sunnudagur, mars 26, 2006

27. mars 2006 - Þrældómur

Ef einhverjir stýristrumpar suður í höfum halda að ég sé hér í fríi og sleiki sólina, þá er það rangt. Hér fær fólk að vinna sér til hita. Það var byrjað á fundi eldsnemma á sunnudagsmorguninn og ekkert slegið af allan daginn.

Það var þingað alveg til klukkan fimm, þá tekið tveggja tíma frí meðan skroppið var á kynningar á stöðu transgenderfólks í Asíu og svo var haldið áfram að funda til klukkan 21.00 þegar litið var upp úr pappírunum og sest að matborði á veitingastað hér í næsta nágrenni við hótelið. Eftir einn öl með matnum var svo farið beint upp á hótel að sofa því næsti fundur hefst klukkan átta á mánudagsmorgun, sjálf ráðstefnan um stöðu transgender fólks um víða veröld.

Sá fundurinn sem var mér mikilvægastur, er þó afstaðinn. Þar var rætt um baráttuna á næstu árum í Evrópu og nágrannasveitarfélögum og samþykktar tillögur sem varða stjórn og skipulag Evrópsku transgendersamtakanna, en einnig baráttuna á næstu árum. Að fundinum loknum var ákveðið að halda næsta fund í stýrihópnum 1. og 2. júlí í Manchester.

Ég gat ekki annað en brosað að Rosönnu þegar hún fór að kvarta yfir hitanum úti. Mjúkir vorvindar glaðir léku um okkur þegar við skruppum út til að anda að okkur fersku lofti og hún fór að kvarta yfir hitanum sem þó var undir tuttugu gráðum. Ekki fannst mér of hlýtt, bara þægileg vorangan. Kvörtunin er kannski eðlileg því Rosanna kemur frá hinni köldu Ítalíu, annað en ég sem bý við jarðhita.

Ég hefi enn ekki haft tíma til að leita uppi Gunnubúð hér í Genf til myndatöku, en ætti að hafa tíma til þess þegar mínum hluta ráðstefnunnar lýkur á miðvikudagskvöldið.


0 ummæli:







Skrifa ummæli