fimmtudagur, febrúar 02, 2006

2. febrúar 2006 - Loksins vaknaði Alþingi af Þyrnirósarsvefni

Í gær fóru fram umræður utan dagskrár á Alþingi um stöðu íslenskra kaupskipaútgerða. Málshefjandi var Guðmundur Hallvarðsson stýrimaður og alþingismaður sem var skipverji á íslenskum kaupskipum á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar og fyrrum formaður Sjómannafélags Reykjavíkur svo honum ætti að vera málið kunnugt. Benti Guðmundur á að Íslendingar væru að tapa þekkingu og reynslu af kaupskipaútgerð vegna sinnuleysis íslenskra stjórnvalda.

Þetta eru orð í tíma töluð. Þeim hefði bara átt að koma á framfæri miklu fyrr. Íslenskri kaupskipaútgerð hefur farið hnignandi í aldarfjórðung fyrir framan augun á íslenskum ráðamönnum og enginn gert neitt né sagt neitt, nema Sturla Böðvarsson sem fagnaði nýju skipi Færeyinga með forráðamönnum Samskipa fyrir einu ári.

Guðmundur beindi máli sínu fyrst og fremst að Árna Mathiesen fjármálaráðherra og kom að tómum kofanum í svörum ráðherrans sem hafði ekkert gert til að kynna sér málin, en ætla hefði mátt að samgönguráðherra hefði átt að hafa forgöngu um slíkt hagsmunamál íslenskra farmanna. Mér er hinsvegar ókunnugt um að Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hafi opnað munninn við þessa umræðu, nema þá til að geispa.

Þegar Eimskipafélag Íslands var stofnað 1914, var það sannarlega óskabarn íslensku þjóðarinnar sem sá siglingar með íslenskum farskipum og íslenskum farmönnum sem mikilvægan hornstein í sjálfstæði þjóðarinnar. Nú eru siglingarnar komnar úr höndum Íslendinga á meðan Alþingi horfir á og gerir ekki neitt.

----o----

Eins og allir vita hafa fjölmiðlar alveg sérlega gaman af að fjalla um sjálfa sig í fjölmiðlum. Tvær slíkar smáfréttir hafa borist eyrum landsmanna síðasta sólarhringinn. Annars vegar er það “sigurlagið” í íslenska hluta Júróvisjón sem reyndist hafa farið á flakk á netinu. Svei mér þá ef ég fékk það ekki líka þótt ég hefi ekki nennt að hlusta á það ennþá auk þess sem Silvía Nótt er ekki í neinu uppáhaldi hjá mér. Ég fæ að heyra það hvort eð er á laugardagskvöldið. Ég er hinsvegar mjög efins í hvort telja beri þennan netflutning lagsins “Til hamingju Ísland” með Silvíu Nótt sem opinberan flutning þar sem lagið hefur ekki verið kynnt opinberlega ennþá. Þegar haft er í huga að fjöldi fólks er búinn að ákveða að kjósa þetta lag án þess að hafa heyrt það, skil ég vel að aðrir keppendur vilji losna við það úr keppninni.

Hin fjölmiðlafréttin er um Guðmund Magnússon. Einhversstaðar sá ég að hann hefði verið rekinn af Fréttablaðinu fyrir að fjalla um DV málið á “ótilhlýðilegan” máta og fengið tiltal fyrir frá yfirritstjóranum Gunnari Smára Egilssyni sem einnig er lærlingur Eiríks Jónssonar yfirsóða á DV sem enn situr á sínum skítuga rassi og heldur áfram að ausa viðbjóði yfir landslýð. Af hverju lét stjórn 365 miðla ekki Gunnar og Eirík fara um leið og Jónas og Mikael? Ég skil það ekki. Allavega mun ég ekki opna DV aftur á næstunni nema með sótthreinsuðum hönskum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli