laugardagur, apríl 24, 2010

24. apríl 2010 - Goodbye Cruel World

Það eru komin fimmtán ár síðan ég lá í sjúkrarúmi á leið niður á skurðstofu Karólinska sjúkrahússins í Solna (Stokkhólmi). Ég held að ég geti fullyrt að 24. apríl 1995 sé stærsta stund lífs míns, dagurinn sem mér tókst að verða ég sjálf með hjálp læknisfræðinnar og frábærra aðila sem studdu mig á örlagastundu. Enn er ég minnug þess er ég sönglaði fyrir hjúkkurnar lagstúfinn góða frá Pink Floyd, Goodbye Cruel World í þann mund sem svæfingarlyfin fóru að hafa áhrif, ég gleymdi gömlu lífi og nýtt líf tók við nokkrum stundum síðar.

Óhikað get ég sagt að árin á eftir voru erfið, fyrstu ár mín sem konu. Þau voru þó hátíð við hliðina á þeim árum sem þegar voru liðin.

Í dag er ég sátt við lífið og tilveruna. Ég hefi öðlast viðurkenningu á sjálfri mér frá samfélaginu og við erum eitt. Stundum brosi ég að tímabundnum erfiðleikum, en umfram allt er ég sáttari í dag en nokkru sinni fyrr.


0 ummæli:Skrifa ummæli