mánudagur, febrúar 20, 2006

20. febrúar 2006 - Játningar syndara

Ég játa. Ég játa að hafa hæðst að íslenska landsliðinu á tunnustöfum sem nú gerir garðinn frægan og rakar saman gullmedalíum á ólympísku tunnustafakeppninni á Ítalíu. Ég játa líka að hafa hæðst að hinnu frábæru söngstjörnu Silvíu Nótt sem er rétt í þann mund að leggja heiminn að fótum sér.

Ætlið þið nú, mínir kæru lesendur sem hafið yfirgefið mig, að halda áfram að lesa bloggið mitt? Nei? Ég er búin að játa syndir mínar. Ég skal bara halda áfram.

Ég játa hér og nú að Kristinn Björnsson er langbesti skíðamaður sem hefur rennt sér á tunnustöfum norðan Tröllaskaga og þótt víðar sé leitað, jafnvel eftir þverum og endilöngum Eyjafirði.

Ég játa líka að hafa gert grín að viðtalinu við Silvíu Nótt í Kastljósinu. Hún var ekkert dauðadrukkin og rugluð. Hún var bara að leika dauðadrukkinn hálfvita. Ég játa einnig að hafa kallað hana trúð. Hún á ekki skilið slíkt viðurnefni. Öll trúðastéttin er þessa stundina að mótmæla orðum mínum og niðurlægingu sinni á stéttinni fyrir framan húsið hjá mér. Ég skal aldrei aftur kalla Silvíu Nótt fyrir trúð. En má ég kalla hana skoffín?

Ég grátbið ykkur um að yfirgefa mig ekki í neyð minni þegar lesendafjöldinn er kominn langt niður fyrir hundraðið á dag. Ég skal aldrei aftur tala illa um Silvíu Nótt eða skíðalandsliðið. Þau eru alveg ógisslea kúl, skillurru!

Loks bið ég danska forsætisráðherrann afsökunar á að hafa krafist þess að hann bæðist afsökunar fyrir hönd dönsku þjóðarinnar vegna þess að einhver ógisslea góður Dani lítillækkaði þessa múslímsku heiðingja skillurru! Ég ætla ekki heldur að tala illa um þennan ógisslea fína Anders Fó Rasmussen. Skillurru!


0 ummæli:Skrifa ummæli