju sem hefur að nokkru leyti komið í stað fisksins í sjónum og mun vonandi gera það í enn frekari mæli á næstu árum.


0 ummæli:Skrifa ummæli