fimmtudagur, febrúar 23, 2006

23. febrúar 2006 - Strákarnir á Borginni

Það hefur verið mikið að gera hjá mér að undanförnu, en ég fann mér ástæðu til að hvíla lúin bein í gærkvöldi, fá mér einn öl og hlýða á boðskap Bubba Mortens og hlusta á gamalt lag um strákana á Borginni.

Upp kom í hugann minning um strák sem var dæmigerður fyrir strákana á Borginni og sem ég kynntist á árunum eftir 1980. Hann var ungur og hann var með fallegustu strákum sem ég hefi fyrirhitt um dagana. Stelpur voru mikið á eftir honum, en hann hafði engan áhuga. Hann hét Sigurgeir og var stundum kallaður Flissfríður sem sagði heilmikið um karakterinn, enda hafði hann gaman af að leika stelpu og hann var hommi af guðsnáð í samfélagi sem hatar þá.

Á þessum árum voru enn skörp skil á milli kynjahlutverka og Sigurgeir fór ekki varhluta af þessum fordómum samfélagsins. Einhverju sinni var hann í kvenhlutverki og var að skemmta sér í miðborg Reykjavíkur og gengu lætin út í nokkrar öfgar, svo mjög að lögreglan sá ástæðu til aðgerða. Er lögreglumennirnir (sem voru greinilega ráðnir fyrir daga upplýsingar um mannlegt eðli) uppgötvuðu hvers kyns var, tóku þeir drenginn inn í Svörtu Maríu og tuskuðu til að hætti þess sem valdið hefur. Þetta hefi ég eftir fólki sem var með honum, en sem gat ekki hönd við reist þegar yfirvaldið var annars vegar og engin urðu kærumálin í kjölfarið. Sjálf var ég víðsfjarri, í útlöndum eða á hafi úti og frétti ekki af þessu fyrr en löngu síðar.

Sigurgeir bar sitt barr aldrei eftir þetta. Um það bil hálfu ári síðar lést hann af völdum alnæmis og var hann í hópi allrafyrstu Íslendinganna sem létust af þeim völdum. Hans var sárt saknað, en fátt hægt að gera nema að reyna að bæta skoðanir almennings á öðruvísi viðmiðum á kynjahlutverkum.

Á þessum árum var ég í krísu. Ég hafði gengið í gegnum misheppnað hjónaband og eignast þrjú yndisleg börn, en hafði ávallt upplifað mig á röngum stað í tilverunni. Ég átti að leika eitthvað sem ég var ekki, eitthvað sem var fjarri eðli mínu. Kynni mín af Sigurgeir, kenndu mér að halda mér á mottunni, að gæta hófsemi og auglýsa ekki eðli mitt. Úr því yfirvöldin beittu þá sem ekki voru jafnöfgakenndir og ég taldist vera á þessum tíma, slíku harðræði sem raun bar vitni, hvernig færu þeir þá að mér? Ég tók enga áhættu og flúði land nokkru síðar, þó ekki af þessum ástæðum sem þó voru ærnar..

Ég vil taka fram að ég hefi löngum átt ágætis samstarf við lögregluna, bæði á Íslandi og í Svíþjóð og veit engan þann starfandi lögreglumann á Norðurlöndum í dag sem vildi feta í fótspor félaga sinna fyrir tveimur áratugum, en hugsið ykkur. Það eru bara tveir áratugir síðan Sigurgeir var laminn af lögreglunni á Lindargötunni í Reykjavík.


0 ummæli:







Skrifa ummæli