fimmtudagur, apríl 29, 2010

29. apríl 2010 - Um Prestastefnu 2010

Því yrði seint haldið fram að niðurstaða Prestastefnu um hjúskaparmál samkynhneigðra kæmu mér á óvart. Þó vonaðist ég eftir jákvæðum viðbrögðum miðað við að meirihluti prestastéttarinnar virðist kominn á þá skoðun að best sé og heillavænlegast að sömu hjúskaparlög gildi fyrir alla í stað þess að flokka þau niður eftir því hverjum fólk sefur hjá. Því miður fór málið á annan veg og fjölmargir hlýddu kalli biskups um að svæfa málið í nefnd.

Einn helsti baráttumaðurinn gegn jafnrétti á Prestastefnu var Halldór Gunnarsson í Holti sem vitnaði til ónefnds sóknarbarns síns sem fannst núverandi hjúskaparlög ganga of langt. Þetta kom mér á óvart. Sem kennimaður og sérfræðingur í sálgæslu hefði hann átt að leiða sóknarbarnið af villu síns vegar og kenna því að við erum öll jöfn fyrir Guði. Þess í stað hóf hann upp raust sína á Prestastefnu og hóf að básúna út fordómafull orð sóknarbarnsins eins og væru þau hans eigin. Kannski er hann sjálfur sóknarbarnið sem hann vitnaði til, enda trúi ég því ekki að mörg sóknarbarna klerks séu jafn fordómafull og hann virðist vera, ef marka má orð hans á Prestastefnu.

Við getum þó huggað okkur við að Halldór Gunnarsson á einungis fáeina mánuði eftir í sjötugt og mun því láta af prestþjónustu áður en langt um líður. Með eftirlaunum hans mun svartstakkahópurinn innan prestastéttarinnar sem taldi um 15 manns við síðustu Prestastefnu vera kominn niður í tölu sem telja má á fingrum annarrar handar.


0 ummæli:Skrifa ummæli