sunnudagur, febrúar 26, 2006

26. febrúar 2006 - Skammastu þín Björn!

Enn einu sinni hefur það skeð að engin íslensk björgunarþyrla var til taks þegar á þurfti að halda og leita þurfti á náðir erlendra hersveita til að taka þátt í björgunaraðgerðum innan íslenskrar lögsögu. Í þetta sinn uppi á miðju hálendinu, ekki langt frá útreknaðri miðju Íslands, á sjálfum Hofsjökli. Það er ekki mjög langt síðan svipuð staða kom upp, að báðar þyrlurnar voru frá vegna viðhalds og bilunar þegar á þurfti að halda. Þá má ekki gleyma því atviki er þyrluvaktin var heima að hvíla sig og mátti ekki fljúga þegar neyðarkall kom.

Þessar tvær björgunarþyrlur Landhelgisgæslunnar eru orðnar gamlar og þreyttar þótt þær hafi fengið ágætis viðhald í gegnum árin og verið miklir kostagripir. Það er því löngu kominn tími á að endurnýja þyrlurnar og fjölga þeim. Þá þarf og að skipuleggja fleiri vaktir og bakvaktir á þyrlurnar þannig að ávallt séu minnst tvær þyrluflugsveitir tiltækar til björgunaraðgerða

Ekki þýðir að kenna starfsfólki Landhelgisgæslunnar um þennan slóðaskap. Það eru aðrir æðri aðilar sem eiga að skammast sín og jafnvel taka pokann sinn fyrir að sinna ekki þessum nauðsynlegu þörfum. Þá hefi ég sérstaklega í hug manninn sem vill stofna íslenskan her og leyniþjónustu og öryggislögreglu í stað þess að sinna því sem honum ber að sinna lögum samkvæmt, að sjá til þess að Landhelgisgæslan sé nægilega vel búin björgunarbúnaði að hún geti sinnt, ekki einungis einu slysi, heldur og fleirum á sama tíma.

Ég veit ekkert um það hvort fljót viðbrögð hefðu bjargað einhverju í gær, en það verður að hafa í huga að rúmar átta klukkustundir liðu frá því jeppinn lenti ofan í sprungunni og þar til búið var að ná fólkinu úr bílnum. Var þá önnur manneskjan látin. Ég reyni ekki einu sinni að ímynda mér líðan þessa fólks sem sat fast í jeppanum allan þennan tíma. Það væri nær að Íslendingar fari að sinna sínu eigin öryggi á fjöllum sem á sjó í stað þess að herja á bláfátækar þjóðir austur í Asíu undir þungvopnaðri “Friðargæslu”.

-----oOo-----

Nú eru mínir menn í Halifaxhreppi í vondum málum. Eftir að hafa óvart unnið Litlu lömbin í Tamworth í haga hinna síðarnefndu sitja kapparnir nú í 2. sæti kvenfélagsdeildarinnar og mega muna fífil sinn fegri. Það er því ljóst að þeir fá ekkert nammi í pokann sinn á öskudag heldur verða sendir á völlinn að æfa sig í að sparka boltanum framhjá markinu. Þeir eiga einungis eftir að leika tíu leiki það sem af er keppnistímabilinu, þar af sex leiki á heimavelli og flestir þessara tíu leikja eru við lið í neðri hluta kvenfélagsdeildarinnar. Það er því ljóst að mikið má ganga á, svo unnt verði að forða þeim frá þeim hræðilegu örlögum að þurfa að leika í langneðstu deild að ári.


0 ummæli:







Skrifa ummæli