föstudagur, mars 17, 2006

17. mars 2006 - Enn af Landhelgisgæslunni

Í gær kallaði ég Íslendinga aumingja. Ég held að ég verði að þrengja hugtakið “aumingjar” verulega. Aumingjaskapurinn virðist nefnilega einskorðaður við ríkisstjórnina og þá helst Björn Bjarnason mjög fjarskyldan ættingja minn af Kjalarnesinu.

Björn Bjarnason hélt því blákalt fram á Alþingi að Bandaríkjamenn væru þeir einustu sem ættu eldsneytisflugvélar og gætu tankað þyrlur á flugi. Það getur vel verið að það sé rétt hjá honum þótt ég efist um það. Ef svo er, er slíkt eingöngu vegna þess að aðrar þjóðir telja sig ekki hafa not fyrir áfyllingarbúnað. Þetta er tiltölulega einfaldur búnaður sem þarf til að hægt sé að fylla þyrlur af eldsneyti á flugi og vafalaust hægt að komast yfir gamla herflugvél fyrir lítinn pening með áfyllingarbúnaði, sé hann ekki settur í flugvél sem er í eigu Landhelgisgæslunnar. Orð Björns eru því bull og vitleysa og ég vísa þeim til föðurhúsanna. Skömm ríkisstjórnarinnar er hinsvegar mikil að hafa ekki eignast fleiri öflugar björgunarþyrlur fyrir löngu. Meira að segja ég sem ber enga ábyrgð á þyrlukosti Landhelgisgæslunnar hefi séð aumingjaskapinn fyrir löngu og haldið uppi áróðri fyrir bættum þyrlukosti á blogginu í 18 mánuði. Þó er gáfnafarið ekki meira en Guð gaf mér.

Þegar ég er að tala um bætta Landhelgisgæslu, er ég ekki að gæla við einhver stríðstól og sama gildir um bættan skipakost Landhelgisgæslunnar. Það er nauðsynlegt að fá öflugt varðskip sem er nógu öflugt til að geta dregið skip á borð við Baldvin Þorsteinsson af strandstað, en jafnframt nógu gangmikið til að komast út að ystu mörkum efnahagslögsögunnar á stuttum tíma, skip með þyrluskýli og þyrlu af svipaðri gerð og þyrlur danskra varðskipa.

Nú er tækifærið. Herinn er að fara og kveðjum hann með skilnaðarkossi, ekki eins og einhver hóra sem grátbiður hann að vera áfram eins og ríkisstjórnin og látum eins og fjórðung af spítalapeningunum í bætta björgunarþjónustu.

Mér finnst leiðinlegt að tala um ríkisstjórnina. Að auki eru þeir tveir alþingismenn sem teljast fjarskyldir ættingjar mínir, báðir í ríkisstjórn. Ég pissa ekki nærri mínu eigin greni, ekki fremur en refurinn og því er mér illa við að tala illa um ríkisstjórnina. Álit mitt á þessum er að vísu mismunandi. Ég nota hvert tækifæri til að skamma dómsmálaráðherrann fyrir embættisfærslur hans, en hrífst mjög af embættisfærslum iðnaðarráðherrans sem er sexmenningur við mig, báðar komnar af Brigittu Þorvarðardóttur í Stíflisdal í Þingvallasveit í beinan kvenlegg.

Það á að taka rafmagnið af mér eftir nokkrar mínútur og því hefi ég stutt blogg hér í kvöld.

-----oOo-----

Í kvöld sá ég hugljúfa spænska kvikmynd á hinsegin bíódögum í Regnboganum sem jafnframt er opnunarmynd Hinsegin bíódaga. Myndin heitir Cachorro og þýdd sem bangsalingur. Það læddist örlítið tár út skömmu fyrir lok myndarinnar, en svo áttaði ég mig á því þegar ljósin höfðu verið kveikt, að ég hefði getað beðið prestinn sessunaut minn um táraþurrku. Yndisleg mynd.


0 ummæli:







Skrifa ummæli