mánudagur, júní 13, 2016

13. júní 2016 - Í minningu fólksins sem féll í Pulse Orlando


Í gær voru minnst 50 manneskjur myrtar í Orlando í Florida, flest voru hinsegin, hommar, lesbíur, transfólk og fleiri því hinsegin heimurinn samanstendur af fjölbreytileika hvað snertir kynhneigð og kynvitund. Mér sem gamalli og reynslumikilli transkonu kemur þetta ekki mikið á óvart. Það er búið að skrá rúmlega 2000 hatursmorð gagnvart transfólki í heiminum frá 2008 og er það einungis kúfurinn af öllum glæpunum, öllum morðunum sem hafa verið framdir á þessum tíma því einungis lítið brot glæpanna komast í skárnar.  Í gær bættust nokkur við fjöldann þegar geðbilaður og hatursfullur morðingi ákvað að láta til skarar skríða og myrða eins marga og hægt væri áður en yfir lyki.

Ég geng ekki um og kenni múslimum um. Mörg þessara morða voru framin af kristnum og önnur af fólki sem telur sig hafa einhverja skyldu til að myrða saklaust fólk af því að það fellur ekki að hugmyndum þess um ástir og kærleika. Í Bandaríkjum er að auki til allskyns fólk sem telur sér skylt að útrýma öllum sem ekki falla að skoðunum þess um ástir karls og konu og má nefna í því sambandi að ég hefi sérstaklega verið vöruð við að ferðast til Utah í  Bandaríkjunum sem þrátt fyrir sameiginlegan áhuga á ættfræði, er eitt versta fylki Bandaríkjanna hvað snertir fordóma gagnvart hinsegin fólki.

Í hinu múslimska Íran eru samkynhneigðir hengdir en transfólk hefur sérstöðu og viðurkennt að takmörkuðu leyti, enda var einn besti vinur Ayatollah Khomeini transmaður sem komst í gegnum aðgerðarferli í Bretlandi á áttunda áratug síðustu aldar þegar þeir voru í útlegð þar í landi.

En hvað með hið fordómalausa Ísland. Þar hlýtur þó ástandið að vera í fínasta lagi enda hefur hinsegin fólk fengið lagalegt jafnrétti á við gagnkynheigða fólkið, eða hvað? Ég ætla ekki að rifja upp alla söguna, hún er löng og hún er erfið. Ég læt mér nægja að rifja upp eigin reynslu.

Á þeim tveimur áratugum sem liðnir eru frá því ég flutti til Íslands að nýju eftir útlegð í Svíþjóð hafa mér borist allskyns hótanir um misþyrmingar og morð. Ég hefi venjulega látið þetta framhjá mér fara enda oftast fólk í ölvunarástandi sem tjáir þau og enganveginn fært um að endurtaka þau edrú daginn eftir eða neitar að hafa tjáð sig um þau. Stundum í gegnum leyninúmer í síma. Sem betur fer hafa þessar hótanir minnkað með árunum og voru að mestu horfnar nýlega.

Fyrir um sex vikum síðan barst mér enn ein hótunin þar sem viðkomandi taldi að ég ætti ekki rétt á að lifa og væri best dáin. Þar sem ég þekki viðkomandi manneskju og veit að hún hefur tjáð sig neikvætt á Útvarpi  Sögu og Facebook og að hún  hefur ekki aðgang að skotvopnum auk alvarlegra geðrænna  kvilla, ákvað ég að kæra ekki viðkomandi manneskju.  Ég ákvað þess í stað að geyma ummæli hennar um mig um leið og ég ræddi við aðstandendur hennar. Þannig er staðan enn í dag.

Úr því að manneskja sem ég þekki getur látið svona, hvenær get ég búist við að einhver brjálæðingur á borð við Anders Behring Brevik ryðjist að mér með skotvopn? Ég vona að það verði aldrei, en á meðan enn er til fólk sem ræktar með sér hatur gagnvart hinsegin fólki og gegn fjölbreytileika mannlífsins verð ég að búast við hinu versta um leið og ég vona hið besta.  


0 ummæli:







Skrifa ummæli