föstudagur, febrúar 24, 2006

24. febrúar 2006 - Bíódagur

Ég fór í bíó í gær og sá kvikmyndina Transamerica á alvöru tjaldi. Það sem helst truflaði mig, var að stúlka sem sat við hliðina á mér var í sífellu að taka á móti sms skilaboðum og senda slík. Af hverju geta þessir unglingar af SilvíuNæturkynslóðinni ekki slökkt á símanum sínum ef þeir fara í bíó?

Ég var ekki nógu ánægð með myndina og skil vel að hún hafi bara fengið tvær stjörnur hjá Ólafi H. Torfasyni kvikmyndagagnrýnanda ríkisútvarpsins. Seinnihluti myndarinnar fór út í einhverja endaleysu a la Hollywood með skírskotun til þeirra sem stjórna bandarískum kvikmyndaiðnaði, en ef marka má bandarískar kvikmyndir, eru gyðingar margfalt fleiri í Bandaríkjunum en þeir raunverulega eru. Ég held að það verði að kenna handritinu um verstu ágalla myndarinnar. Þó er margt áhugavert í myndinni og kannski sérstaklega þetta eilífðar baráttumál okkar sem höfum gengið þessa götu, að fá umhverfi okkar, fjölskyldur, ættingja, vini og aðra, til að viðurkenna okkur og tilfinningar okkar. Um leið vekur myndin upp þá spurningu, af hverju þarf að vera með feluleik í kringum kynáttunarvanda og leiðréttingu á kyni. Sjálf fór ég í gegnum stærstan hluta ferlisins með opnum huga og án þess að vera í feluleik. Þrátt fyrir það er enn til fólk sem telur að ég hefði átt að þegja yfir þessari aðgerð minni sem hverju öðru leyndarmáli.

Þá fannst mér íslenskur texti myndarinnar gjörsamlega misheppnaður. Ég þarf greinilega að skamma bekkjarsystur mína úr gaggó fyrir slæma textun myndarinnar. Að minnsta kosti er full þörf á að það fólk sem þýðir svona kvikmyndir fari á námskeið um kynlegt eðli. Það minnir mig svo aftur á það þegar kvikmyndin Das Boot var sýnd í íslenska sjónvarpinu. Þar sem kafbáturinn lá á hafsbotni með alvarlega vélarbilun fór vélstjórinn til skipstjórans og tilkynnti honum að það þyrfti að skipta um strokkfóðringu. Í textun myndarinnar fór hann til skipstjórans og tilkynnti að það þyrfti að skipta um bullukólfshólf.

-----oOo-----

Aðalfundur Ættfræðifélagsins var í gærkvöldi og man ég vart eftir jafn fljótafgreiddum aðalfundi. Það tókst að ljúka öllum aðalfundarstörfum á innan við klukkutíma og var síðan boðið upp á kaffi og með því. Allt það fólk sem ganga átti úr stjórn var endurkjörið og reksturinn náði að verða hallalaus þótt ýmsar blikur séu á lofti á næstu árum.

-----oOo-----

Af íþróttum er það helst að Svíar eru orðnir ólympíumeistarar í krullu kvenna. Krullan er íþrótt sem Íslendingar ættu að geta náð langt í, enda öllu hættuminna að sópa ísinn með kústi en að brjóta sig á skíðum.

-----oOo-----

Loks eru allar Önnur sem lesa bloggið mitt hvattar til að mæta á Önnuhátíðina á Nýlistasafninu Laugavegi 26, á föstudagskvöld klukkan 20.00.


0 ummæli:Skrifa ummæli