fimmtudagur, febrúar 16, 2006

17. febrúar 2006 - Um kvikmyndir og sjónvarpsþætti

Undanfarin fimmtudagskvöld hefi ég setið stjörf yfir ríkissjónvarpinu. Hetjur æsku minnar hafa verið skilgreindar þar í leiknum breskum fræðsluþáttum og ég hefi setið yfir þessum sjónvarpsþáttum, full af spenningi þótt ég hafi vitað söguþráðinn að mestu leyti fyrirfram. Þetta voru að sjálfsögðu þættirnir um frumkvöðla geimferðanna, þá Sergei Pavlovitch Korolev (örugglega vitlaust skrifað) og Werner von Braun.

Í æskuminningunum man ég það enn eins og það hefði gerst í gær er Bessi Bjarnason lék hinn óheppna Júlla Magarín í útvarpsþætti Svavars Gests og lýsti hremmingum sínum, er hann tókst óvart á loft í súrheysturninum sínum og sveif yfir hálfa jörðina í grínþætti þar sem fjallað var um Júrí Gagarín á gamansaman hátt haustið 1961. Síðan hið stórkostlega kapphlaup risaveldanna um yfirráðin í geimnum sem raunverulega lauk með því að menn komust alla leið til tunglsins árið 1969.

Það ber að þakka sjónvarpinu fyrir þessa frábæru þætti um helstu hetjur geimaldarinnar.

-----oOo-----

Loksins er kvikmyndin Transamerica komin í bíó á Íslandi og vil ég endilega hvetja alla sem geta, að skreppa í bíó og sjá þessa verðlaunakvikmynd. Bæði Morgunblaðið og Fréttablaðið fjölluðu um þessa kvikmynd í gagnrýni sinni í gær og annað blaðið gaf sér það að nafn myndarinnar stafaði af ferð mæðginanna þvert yfir Ameríku og kallaði aðalsöguhetjuna fyrir kynskipting. Þetta sýnir vel hve kvikmyndagagnrýnendur dagblaðanna vita lítið um mín hjartans mál og um innihald kvikmyndarinnar.

Þegar ég heyrði fyrst talað um þessa kvikmynd datt mér strax í hug, útfrá nafni myndarinnar, að fjallað væri um transsexual persónu sem reyndist rétt. Ég gef henni allar þær stjörnur sem ég á til.


0 ummæli:







Skrifa ummæli