mánudagur, ágúst 16, 2010

16. ágúst 2010 – Fjallganga

Einhver sú asnalegasta íþrótt sem ég veit er fjallganga. Það er lagt í rándýran útbúnað, gönguskó sem kosta tugi þúsunda, hlífðarfatnað sem kosta annað eins, stafi, bakpoka, GPS, áttavita og annað það sem telja verður bráðnauðsynlegt eins og kort og sjúkragögn, ekið óravegalengd að einhverju fjalli og svo er arkað af stað.

Á leiðinni upp getur ýmislegt skeð, fjallgöngumaðurinn rennur í skriðum, fer vitlausu megin við auðveldu leiðina, grípur í handfestu sem reynist svo vera laus steinn og misstígur sig í ójöfnum. Áfram er samt haldið og eftir því hærra verður komist, lekur meiri sviti af fjallgöngumanninum uns komið er á hæsta topp, þá venjulega gjörsamlega úrvinda af þreytu og lofar sjálfum sér því að fara aldrei aftur á fjall.

Síðan eru teknar nokkrar myndir á toppnum, þó með því skilyrði að toppurinn sé ekki hulinn skýjum og síðan er labbað niður aftur.

Látið mig þekkja þetta. Í sumar er ég búin að fara í 19 fjallgöngur, þó aðeins á fjórtán mismunandi fjöll. Síðasta fjallið var í dag, en þá var ráðist á Geitafellið vestan við Þrengslaveg.

Ég hafði lesið mig til um fjallið, sagt vera auðvelt uppgöngu nánast hvar sem var og þar sem ég nálgaðist fjallið horfði ég á þverhnípta hamraveggina. Ég ákvað því að rölta suður með fjallinu uns ég kom að gili einu og óð af stað upp gilið. Ekki leið á löngu uns ég fór að angra ákvörðun mína um að fara upp á þessum stað svo laust var grjótið við gilið og engin handfesta í sprungnu móberginu. Ég gafst þó ekki upp og hélt áfram og komst ofar og ofar og lét hvorki rok né regn stöðva mig.

Að lokum stóð ég á toppnum, blásandi eins og fýsibelgur, sá fátt af fjöllum vegna regnskúra og hélt niður aftur.

Enn einu fjallinu hafði verið bætt við afrekaskrá mína og nú má hefja leit að næsta fjalli sem verður lagt að fótum mér.


0 ummæli:







Skrifa ummæli