fimmtudagur, mars 16, 2006

16. mars 2006 - .....og herinn á brott.


Bandaríska ríkisstjórnin hefur ákveðið að flytja herinn á brott eigi síðar en á hausti komanda. Þetta kemur fáum á óvart og alls ekki mér sem elska friðinn og lítt hrifin af hervaldi hverju nafni sem það nefnist. Því vil ég óska hermönnunum sem eftir eru, góðrar heimferðar. Ég vil taka fram að ég hefi ávallt átt ágæt persónuleg samskipti við þá hermenn á Keflavíkurflugvelli sem ég hefi átt samskipti við. Ég hefi reynt að koma fram við þá að virðingu og þeir hafa sömuleiðis komið fram við mig af virðingu. Afstaða mín gegn hernum hefur ávallt verið á pólitískum forsendum. Þá hefi ég ávallt borið sérstaklega mikla virðingu fyrir þyrlubjörgunarsveit hersins, hefi notið gestrisni hennar sem og bandarískra yfirvalda á Keflavíkurflugvelli sem hafa greitt götu mína á þeim slóðum.

Með því að þoturnar fara, fer einnig einasti þátturinn í hernaðarmættinum sem ég hefði viljað halda eftir hér á landi. Þyrlubjörgunarsveitin. Íslendingar eru slíkir aumingjar að þeir geta ekki haldið einni góðri björgunarþyrlu gangandi, hvað þá tveimur. Stóra þyrlan er í pörtum og ekki má vinna við hana öðruvísi en í dagvinnu af því að ekki eru til neinir peningar til að klára þyrluna í hvelli. Ef eitthvað lítilræði kemur fyrir litlu þyrluna verður að kalla til herinn á meðan hann er hér, en eftir það danska herinn. Á sama tíma er ákveðið að reisa tónlistarhöll fyrir tólf milljarða og spítalamonster fyrir 40 milljarða.

Það má ekki líta svo á að ég sé á móti stórri og fínni tónlistarhöll. Ég tel hinsvegar að slík höll megi kosta nokkrum milljörðum minna en þessa tólf og geta samt þjónað hlutverki sínu. Á sama hátt er ég ekkert á móti heilbrigðisþjónustu á Íslandi. En ég vil ekki að allir peningarnir til heilbrigðisþjónustunnar fari í steinsteypu þar sem hún kemur að ófullnægjandi notum. Á móti kemur að það á skilyrðislaust að auka fjarveitingar til Landhelgisgæslu umtalsvert þannig að hún geti haldið úti minnst einu öflugu varðskipi auk varðbátanna Ægis og Týs, minnst tveimur öflugum björgunarþyrlum með búnaði til eldsneytisáfyllingar á flugi auk einhverra minni þyrla af svipaðri stærð og Sif og loks þarf eina sæmilega flugvél með gott flugþol.

Suður í Keflavík vantar störf í stað þeirra sem tapast þegar herinn fer. Það er til prýðisaðstaða fyrir flugkost Landhelgisgæslunnar suður á Keflavíkurflugvelli og Landhelgisgæslan getur vel sinnt hlutverki sínu frá höfnum í Reykjanesbæ. Ef það dugir ekki til, má alltaf létta álaginu á Reykjavíkurflugvelli með því að færa innanlandsflugið til Keflavíkur, t.d. í gömlu flugstöðina sem notuð hefur verið fram að þessu fyrir flug tengt hernaðinum. Svo má reisa tónlistarhöllina hans Stefáns Jóns suður í Vatnsmýri.

Þegar ég les eigin skrif kvöldsins fæ ég á tilfinninguna að ég sé búin að leysa lífsgátuna :)

-----oOo-----

Í fórum mínum á ég miða á tónleika uppáhaldstónlistarmannsins míns sem aldrei sá föður sinn, þar sem sá yfirgaf þetta jarðlíf á styrjaldartímum. Tónlistarmaðurinn heitir Roger Waters.


0 ummæli:Skrifa ummæli