laugardagur, júní 18, 2011

18. júní 2011 - Knattspyrna

Ég verð seint talin mikil áhugamanneskja um fótbolta, hefi ekki farið á fótboltaleik síðan Fram spilaði við Djurgården í Stokkhólmi í Evrópukeppninni árið 1990 og jafnvel þá var það einungis skyldumæting sem Íslendingur á erlendri grundu. Það er auðvitað mun lengra síðan ég fór á völlinn hér heima á Íslandi, sá Val spila við Benfica í sögufrægum leik á Laugardalsvelli í kringum 1970, en þar áður hefi ég væntanlega séð einhvern leik þar sem KR lék sér að andstæðingunum eins og köttur að mús.

Ekki fer heldur mikið fyrir eigin knattspyrnuiðkun. Ég tók þátt í einhverjum leikjum með Aftureldingu þegar ég var tíu eða ellefu ára, en glæsilegt tap í þeim leikjum varð til þess að ég lagði skóna á hilluna. Ég tók þá fram aftur þegar ég var á Bakkafossi og lék einn leik með áhöfninni gegn áhöfninni á norsku skipi í Norfolk í Virginiafylki sumarið 1976. Það var mjög harður leikur þar sem kokkurinn á norska skipinu sem lék stöðu markmanns var sendur með hraði á spítala en bátsmaðurinn okkar fór með til að losa tönn úr norska markmanninum úr sköflungnum á sér. Þarna sannfærðist ég um að knattspyrna og norskt áfengi eiga ekki saman.

Á undanförnum hefi ég gerst mun lítillátari, látið mér nægja að fylgjast með knattspyrnu úr sófanum og fagna því auðvitað innilega í hvert sinn sem Halifaxhreppur eða United of Manchester vinna sig upp um deild í enska boltanum eða þegar KR-ingar leika sér að andstæðingum sínum eins og köttur að mús og ekki má gleyma síðasta heimsmeistaramóti í krullu.

En þetta var þá. Nú liggur meira við. Suður á Jótlandsheiðum ætlar íslenska landsliðið að vinna Dani í fótbolta í kvöld með miklum yfirburðum. Þetta er kannski ekki aðallandsliðið, enda miðað við að leikmenn séu ekki eldri en 21 árs. En við förum ekkert að fást um slíkt smáræði. Auk þess heyrði ég lýsingu af einum leik og þar var sagt frá einum erlendum leikmanni sem væri 23 ára.

Það ætti ekki að vera erfitt verk að skora fjögur vesæl mörk hjá danska markmanninum og fá aðeins eitt á sig. Annað eins hefur skeð eins og í frægum leik við Dani sem fór 14-2. Ekki má heldur gleyma frægum leik við Dani mun fyrr á tuttugustu öld þegar Dönum var fagnað innilega og boðið í reiðtúr daginn fyrir leikinn.

Eitthvað er til af íslenskum hrossum á Jótlandsheiðum og vafalaust hafa eigendur þeirra boðið danska landsliðinu í reiðtúr svo að leikurinn í kvöld ætti að vera auðunninn .................................. eða hvað?


0 ummæli:Skrifa ummæli