föstudagur, mars 03, 2006

3. mars 2006 - Gisberta


Í síðustu viku var framið morð suður í Portúgal. Slíkir voðaatburðir þykja ekki fréttaefni úti í hinum stóra heimi, en þetta morð var óvenju ruddalegt.

Gisberta, var brasilísk transsexual kona og innflytjandi í Oporto í Portúgal, heimilislaus, eyðnismituð, eiturlyfjaneytandi og og stundaði vændi sér til framfæris. Hinn 19. febrúar síðastliðinn komu fjórtán drengir af upptökuheimili sem rekið er af kaþólsku kirkjunni inn í ófullgert hús þar sem Gisberta hélt til, bundu hana og kefluðu og hófust svo handa við að misþyrma henni með grjótkasti, spörkum og höggum með spýtum. Hópurinn viðurkenndi einnig að hafa stungið spýtum upp í endaþarm hennar.

Næstu tvo dagana héldu þeir uppteknum hætti og pyntuðu Gisbertu meðal annars með logandi sígarettum, en aðfararnótt 22. febrúar síðastliðinn köstuðu þeir henni ofan í 10 metra djúpa gryfju þar sem hún virðist hafa drukknað. Lík Gisbertu fannst svo sama dag og voru drengirnir af upptökuheimilinu þegar grunaðir um verknaðinn og játuðu þeir fljótlega að hafa orðið Gisbertu að bana. Út frá játningum þeirra kom atburðarás þessa hræðilega glæps í ljós og eins að fórnarlambið hafði oft áður orðið fyrir aðkasti þessara drengja.

Drengirnir fjórtán eru á aldrinum tíu til sextán ára gamlir og einungis einn þeirra telst sakhæfur samkvæmt portúgölskum lögum og situr hann nú í gæsluvarðhaldi. Hinir þrettán voru sendir heim á upptökuheimilið.

Það sem er kannski sorglegast við þennan atburð er ekki einungis ungur aldur drengjanna, heldur fremur neikvæð umfjöllun portúgalskra fjölmiðla um fórnarlambið þar sem gefið er í skyn að hún eigi sjálf sök á því hvernig fór. Fjölmiðlar festu ekkert vægi við þá staðreynd að Gisberta var transsexual og að hér var um dæmigert hatursmorð að ræða. Þeir höfðu meiri áhuga fyrir því sem prestur þeirrar stofnunar sem gerningsmennirnir komu frá, sagði er hann lýsti því yfir að drengur frá viðkomandi stofnun hefði verið misnotaður af barnaníðing og að það réttlætti glæpinn að einhverju leyti.

Portúgölsk LGBT samtök á borð við Panteras Rosa og transgendersamtökin a.trans, gáfu út yfirlýsingar sem útskýrðu hugtakið transsexualisma og persónueinkenni fórnarlambsins. Í yfirlýsingunum var einnig krafist aðgerða, jafnt þjóðfélagslega sem og lagalega, gegn glæpum sem eru framdir vegna fordóma, kynferðis, þjóðfélagslegrar stöðu, sjúkdóma eða þjóðernis. Þessar yfirlýsingar samtakanna, þar sem einnig var farið fram á að transsexualismi fórnarlambsins væri nefndur, og að transfóbía væri mjög líkleg ástæða fyrir glæpnum, voru algjörlega hunsaðar af fjölmiðlum.

Transgendersamtök víða í Evrópu hafa hafið bréfaskriftir til portúgalskra stjórnvalda og annarra þeirra sem málið varðar. Þar eru gerðar athugasemdir við sinnuleysi portúgalskra stjórnvalda sem og ábyrgðarleysi kirkjunnar og neikvæðri umfjöllun portúgalskra fjölmiðla mótmælt.
Enn sem komið er hafa engin viðbrögð borist, ekki fremur en búist var við, en Gisbertu verður ekki gleymt í okkar hópi og full ástæða til að minna á örlög hennar hvar og hvenær sem tækifæri vinnst til.

Ítarlegri upplýsingar:

http://www.tgeu.net/


0 ummæli:







Skrifa ummæli