föstudagur, febrúar 17, 2006

18. febrúar 2006 - Af vetrarólympíuleikum ofl.

Það standa yfir vetrarólympíuleikar í Tórínó á Ítalíu þessa dagana. Ég hefi lítt fylgst með þessu, enda með lítinn áhuga á vetrarsporti, nema þá helst hinni eðlu íþrótt skúringakvenna sem kallast krulla upp á íslensku.

Íslendingar hafa aldrei komist nálægt því að komast á pall á vetrarólympíuleikum, reyndar aðeins einu sinni komist á pall á alþjóðamóti á skíðum þegar Kristinn nokkur Björnsson lenti óvart í öðru sæti á einu móti á skíðum fyrir nokkrum árum. Ólafsfirðingar fylltust þá gífurlegu stolti yfir sínum manni og héldu því fram á eftir að þetta væri stærsta íþróttaafrek Íslendings fyrr og síðar. Þetta mont Ólafsfirðinga hljóp svo illa í vesalings Kristin, að hann hætti að geta staðið á löppunum þegar hann renndi sér niður brekkuna og datt. Að lokum hætti hann keppni á skíðum eftir hundrað byltur og tilheyrandi basl.

Í gær var sagt frá ólympíuleikunum í Tórínó í einhverjum fréttatímanum og byrjaði það á því að þulurinn tilkynnti að það væru góðar fréttir af Dagný Lindu Kristjánsdóttur. Svo kom sjálf fréttin þess efnis að hún hefði orðið næstsíðust í að renna sér niður brekku á skíðum. Mér þóttu það ekki góðar fréttir. Það eru auðvitað góðar fréttir ef Íslendingar komast niður eina brekku án þess að brjóta sig, en ef það eitt nægir, má spyrja sig þess hvers vegna er verið að senda fólk á vetrarólympíuleika?

Það er annars merkilegt hvað þessi þjóð sem kennd er við klaka hefur staðið sig frámunalega illa í vetraríþróttum. Hinar Norðurlandaþjóðirnar vinna hvern gullpeninginn í þessum íþróttum á meðan Íslendingar komast ekki nálægt verðlaunapallinum. Meira að segja Danir hafa unnið til gullverðlauna í vetraríþróttum sem enga eiga þó brekkuna til að renna sér í.

-----oOo-----

Um daginn var frá því skýrt í fjölmiðlum að viðgerðir á þakskeggi Þjóðleikhússins myndu kosta einhver hundruð milljóna. Í leiðinni var því bætt við að heildarkostnaður við að gera við allt húsið væru tveir og hálfur milljarður króna. Dýrt er Drottins orðið, segi ég bara. Ætli þessi tala þýði að það eigi að rífa húsið til grunna og byggja nýtt á lóðinni? Kostnaður við nýtt Þjóðleikhús af sömu stærð og gerð og hið gamla yrði varla yfir þessari upphæð. Það er kannski einfaldasta lausnin, að rífa og byggja nýtt.

-----oOo-----

Svo hefur Silvía Nótt verið valin sem kynþokkafyllsta kona landsins á Rás 2. Hvort ætli Andrés önd eða Hrollur hinn hræðilegi verði kosnir kynþokkafyllti karlinn næst þegar slík kosning fer fram á sömu útvarpsrásinni?


0 ummæli:







Skrifa ummæli