fimmtudagur, júní 23, 2016

23. júní 2016 - Hvað gerðist?


Einu sinni var íslenska landsliðið í fótbolta meðal þeirra lélegri í heiminum. Ef það tók þátt í alþjóðlegri keppni endaði það venjulega neðst og var sent heim og allir voru sáttir. Íslendingar gátu haldið áfram að benda á að vegna fámennis þjóðarinnar væri nánast ómögulegt að koma upp almennilegu landsliði þar sem einn eða tveir landsliðsmenn spiluðu með erlendum liðum og allir hinir væru bara áhugamenn í fótbolta sem spiluðu fótbolta á kvöldin eftir að hafa lagt frá sér hamarinn eða pennann að afloknum vinnudegi.

Hugsunarháttur fórnarlambsins hélt áfram þótt eilíflega væri verið að skipta um þjálfara og allir landsliðsmennirnir væru orðnir atvinnumenn. Um leið og kom að einhverri undankeppni héldu þeir áfram að tapa og ávallt var afsökunin sú að íslensk þjóð væri svo fámenn. Samt voru jafnmargir menn á vellinum í íslenska landsliðinu eins og öllum hinum landsliðunum.

Í handbolta þar sem vissulega gilti sama regla um fjölda leikmanna inni á vellinum sem og í öðrum íþróttum voru Íslendingar orðnir nokkuð framarlega, stundum með þeim bestu þrátt fyrir fámenni þjóðarinnar svo ekki stóðst sú regla alveg. Þá hafði kvennalandsliðið staðið sig  með ágætum þrátt fyrir fámenni þjóðarinnar. Ávallt var svarið hið sama, við værum þrátt fyrir allt langbest í heiminum miðað við fólksfjölda! Ekki stóðst það alveg þegar árangur er skoðaður í frjálsum íþróttum sem og í vetraríþróttum, en Íslendingar voru lakastir Norðurlandaþjóða þrátt fyrir fólksfjöldaviðmiðun lengi vel, en kannski breyttist það aðeins þegar hópur Íslendinga fékk silfur í handbolta á ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og Ísland varð stórasta land í heimi.

Svo réði Knattspyrnusamband Íslands sænskan þjálfara fyrir landsliðið og þá gerðist eitthvað. Ísland fór að vinna landsleiki. Með Lars Lagerbäck kom einhver nýr andi í landsliðið og það fór að vinna sum sterkustu landslið Evrópu! Eitthvað gerðist. Þetta voru sömu landsliðsmennirnir og fyrrum, en allt í einu fara þeir að spila á allt annan hátt og vinna leiki. Nú fer ég að hugsa til gríska landsliðsins sem urðu Evrópumeistarar með hundleiðinlegri varnartaktík árið 2004.

Ég ætla ekki að tjá mig um þá taktík sem er viðhöfð í fótboltaleikjum enda hefi ég ekkert vit á fótbolta, en það breytir ekki því að Lars Lagerbäck er búinn að lyfta Grettistaki með íslenska landsliðið í fótbolta og er það vel og ekki er verra að vita að útum allan heim er fólk að fagna pínulitla liðinu sem vann stóru sigrana og sló út þeim stóru og komst áfram í 16 liða úrslit gegn öllum spádómum þeirra sem vit hafa á fótbolta. Það fer enginn að segja mér að það eitt að pakka saman í vörn og reyna að beita skyndisóknum sé einasta herbragð íslenska landsliðsins til að komast áfram. Það hlýtur að vera eitthvað miklu meira.

Sonur nágrannakonu minnar er atvinnumaður í fótbolta og var lengi í íslenska landsliðinu. Eftir að Lars Lagerbäck tók við landsliðinu þurfti hann allt í einu að kveðja fjölskylduna fleiri dögum fyrir landsleiki og halda í vinnubúðir fyrir landsliðsmenn í fótbolta. Ekki veit ég hvað gekk á, en ljóst er að Lars Lagerbäck tókst að sýna íslenskum landsliðsmönnum í fótbolta fram á að þeir væru jafnmargir á vellinum og andstæðingarnir og gætu jafnmikið.

Ég ætla að vona að Heimir Hallgrímsson sem væntanlega mun taka við landsliðinu af Lars Lagerbäck hafi lært það mikið af honum að hann geti haldið áfram að leiða landsliðið áfram á sama hátt og Lars hefur gert. Það verða nefnilega áfram jafnmargir leikmenn í íslenska landsliðinu í hverjum leik og andstæðingarnir.

Ég þarf ekkert að vita hvað gerðist, en ef leikmennirnir vita hvað breyttist, hvað gerðist hjá íslenska landsliðinu í fótbolta þá er ég ánægð. Ég er ánægð og fagna hverjum sigri Íslands í fótbolta og það nægir mér.

Um leið óska ég íslenskri þjóð sem og landsliðinu þess að láta ekki þjóðrembuna taka völdin yfir tilfinningunum. Verum íslensk þjóð með stolti og hógværð og án þjóðrembu og okkur mun vel farnast.


0 ummæli:Skrifa ummæli