föstudagur, mars 10, 2006

10. mars 2006 - Susan Stryker


Ég var úti að aka í gær þegar hringt var í mig og ég svaraði á næsta rauða ljósi. Það var vinkona mín sem fór í aðgerð fyrir tæpum áratug og tilkynnti mér að hún væri með eina stöllu okkar uppi í Perlu. “Ég verð þarna eftir tvær mínútur” svaraði ég að bragði, en náði ekki að tala meira því komið var grænt ljós og ég þurfti að aka af stað.

Tveimur mínútum síðar var ég komin upp í Perlu á mínum vinstrigræna Subaru og hitti vinkonuna og sjálfa Susan Stryker nýkomna frá San Fransisko og fengum við okkur snæðing uppi í Perlu og höfðum margt og mikið að spjalla um. Það var greinilegt að við áttum margt sameiginlegt, ekki einungis það að við fórum allar í aðgerð til leiðréttingar á kyni, hver í sínu landinu en einungis þrjú ár liðu frá því sú fyrsta okkar fór í aðgerð þar til sú síðasta lagðist undir hnífinn. Það sem sumum þætti kannski merkilegt, er að við erum allar örvhentar. Spurningin er nú hvað hinn örvhenti Bill Clinton tekur sér fyrir hendur ef hann kemst að sem “First Lady” í Hvíta húsinu?

Ég hvet alla sem geta til að mæta á ódýra kvikmyndasýningu í Regnboganum klukkan átta í kvöld á myndinni Screaming Queens (Skrækjandi drottningar) sem Susan Stryker á heiðurinn af, en auk þess mun hún flytja fyrirlestur um transgender studies í Odda stofu 101 kl 12.00 sem er öllum opinn á meðan húsrúm leyfir.

-----oOo-----

Sæbjörn Valdimarsson kvikmyndagagnrýnandi Morgunblaðsins hringdi í mig í gær og vildi biðjast afsökunar á orðum sínum í gagnrýni sinni á kvikmyndina Transamerica. Ég get ekki annað en tekið afsökunarbeiðni hans til greina þótt hans villa sé ekki stór. Hann notaðist bara við leiðinlega þýðingu á texta kvikmyndarinnar sem birtist á hvíta tjaldinu og biður afsökunar á því. Ég segi bara. Ef allir gerðu eins og Sæbjörn Valdimarsson með þessu símtali, væri heimurinn miklu betri.


0 ummæli:Skrifa ummæli