laugardagur, júní 25, 2016

25. júní 2016 - Bretar og Evrópusambandið.Bretar hafa sagt skilið við Evrópusambandið. Fyrir mig eru það ekki góð tíðindi. Vissulega munu vinir mínir í Grimsby fá aftur fiskimiðin sín frá Evrópusambandinu en kannski er það hið eina jákvæða í stöðunni.

Stephen Whittle vinur minn í Manchester og fyrrum stjórnarmaður í Transgender Europe og formaður þar um skeið hefur bent á einfalda staðreynd sem þessar kosningar um úrgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu geta haft í för með sér. David Cameron hefur þegar lýst því yfir að hann muni láta af embætti í haust í kjölfar þessara kosningaúrslita. Hver verður eftirmaðurinn? Boris Johnson? Sá hefur barist hatrammlega gegn veru Bretlands í Evrópusambandinu en hann hefur einnig barist hatrammlega gegn réttindum hinsegin fólks í Bretlandi. Einhver dyggasti stuðningur sem hinsegin fólk hefur fengið er frá Evrópusambandinu. Evrópusambandið hefur staðið með okkur, hvatt okkur áfram, veitt okkur styrki og eflt baráttu okkar og nú kemur þetta bakslag, hugsanleg kreppa í Bretlandi, afturkippur í mannréttindabaráttu, sundrung og hugsanleg upplausn ríkisins Stóra-Bretlands og hugsanlega Boris Johnson sem forsætisráðherra.

Breska þjóðin hefur valið og hún veðjaði á rangan hest.

Bretar voru alltaf sér á parti innan Evrópusambandsins. Þeir höfnuðu Evrunni og þeir höfnuðu Schengen. Þeir fengu að vera sér á parti innan Evrópusambandsins en nú er því lokið. Kreppan er framundan. Þeir munu ekki lengur geta sótt um endalausar undanþágur frá reglum Evrópusambandsins og ef þeir vilja komast aftur inn úr kuldanum verða þeir að sætta sig sömu kjör og aðrir nýliðar.  

Hvað verður um Skotland og Norður-Írland? Verður Skotland frjáls og fullvalda þjóð innan Evrópusambandsins von bráðar? Mun Írland sameinast eftir að hafa búið við undirokun og klofning af hálfu Bretlands í nærri hundrað ár? Mun Stóra-Bretland breytast í Little-Britain? Ég veit ekki but the computer says no.

Mér þykir vænt um Englendinga, á fjölda ættingja á Bretlandseyjum þar á meðal afkomendur. Þá á ég nokkra góða vini á Bretlandseyjum, fólk á borð við Stephen Whittle mannréttindalögfræðing í Manchester sem löngum var einn helsti baráttumaður fyrir mannréttindum transfólks í Evrópu en hefur orðið að láta undan á síðustu árum vegna sjúkdóms síns.

Mér mun halda áfram að þykja vænt um alla Breta, líka þá sem Íslendingar börðust við í síðasta þorskastríði enda er ég löngu læknuð af þjóðrembu. En mér þykir miður að horfa á eftir Englandi úr evrópskri samvinnu og bíð þess með óþreyju að sjá sjálfstætt Skotland ganga í Evrópusambandið
J


0 ummæli:Skrifa ummæli