föstudagur, janúar 01, 2010

1. janúar 2010 - Nú árið er liðið í aldanna skaut

Síðasta ár var ákaflega þægilegt fyrir mig í flestu tilliti. Kreppan sem spáð hafði verið lét lítið á á sér kræla og góður tími til að undirbúa sig undir hið versta.

Heilsan var góð allt árið. Í ársbyrjun fór ég í veigamikla hjartarannsókn sem skilaði engu slæmu, en staðfesti gott heilsufar að öðru leyti en lélegu þoli. Ég held þó að þolið hafi verið mun betra í lok ársins en í upphafi þess vegna reglulegra gönguferða, ýmist ein eða með öðru fólki. Ég fór þó ekki nema einu sinni á Esjuna og einu sinni Selvogsgötuna og einhverja fleiri hóla, en fór á engar nýjar slóðir í gönguferðum mínum.

Vinnan var ákaflega hefðbundin og róleg, fáar eða engar aukavaktir á árinu og veit ég ekki hvernig hefði farið ef ég hefði ekki álpast á sjóinn í sumarfríinu, fyrst eina ferð á Goðafoss og síðan nokkra daga á Herjólf.

Aðeins var farin ein ferð til útlanda að frátalinni ferðinni með Goðafossi, en ég hélt til Svíþjóðar í tvær vikur í nóvember. Meðan á ferðinni stóð ók ég í um 2300 km í bílaleigubíl sem þykir ágætis árangur, en svona fer ef á að gleypa allt landið í einum munnbita og hitta sem flesta á sem stystum tíma. Reyndar fann ég mér ókeypis bílastæði og notaðist við tunnelbanan í Stokkhólmi

Ein móðursystir og ein mágkona dóu á árinu og eitt barnabarn fæddist. Þá seldi ég minn gamla trygga vinstrigræna Subaru og fékk mér jeppa í staðinn, enda hefi ég alltaf verið þekkt fyrir að fara á móti straumnum og í kreppu eyði ég meiru en annars, enda hefur kreppan lítil áhrif á fólk sem þarf að draga fram lífið á lélegum launum í góðæri, en heldur laununum að miklu leyti þegar samfélagið þarf að draga saman seglin.


0 ummæli:Skrifa ummæli