þriðjudagur, desember 22, 2009

22. desember 2009 – Ljúfsárar endurminningar

Tónlist er eitthvað sem rifjar upp endurminningar. Þú heyrir gamalt dægurlag og með þér rifjast upp minningar frá því þú dansaðir fyrsta dansinn við förunaut lífs þín. Sama lag er einskis virði fyrir öðrum þótt það veki upp sælar minningar hjá þér.

Ég man þegar ég byrjaði til sjós og lagið Monday Monday með Mamas & the Papas var á toppnum. Í hvert sinn sem ég heyri þetta lag rifjast upp fyrir mér dagurinn sem ég byrjaði til sjós. Mörg önnur lög eiga svipaðar tilfinningar, Down town, Rosegarden, My sweet Lord, og fleiri og fleiri.

Jólalög eiga líka sína sögu. Mín fyrstu jól á sjó eru bundin laginu White Christmas því nokkrum dögum fyrir jólin 1971 var ég í Massachusetts í Bandaríkjunum og þetta lag var spilað í öllum verslunarmiðstöðvum. Jólin 1984 eru sömuleiðis bundin Bandaríkjunum, en þá vorum við í Norfolk og New Jersey einhverjum dögum fyrir jól áður en haldið var til Halifax í Kanada og síðan Íslands eftir nokkurra mánaða útilegu í Transatlantic siglingum.

Í New Jersey notaði ég tækifærið og skrapp í bæinn, átti erindi til Woodbridge Center í New Jersey að versla jólagjafir. Þar keypti ég kassettu með jólalögum sem jafnframt var einasta jólatónlistin sem hægt var að hlusta á í tækjum skipsins þar sem við vorum á úthafinu á leið til Íslands jólin 1984.

Síðan þetta var rifjast alltaf upp fyrir mér furðuvélin Doxford og flutningaskipið Laxfoss (City of Hartlepool) í hvert sinn sem ég heyri Dolly Parton og Kenny Rodgers flytja jólalög sín.


0 ummæli:Skrifa ummæli