þriðjudagur, mars 28, 2006

29. mars 2006 - Enn í Genf

Ég er að velta einu fyrir mér eftir gönguferð dagsins í rigningunni beggja megin Rúðufljóts af hverju það er svo mikill munur á mannlífinu sinn hvoru megin við fljótið. Ég er á hóteli norðan við fljótið og þegar ég skoða kort af borginni virðist flest það sem er áhugavert vera norðan við fljótið og allt svo franskt og óskipulagt. Sunnan megin eru bara bankar og styttur af Kalvín gamla og Júlíusi Cesar, hornrétt stræti og skrúðgarðar og svo auðvitað háskólinn

Um leið og komið er yfir brýrnar til suðurhlutans, liggur peningalyktin yfir öllu, háir hælar og merkjavörur útum allt og gæta verður þess að verða ekki hlaupin niður af stressuðu fólki. Ég fæ á tilfinninguna að ég sé komin inn í svissneskan banka og ég hrökklast til baka til hins fátæka fólksins norðan megin sem ferðast um á vespum og Subaru eða þá bara með strætó.

Á korti sem ég eignaðist hjá Samtökunum 360° hér í borginni, þá eru talin upp mörg gayvinsamleg veitingahús, hótel og skemmtistaðir norðan árinnar, en örfá sunnan megin þótt flestir íbúarnir virðist búa þeim megin. Ekki sá ég neitt IKEA sunnan megin (reyndar ekki heldur norðan megin), en hið alþýðusinnaða Ferrari er auðvitað norðan sprænu.

Þetta er auðvitað allt bara ímyndun í mér. Eins og allir vita, þá er ég bara orðin svo heimóttarleg að ég sé ekki lengur muninn á Þingholtunum og Grafarvogi og get því ekki séð muninn á suðurbænum og norðurbænum í Genf.

-----oOo-----

Hetjurnar hugprúðu í Halifaxhreppi héldu uppteknum hætti í gær og lögðu hina hina veiklulegu Voking ákaflega veiklulega að velli í kvenfélagsdeildinni. Þær þráast enn við og neita að hlusta á góð orð mín um að láta ólympíuhugsunina gilda framar öllu.

-----oOo-----

Einn ágætur ræðumaður á ráðstefnunni í fyrradag ræddi aðeins um sjúklingavæðingu transgender fólks og þá áráttu “hinna” að vilja flokka transgender sem nokkurs konar geðsjúkdóm. Hann endaði ræðu sína með orðunum: “Einasti transsjúkdómurinn sem ég veit um er transfóbía”


0 ummæli:







Skrifa ummæli