laugardagur, mars 25, 2006

26. mars 2006 - Ferðin til Genf


Það ætlaði ekki að ganga þrautalaust að komast alla leið til Sviss. Það gekk ágætlega að komast á Kastrup og var ég mætt þar meira en tveimur tímum fyrir brottför eins og mín er von og vísa og náði í brottfararspjaldið.

Ekki gat ég fengið mér neitt öl á meðan ég beið því að ég var búin að klára allt öl í Danmörku. Ég kom því við á einhverri kaffiteríu og fékk mér fulla könnu af sjóðandi heitu og ilmandi kaffi ásamt vínarbrauði. Þar sem ég rölti frá afgreiðslukassanum með tvær töskur í annarri hendinni og bakkann með kaffinu og vínarbrauðinu í hinni, tróð sér einhver framhjá mér með þeim afleiðingum að kaffikannan fór af stað og yfir mig alla. Eftir þetta ilmaði ég eins og heil kaffibrennsla alla leiðina til Genfar. Að auki er ég með brunablöðru á maganum eftir sjóðandi heitt kaffið.

Það var flogið með SAS með hræðilega lélegri rellu sömu gerðar og Æsland Express notar. Það var að vísu aðeins rýmra á milli sætanna í þessari vél en gerist hjá Æsland Express, en á móti kom að það varð klukkutíma seinkun á vélinni til Sviss. Þegar komið var til Genf, var byrjað á að logga sig inn á hótelið og svo á stjórnarfund hjá TGEU, en hann var fyrst haldinn á krá í einungis tveggja mínútna fjarlægð frá hótelinu. Þegar garnirnar fóru að gaula í hópnum færðum við okkur á víetnamskan veitingastað og síðan var bara að koma sér á hótelið að hvíla sig og sleikja sár sín eftir erfiða ferð. Svo verður að vona að öndin hafi ekki verið með fuglaflensu.

Það er langur og erfiður fundadagur framundan og það er vor í lofti. Það var ekki seinna vænna, enda að hefjast sumartími í Evrópu.


0 ummæli:Skrifa ummæli