laugardagur, mars 18, 2006

18. mars 2006 - Þrjú ár og Sasha

Í dag eru liðin þrjú ár síðan tveir þjónustulundaðir ráðherrar á Íslandi ákváðu að setja okkur hin á lista yfir hinar myrðandi þjóðir í Írak. Í krafti þessa stuðnings Davíðs og Halldórs þorðu Bandaríkjamenn loksins að ráðast inn í Írak með skelfilegum afleiðingum, því frá 19. mars 2003 hafa þeir misst 2313 hermenn í stríðinu, en minnst 17.000 særða. Þá eru ótaldar nærri fjórar tugþúsundir Íraka sem fallið hafa í stríðinu og er spurningin hvort Bush hafi þegar tekist að myrða fleiri Íraka en Saddam Hussein tókst á 35 ára valdatíma sínum. Það er ljóst að Halldór og Davíð hafa mikið á samviskunni.

Ekki man ég hve ég hefi oft farið í göngur og á útifundi gegn hersetu og vopnavaldi. Þó held ég að ég hafi ekki gengið nema eina Keflavíkurgöngu, en auk þess ýmsar aðrar stuttar göngur eins og Straumsvíkurgöngu og göngu og útifund gegn þeim kumpánum Nixon og Pompideau er þeir funduðu í Reykjavík. Ég þætti sennilega léleg sem atvinnumótmælandi.

En batnandi mönnum er best að lifa. Eftir öll þessi ár af Keflavíkurgöngum gegn Eisenhower og Kennedy og Johnson og Nixon og Ford og Carter og síðar fundum gegn þeim sem á eftir þeim komu, þá gerðist George Dobbljú Bush herstöðvaandstæðingur og rak herinn burt. Eftir sátu þeir Davíð og Halldór með langt nef eins og kjánar, búnir að fá þjóðina upp á móti sér með fáránlegum stuðningi við ofbeldið í Írak.

Það er eitt neikvætt við brottför hersins. Það er óttinn um að hann verði notaður í alvöru stríðsrekstur. Vitað er að Bandaríkin eru að undirbúa hernað á hendur Íran og til slíks hernaðar þarf meira bandarískt blóð. Það er fátt hægt að gera að sinni til að fækka þeim hermönnum sem eru í Írak eða Afganistan og því verður að sækja þá hermenn sem eru staðsettir á svæðum sem minna mæðir á, til undirbúnings árásinni á Íran. Þess vegna fór herinn frá Íslandi. George Dobbljú Bush er skítsama. Fyrir honum eru Davíð og Halldór billeg skítseyði og lélegt þjónustuþý sem hægt er að fara með að vild og hann þarf að nota þessa hermenn sína.

Þegar þessi undirbúningur að innrás í Íran er hafður í huga, er full ástæða til að mæta á Hallærisplanið klukkan 15.00 í dag og minnast aumingjaskapar Davíðs og Halldórs frá því fyrir þremur árum er þeir samþykktu að draga okkur inn í sóðalegt stríðið.

-----oOo-----

Þá er hann Sasha dáinn. Jónas var ákaflega merkileg persóna. Hann var kvæntur og tveggja barna faðir á yngri árum, en kom út úr skápnum á fullorðinsaldri. Hann var mér ákaflega mikill andlegur stuðningur þegar ég gægðist út úr skápnum fyrir tveimur áratugum síðan. Ég man ekki eftir honum öðruvísi en ávallt hlæjandi, daðrandi, ögrandi, en gerði engum mein og var vinur allra. Löngu síðar bjó ég í sömu blokk og hans fyrrverandi eiginkona og dætur. Yndislegt fólk.

Tvisvar varð Sasha fyrir alvarlegum líkamsárásum vegna kynhneigðar sinnar og bar ekki barr sitt eftir seinni árásina. Samt hélt hann áfram að hlæja og daðra og njóta lífsins sem honum frekast var unnt. Hann dó sem hann lifði, á kjötkveðjuhátíð á Kanaríeyjum, naut lífsins til hinstu stundar, einungis 62 ára gamall er hann yfirgaf okkur. Ég er þess fullviss að Almættið muni taka hlýlega á móti honum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli