föstudagur, ágúst 20, 2010

20. ágúst 2010 - Fjallaferðir

Ég fór á fjall í gær. Slíkt þykir vart í sögur færandi þegar haft er í huga að þetta var tuttugasta fjallaferðin á sumrinu, en samt verður hver ferð dálítið sérstök. Svo átti þetta að vera mjög einföld ferð, fyrst á eitt fjall og síðan hækka mig upp í næsta fjall rétt hjá hinu.

Þegar ég ók inn Hvalfjörðinn gat ég ekki annað en dáðst að þessum tveimur fjöllum og því hve þetta yrði einföld ganga, fyrst Þyrill og svo Brekkukambur. Ég lagði bílnum við Hvalfjarðarbotn neðan við Síldarmannabrekkur og hélt af stað. Klukkan var ekki orðin tvö og brekkurnar voru góðar við mig og brátt var ég komin upp að Síldarmannagötum og hélt þegar til vesturs út á Þyril.

Það var farið að hvessa og bætti í vindinn eftir því sem vestar dró. Þegar ég kom að gestabókinni þorði ég ekki að fara út á ystu nöf af ótta við að missa jafnvægið, lagði grjót á gestabókina á meðan ég skrifaði í hana, tók myndir og hélt svo til austurs til að krækja fyrir Litlasandsdalinn. Áður en ég vissi af var ég komin inn á Síldarmannagöturnar. Ég hélt þær áfram uns ég sá glitta í Tvívörður í fjarska, en hélt þá til vesturs upp hægan stíganda á móti Brekkukamb sem er 649 metrar. Ekki þurfti ég að hafa áhyggjur af að ganga of langt enda hækkaði landslagið framundan.

Landslagið þarna uppi var ósköp eymdarlegt, laust grjót svo minnti á Leggjabrjót og mýraflákar. Ekki bætti úr að hvassviðrið var búið að berja á mér svo klukkutímum skipti og ég fór að finna til þreytu. Þegar ég var loksins komin á þann topp sem ég vissi nákvæmastan, fór ég því að velta fyrir mér hvort ekki væri til þægileg leið niður án þess að fara sömu leið til baka. Eftir að hafa velt þessu fyrir mér ákvað ég að halda nánast sömu leið til baka og ég kom, þriggja tíma göngu eftir algjörri vegleysu, ekki einu sinni kindagötur að fara eftir fyrr en komið var niður að Síldarmannagötum.

Ég komst niður og það var lúin manneskja sem settist í bílinn að aflokinni átta og hálfs tíma án þess að mæta einni manneskju. Þótt nokkrar séu harðsperrurnar er ég samt reiðubúin að halda til fjalla á ný hið fyrsta, reyndar þegar búin að smyrja nestið og gera klárt í bakpokann fyrir göngu laugardagsins.


0 ummæli:







Skrifa ummæli