sunnudagur, mars 19, 2006

19. mars 2006 - Útifundur

Ég fór á útifund á gamla Hallærisplaninu sem nú heitir Ingólfstorg í gær. Tilefnið var ekkert slor, fögnuður yfir væntanlegri brottför hersins en jafnframt mótmæli við stríðið í Írak. Bush og Rumsfeld létu ekki sjá sig þótt þeir séu orðnir herstöðvaandstæðingar, ekki heldur Hjálmar Árnason sem er hættur að vera herstöðvaandstæðingur. Hinsvegar sá ég skuggalegan náunga á torginu sem líktist talsvert Geir H. Haarde. Ég vil ekki fullyrða að þetta hafi verið hann, en líkur var hann utanríkisráðherranum.

Það væri þá eftir öðru að hann væri orðinn herstöðvaandstæðingur. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa löngum verið sem taglhnýtingar í ríkisstjórn Bandaríkjanna og eðlilegt að þeir taki upp hina nýju stefnu bandarísku ríkisstjórnarinnar sem gengur út á herlaust og friðlýst Ísland

Meðan á útifundinum stóð, tókst mér að móðga vin minn Jón Torfason skjalavörð með því að líkja honum við bókaverði, en hann tók mig í sátt eftir að ég hafði margfaldlega beðið hann afsökunar. Er nema von að ég hafi ruglast í ríminu? Ég hitti nokkra bókasafnsfræðinga á torginu og greinilegt að sú stétt er stéttvísari og meira friðelskandi en margar aðrar stéttir.

Í gær hélt ég því fram að dauðir Kanar í Írak væru 2313. Tölurnar voru frá því í fyrradag, því í gær voru þeir orðnir 2316. Að sjálfsögðu votta ég öllum sem láta lífið vegna brjálæðis Bush samúð mína, jafnt bandarískum borgurum sem íröskum.

-----oOo-----

Hetjurnar hugumstóru í Halifaxhreppi létu sér nægja jafntefli á útivelli gegn Cambridge í gær. Þær sitja nú í þriðja sæti kvenfélagsdeildarinnar þegar einungis átta umferðir eru eftir. Af þessum átta leikjum eru fimm á heimavelli og greinilegt að verr þenkjandi hlutanum er farið að dreyma um spilun í langneðstu deild í haust. Ég ætla samt að lifa í voninni fram á vorið.


0 ummæli:Skrifa ummæli