mánudagur, mars 27, 2006

28. mars 2006 - Endalaus þrældómur

Ekki var mánudagurinn betri en sunnudagurinn. Það var haldið af stað frá hótelinu fyrir allar aldir og haldið á ráðstefnustað sem er á sömu slóðum og gamla Þjóðabandalagið og reyndar í sama húsi og leifarnar af EFTA (þ.e. Ísland, Sviss, Noregur og Liechtenstein). Það fór eins og mig grunaði. Allt var í ólagi með skráninguna og nokkrar tafir vegna þessa. Það kom fáum á óvart. Genf er jú í franska hluta Sviss og hugsunin virðist vera sú sama og hinum megin við landamærin. Kannski ekki alveg, því helsti framkvæmdaaðili ráðstefnunnar er ekki dæmigerður Frakki, lítill og horaður og alltaf á nálum. Það er því ljóst að ráðstefnan á mánudag mæddi mest á vesalings Armand.

Það voru mörg fróðleg erindi flutt á ráðstefnunni. Stephen Whittle er alltaf sami baráttujaxlinn sem og fólkið frá Tyrklandi og Austur-Asíu. Þá var mikið klappað fyrir frú Castró frá Kúbu, enda ástand heilbrigðismála transgenderfólks í betra ásigkomulagi þar en víðast annars staðar í Latínameríku. Ég veit svo ekkert um hvort frú Castró sem er ráðandi aðili í heilbrigðismálum Kúbverja er eitthvað skyld gamla höfðingjanum. Langt og leiðinlegt erindi fulltrúa WHO gaf ekkert af sér, enda voru þar notuð mörg orð um ekki neitt.

Það var gaman að bera saman skipulagið á ráðstefnunni í Genf og þeirri sem ég var á í Vín á síðasta hausti. Þar mátti ekki skeika neinu og allt skipulag stóðst út í ystu æsar. Dæmigerð þýsk nákvæmni. Hér virtist kaos ráða ríkjum. Jafnvel greinargerðir vinnuhópa voru í sama stíl. Júlía frá Berlín las upp fundargerð hópsins okkar, stutt, hnitmiðað og einfalt. Upplestur frá vinnuhóp sem samanstóð af fólki frá Latín-Ameríku var langur og ruglingslegur.

Þegar þessari ráðstefnu lauk, var haldið til aðalstöðva samtakanna Dialogai í Genf og snæddur léttur kvöldverður. Mér fannst lítið í hann varið og veit ég að einhverjir fóru á veitingastað á eftir í þeim tilgangi að fá sér eitthvert almennilegt í gogginn.

Ekki er hægt að kvarta yfir veðrinu, 17 stiga hiti og vor í lofti. Á þriðjudag á ég frí og tilvalið að skoða sig um með myndavélina áður en næsta ráðstefna hefst, en hún verður á miðvikudag og fjallar um “Discrimination in Work Place”


0 ummæli:Skrifa ummæli