föstudagur, júní 24, 2016

24. júní 2016 - Forsetakosningar 2016


Fyrstu forsetakosningarnar sem ég man eftir voru kosningarnar 1968. Þótt ég hefi verið fædd þegar Ásgeir sigraði 1952 var það lítið meira en svo. Þó hafa kosningarnar 1952 ávallt haft áhrif á allar forsetakosningar eftir það. Þá tóku stjórnmálaflokkarnir opinbera afstöðu með eða á móti frambjóðendum og bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur tóku afstöðu með forsetaframbjóðandanum séra Bjarna Jónssyni, en flestir aðrir studdu Ásgeir Ásgeirsson þar á meðal Gunnarsarmur Sjálfstæðisflokksins enda var hann tengdasonur Ásgeirs.

Þegar kom að forsetakosningunum 1968 og Ásgeir hafði tilkynnt að hann léti af embætti enda kominn á áttræðisaldurinn, komu fram tvö framboð, Gunnar Thoroddsen og síðan Kristján Eldjárn. Stjórnmálaflokkarnir gættu þess í þeim kosningum að taka ekki opinbera afstöðu með einum frambjóðanda, en dagblöðin gerðu það í þeirra stað, Morgunblaðið studdi Gunnar sbr leiðara blaðsins nokkru fyrir kosningarnar og mig minnir að Þjóðviljinn hafi studd Kristján. Ekki man ég hvorn hin blöðin studdu, en stjórnmálaflokkarnir héldu að sér höndum og var það vel. Þá voru engar skoðanakannanir fyrir kosningarnar og því birtust fyrstu tölur sem vönduð skoðanakönnun og Kristján sigraði með miklum mun, hlaut um tvo þriðju atkvæða en Gunnar þriðjung. Þótt ég hafi stutt Kristján þótt enginn væri kosningarétturinn á þeim tíma varð ég málkunnug Gunnari síðar er ég var á kafi í námsmannapólitíkinni og voru það góð kynni. Gunnar var maður sem átti auðvelt með að hrífa fólk með sér og stóð fyrir skoðunum sínum, íhaldsmaður af gamla skólanum, annað en nútíma frjálshyggjupostular. Eitt var þó ámælisvert í kosningarbaráttunni 1968. Þegar sjónvarpið tók drottningarviðtal við Gunnar eins og það gerði við báða frambjóðendur og þar sem frambjóðendur gátu lagt fram spurningar sem þeir vildu að þeir yrðu spurðir um, fékk Gunnar spurninguna um áfengisneyslu sína og hann svaraði þungri röddu eitthvað á þessa leið:
„Ég vil taka fram að hvorki ég né Kristján erum bindindismenn“.
Með orðum sínum lagði hann fram einustu leiðindin í þeirri kosningabaráttu. Í stað þess að tala um sig og sín hugðarefni var hann farinn að tala um andstæðinginn og slíkt var ekki til velfarnaðar. Þetta voru samt hógvær orð, en misstu marks.

1980 var það Vigdís Finnbogadóttir sem varð fyrir barðinu á andstæðingunum, einhleyp, einstæð móðir en samt svo töfrandi og fékk að finna fyrir því. Þegar hún ákvað að bjóða sig fram ákvað ég þegar í stað að styðja hana eins og reyndar stór hluti sjómannastéttarinnar. Með hispursleysi sínu varð hún eiginkona okkar allra og móðir allra barna íslenskrar sjómannastéttar. Hún varð sem holdgervingur allra sjómannskvenna sem þurftu að sjá fyrir börnum og heimili á meðan eiginmaðurinn var fjarverandi við störf sín og hún sigraði með naumindum. Það sem ég varð kannski mest hissa á var gamli maðurinn faðir minn sem þá var jafngamall og ég er núna og átti sama afmælisdag og Guðni forsetaframbjóðandi. Alltaf fannst mér faðir minn vera maður gamalla viðhorfa í pólitík, en þarna sýndi hann á sér nýtt andlit sem ákafur stuðningsmaður Vigdísar Finnbogadóttur. Það var að sjálfsögðu hið besta mál að taka undir orð hans.

Ég fylgdist lítið með kosningunum 1996. Bjó erlendis framanaf en flutti heim í miðri kosningabaráttu og ákvað þegar í stað að greiða Guðrúnu Pétursdóttur atkvæði mitt. Hún brást mér og því fór atkvæði mitt á það sem ég áleit vera næstbesta kostinn sem var Guðrún Agnarsdóttir „hvals“ Guðmundssonar skipstjóra. Eftir á að hyggja held ég að það hafi verið góð skipti enda hefur álit mitt á Guðrúnu Agnarsdóttur vaxið mikið í gegnum tíðina. Ég minnist ég þess er Agnar faðir hennar fór eitt sinn sem farþegi með okkur á Álafossi eina ferð og hann átti ekki orð yfir hneykslan sína yfir hegðun dóttur sinnar að fara á Alþingi í stað þess að rækta læknaeiðinn sem hún væri menntuð til að sinna. Ekki þóttu mér orð hans göfugmannleg þegar haft er í huga að Guðrún Agnarsdóttir var á þeim tíma meðal brautryðjenda í íslenskri kvennabaráttu með veru sinni í Kvennalistanum og á Alþingi.

Á árunum frá aldamótum til 2006 tók ég virkan þátt í kosningum með setu í kjörstjórn í Breiðholtshverfum. Forsetakosningarnar 2004 voru ógeðslegar. Misklíðin og hatrið á milli fólks hneykslaði mig og marga. Sem fulltrúi hverfiskjörstjórnar þurfti ég að hafa kjörkassann lokaðan og einungis opna hann er menn komu úr kjörklefanum svo þeir hentu ekki seðlinum ómerktum beint í kassann eftir að hafa fengið hann afhentan og hatrið beindist einvörðunu að nú fráfarandi forseta. Hinir frambjóðendurnir voru sem núll og nix og áttu aldrei möguleika.

2012 snerist þetta við. Þeir sem verst létu 2004 hömpuðu skyndilega sama manni sem sínum manni, en svívirðingarnar á báða bóga héldu áfram og voru einkum einum frambjóðenda til skammar ef borið er saman við forsetakosningarnar 1968. Sá hafði samt sigur. Sjálf hafði ég ákveðið að kjósa einn kvenkyns frambjóðanda en er kom að kjördegi skipti ég um skoðun og kaus annan kvenkyns frambjóðanda í þeirri veiku von að geta fellt þann eina sem var með pólitísk leiðindi en hafði ekki erindi sem erfiði.

Nú er komið að forsetakosningum 2016. Upphaflega hafði ég veðjað á Salvör Nordal eða Rögnu Árnadóttur sem minn frambjóðanda, en hvorug vildi bjóða sig fram sem ég skil mjög vel þegar svívirðingarnar á frambjóðendur eru hafðar í huga. Þegar allt var uppí loft eftir sjónvarpsþáttinn um Panamaskjölin, blasti við á skjánum maður sem virtist þekkja leikreglurnar út í ystu æsar án þess að hafa nokkru sinni tekið þátt í þeim. Ég hafði vissulega hitt Guðna einu sinni á kynningu um bók hans um hrunið og líkað vel og eignaðist bókina og var honum hjartanlega sammála um að bókin hefði fremur átt að heita „Helvítis fokkings fokk“
Frá þeim degi hefi ég verið einlæg stuðningsmanneskja Guðna Thorlacius Jóhannessonar samanber pistil minn á Facebook frá því mánuði áður en hann bauð sig fram, en þetta setti ég fram á Facebook mánuði áður en Guðni bauð sig fram:
Er ekki verið að leita að heppilegum forsetaframbjóðanda? Hvað um Guðna Th. Jóhannesson? Hann er fræðimaður með mikla pólitíska þekkingu!!!!
Þið heyrðuð það fyrst hér.

Guðni bauð sig fram á afmælisdegi konu sinnar þann 5. maí og ég var þar og fagnaði. En mikið skelfing hefur mér liðið illa að heyra allskyns ávirðingar á Guðna, jafnvel verri en aðdáendur Ólafs Ragnars höfðu á hendur Þóru Arnórsdóttur árið 2012. Allt í einu var skrýmsladeildin sameinuð um að rakka Guðna niður og sverta hann á alla kanta, hann var ýmist kommi eða Samfylkingarmaður, EU-sinni og stundum argasta íhald og guð má vita hvað. Þessi kosningabarátta er búin að vera ógeðsleg! Það grátlegasta er að Guðni á engan þátt í viðbjóðnum, hefur ávallt gætt þess að halda andlitinu og þá er honum borið á brýn að vera litlaus. Þótt ég þekki ekki Davíð Oddsson persónulega veit ég að þar fer maður sem er vandur að virðingu sinni þótt hann hafi misst ýmislegt úr sér sem ekki er honum sæmandi sem frambjóðanda til embættis forseta Íslands, en stuðningsmannaliðið, hin svonefnda skrýmsladeild hefur tekist að rífa af honum fylgið með virkilega niðurdrepandi áróðri gegn Guðna og öðrum frambjóðendum, en fyrst og fremst Guðna. Megi þeir hafa skömm fyrir að hafa fælt kjósendurna frá Davíð og að einhverju leyti frá Guðna og til annarra frambjóðenda.

Nú er komið að kosningum. Ég mun að sjálfsögðu styðja Guðna Th. Jóhannesson, mann sem hefur þekkinguna, mann sem hefur hæfileikana, er vel kvæntur, er umburðarlyndur og fordómalaus og er Íslendingur á jákvæðan hátt. Í upphafi kosningabaráttu sinnar lagði hann áherslu á að koma fram að heiðarleika og jákvæðni og ég vona að ég hafi staðið við orð hans og ekki talað mjög illa um aðra frambjóðendur þótt mér hafi stundum runnið í skap við orð þeirra.

Ég kynntist afa Guðna árið 1970. Hann var þá skipherra á Árvakri, ég var smyrjari á Þór. Kallinn var svo jákvæður og flottur að ég minntist hans ávallt síðan sem skipherrans sem kom eins fram gagnvart smyrjurum og messaguttum og öðrum skipherrum. Þess má og geta að Guðmundur skipherra Kjærnested og Jóhannes faðir Guðna voru systrasynir.

Á sunnudag vona ég að Guðni Thorlacius Jóhannesson verði nýr forseti Íslands á afmælisdegi sínum og afmælisdegi föður míns heitins. Ég ætla að vera með og vonandi fagna með nýjum forseta. Hann hefur sýnt það og sannað að hann er réttur maður í embættið.

Loks mælist ég til þess að GuðniThorlacius Jóhannesson sjái til þess að Þórður Guðlaugsson yfirvélstjóri fái afreksverðlaun íslenska lýðveldisins.


0 ummæli:Skrifa ummæli