miðvikudagur, júní 15, 2011

15. júní 2011 - Íslenskir hermenn

Í bókasafni mínu á ég tvær bækur sem fjalla um íslenska hermenn. Eldri bókin var gefin út í Winnipeg árið 1923 og heitir því virðulega nafni Minningarrit íslenzkra hermanna og segir frá hundruðum íslenskra hermanna sem tóku þátt í fyrri heimsstyrjöldinni í Evrópu með herjum Bandaríkjanna og Kanada. Í síðasta kafla bókarinnar er sagt frá þeim sem féllu í styrjöldinni, en í bókinni eru æviágrip 144 Íslendinga sem féllu í styrjöldinni.

Hin bókin heitir Veterans of Icelandic Decent World War II. Hún er einnig gefin út í Winnipeg og fjallar um hermenn af íslenskum ættum sem tóku þátt í seinni heimsstyrjöld, Kóreustríði og Víetnamstríðinu. Öfugt við þá íslensku hermenn sem nú berjast við þjóðir Íraks og Afganistan voru margir áðurnefndra hermanna sendir í stríðið í almennri herkvaðningu.
   
Rúffið flutti okkur þá frétt í gær að minnst tíu Íslendingar væru málaliðar í norska hernum í Afganistan. Slíkt þarf ekkert að koma okkur á óvart. Íslenskir strákar hafa ávallt verið tilbúnir í ævintýri úti í heimi, áður fyrr gjarnan í siglingar á erlendum skipum sem sigla um allan heim eða að skrá sig til herþjónustu. Þessir piltar sem nú eru í Afganistan eða Írak eru ekki hetjur af sama toga og þeir sem börðust í heimsstyrjöldunum. Þeir eru í ævintýraleit, en eru í reynd fallbyssufóður í árásarstríði gegn þjóðunum eystra.

Sem friðarsinni ber ég enga virðingu fyrir þessum piltum sem nú berjast í Írak og Afganistan og set stórt spurningamerki við erindi þeirra og tel það vera í andstöðu við friðarsýn fjölmargra Íslendinga. Það er hinsvegar hræðilega erfitt að banna ungum drengjum að láta drepa sig úr því þeir fara sjálfviljugir út á vígvöllinn með leyfi til að drepa eða verða drepnir.


0 ummæli:







Skrifa ummæli