þriðjudagur, febrúar 28, 2006

1. mars 2006 - Að vinna vinnuna sína

Þegar ég mætti á vaktina mína á þriðjudagsmorguninn var allt í fári. Nokkrum mínútum áður hafði þrýstingur fallið á helstu flutningsæðunum heitavatnsins frá heitavatnstönkunum á Grafarholti að heitavatnstönkunum á Öskjuhlíð og ljóst að alvarlegur leki hafði orðið á annarri heitavatnslögninni.

Þar sem ég var á vakt í stjórnstöð Orkuveitunnar og ágætlega kunnug hitaveitukerfinu, lenti það að sjálfsögðu á mér að stýra kerfinu í gegnum þessi vandamál í samráði við þá vélfræðinga sem voru á þönum á milli dælustöðva að loka fyrir einstöku kerfi og opna önnur. Ekki mátti þó missa sig í æsingi sem er mjög auðvelt við þessar aðstæður þar sem mikil hætta er á slysum ef eitthvað bregður útaf og með fleiri yfirmenn yfir öxlunum að gefa ráð og fylgjast með. Útivinnuvélfræðingar áttu í basli með að komast leiðar sinnar á milli dælustöðva vegna umferðaröngþveitis og tafði það verkið nokkuð, en þó ekki svo mikið að yrði til skaða.

Þetta gekk ljómandi vel þótt ég segi sjálf frá. Um leið sýnir þessi bilun ágætlega hve reynsla og þekking á víðfeðmu hitaveitukerfinu er mikilvæg. Þótt ekki væri enn lokið við að fylla á biluðu hitaveituæðina er ég fór heim tólf tímum síðar, gat ég með stolti sagt að við hefðum öll gert skyldu okkar með sóma, Reykvíkingum til hagsbóta.


0 ummæli:







Skrifa ummæli