laugardagur, júlí 28, 2007

28. júlí 2007 - Fósturdóttir Íslands og Guðni Már!


Einn vestfirskur kunningi minn borðar ekki kæsta skötu. Honum hefur verið strítt á þessu og einhver orðaði það sem svo að hann hefði verið hrakinn frá Vestfjörðum vegna áhugaleysis síns fyrir kæstri skötu og skötuilm. Mér finnst illa að manninum vegið með þessari stríðni, enda er ég sjálf með svipaðan smekk fyrir gæðunum og forðast að koma nærri opinberum matsölustöðum á Þorláksmessu.

Á föstudag heyrði ég viðtal Guðna Más Henningssonar við Eivör Pálsdóttur fósturdóttur Íslands úti í Færeyjum þar sem Eivör lýsti því yfir að sér þætti hákarl góður. Guðni lét að sjálfsögðu í ljósi vanþóknun sína á matarsmekknum, bæði hvað snertir hákarl og skerpukjöt, en hið síðarnefnda mun vera mest dásamaði þjóðarréttur Færeyinga. Með þessum gikkslátum í Guðna er ljóst að ekki er hægt að skipta á þeim tveimur, láta kyrrsetja hann í Færeyjum en kalla Eivör hingað til Íslands í hans stað. Við þurfum hvort eð er að endurheimta Guðna Má aftur svo hann geti tekið við næturvaktinni á ný.

En nú er bara spurningin. Hvað finnst Eivöru um kæsta skötu? Það má alveg ljóst vera að hver sá “útlendingur” sem borðar bæði skötu og hákarl með bestu lyst á skilið að fá íslenskt ríkisfang með hraði hvort sem sá á ráðherra að tengdaforeldri eður ei.


0 ummæli:Skrifa ummæli