mánudagur, mars 20, 2006

20. mars 2006 - Sóknarfæri


Allt frá því Bush og Rumsfeld ákváðu að kalla herinn heim frá Íslandi hefur mikið verið kvartað og kveinað á Suðurnesjum. Allt er orðið ómögulegt og við blasir auðn og tóm af því að herinn er að fara. Þetta væl minnir helst á kvartanir Siglfirðinga árin eftir að síldin brást um 1968. Þó var það vitað fyrir löngu að herinn færi fyrr en síðar og einungis tímaspursmál hvenær að því kæmi.

Af hverju sjá Suðurnesjamenn ekki sóknarfærin í þessum breytingum á háttum sínum? Þrátt fyrir að nokkrir hermenn fari og að ekki þarf lengur að þjónusta þá, þá standa mannvirkin áfram og bíða nýrra tækifæra, mikil flugskýli sem vel gætu hentað fyrir Landhelgisgæslu sem og aðra flugsækna starfsemi svosem innanlandsflug, gamla flugstöðin og ýmis önnur mannvirki sem nýta má í margvíslegum tilgangi auk annarrar starfsemi sem er bráðnauðsynleg á alþjóðaflugvelli sbr eftirlit og viðhald flugbrauta og slökkvilið.

Þá má ekki gleyma þeim möguleika sem felst í þúsundum brátt mannlausra íbúða sem hafa nýst hermönnum. Einhvern hluta þeirra má hugsanlega nota fyrir Byrgið sem ávallt er í húsnæðishraki. Einhver stakk upp á því að öryggisfangelsi yrði til húsa á þessu svæði og ekki má gleyma möguleikanum á gæsluvarðhaldsfangelsi. Möguleikarnir virðast vera óendanlegir og er bara að láta hugmyndaflugið ráða þar til við fáum þetta svæði í okkar hendur.

-----oOo-----

Þrátt fyrir yfirlýsta leti mína drattaðist ég framúr í morgun og kveikti á sjónvarpinu til að horfa á þessa keppni í saumavélaakstri austur í Sepang Malaysíu. Þótt keppnin væri þegar hálfnuð þegar ég kveikti á tækinu og ísklumpurinn frá Finnlandi fremstur ef marka má óskir sumra, þá sá ég hann hvergi. Ekki gat hann hafa bráðnað sísvona í forystunni, enda mun svalara í veðri en efni stóðu til.

Brátt varð mér það ljóst að hann var ekkert á staðnum, hafði villst af leið og fengið far heim með dráttarbíl. Sennilega hefur brotnað nál í kompásnum hjá honum.

Það á ekki að nota saumnál í stað kompásnálar! Spyrjið bara Þórð!


0 ummæli:







Skrifa ummæli