miðvikudagur, mars 08, 2006

8. mars 2006 - Mér finnst þetta táknrænt....

....fyrir okkur friðelskandi þjóð, sagði Stefán Jón Hafstein um ljósatyppi Yoko Ono í síðdegisútvarpi Rásar 2 í gær þar sem ræddar voru hugmyndir sem komið hafa fram um að reisa eitt stykki ljósatyppi úti í Viðey henni til heiðurs. Síðan bætti Stefán Jón Hafstein því við að Yoko Ono gæfi hugmynd að myndverki, ekki myndverkið sjálft.

Mér fannst þetta síðasta nokkuð gott. Einhver gömul og rík kelling fær þá hugmynd að reisa ljósatyppi úti í Viðey og þá hlaupa borgarfulltrúar upp til handa og fóta eins og hlýðnir rakkar og henda milljónum í gæluverkefnið. Miðað við þessa undanlátsemi borgarfulltrúans vænti ég þess að hann bjóði Roger Waters að reisa múr úti í Viðey í minningu The Wall þegar hann kemur í sumar. Til að tryggja sem minnst náttúruspjöll, má reisa múrinn umhverfis ljósatyppið svo að múrinn geti verið í nálægð og kallast á við typpið. Þá þarf typpið allavega ekki lengur að kallast á við nýja tónlistarhúsið eins og Stefán Jón ræddi svo fjálglega um fyrir nokkrum dögum. Það er hvort sem er svo langt á milli, að úr slíkum köllum kæmi aldrei annað en vesældarlegt mjálm sem drukknar í öldugjálfrinu.

Mín hugmynd er öllu betri og ódýrari. Þegar gengið er að einu helsta glæsihýsi Reykjavíkur, þá standa sex ljósatyppi í röð fyrir framan aðalinnganginn. Það má bara kenna eitt þeirra við friðinn, annað við Lennon og svo aðra Bítla í röð og loks hið síðasta við forsöngvarann í stóru englahljómsveitinni, sjálfan Elvis Aaron Presley. Þannig geta Bítlarnir kallast á með stuttu millibili og sungið Give Peace a Change í kór og með Elvis í broddi fylkingar.

-----oOo-----

Þessa daga halda nokkir þingmenn uppi málþófi á Alþingi til að mótmæla því að eignarréttur geti náð yfir vatn. Ég skil ósköp vel að það þurfi að mótmæla slíku þótt annað geti gilt um vatnsréttindi sem fylgja jarðeignum, vatnsréttindi á borð við virkjanaréttindi eða veiðiréttindi. Hinsvegar er ég ósammála þessum baráttuaðferðum. Að tala og tala og tala um ekki neitt er ekki í minni þágu. Einungis málefnaleg umræða gagnast mér, en málþóf af þessu tagi sem nú fer fram á Alþingi, verður þess valdandi að ég finn mér eitthvað betra til að gefa atkvæðið mitt, ef ég þá yfirleitt nenni að mæta á kjörstað.

-----oOo-----

Loks fá allar konur baráttukveðjur í tilefni dagsins.


0 ummæli:Skrifa ummæli