þriðjudagur, febrúar 14, 2006

14. febrúar 2006 - Af Vilhjálmi Þ. ofl.

Af einhverjum einkennilegum ástæðum hefur sá dagfarsprúði og málefnalegi Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson farið mikinn síðan úrslit voru ljós í prófkjöri Samfylkingarinnar. Ég hefi ekki mælt þann tíma sem hann var í útsendingum útvarps í gær, en mig grunar að það hafi verið meira en frambjóðendur Samfylkingar til samans og einvörðungu í þeim tilgangi að skamma Dag B. Eggertsson og kjósendur Samfylkingarinnar.

Hvernig skyldi standa á því að Vilhjálmur sleppir sér svona? Getur virkilega verið að hann sé farinn að óttast um fylgið? Við vitum að tveir helstu andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hafa tilkynnt efstu frambjóðendur sína og í báðum tilfellum er um að ræða öfluga málsvara þess fólks sem stendur í miðju eða til vinstri í íslenskum stjórnmálum. Það er kannski ástæða til að óttast fyrir Vilhjálm því nú hefst kosningabaráttan fyrir alvöru.

-----oOo-----

Síðastliðinn föstudaginn sá ég DV álengdar og blasti þar við mér Haukur Snorrason frá Siglufirði ásamt eiginkonu sinni. Mikið hefur verið á blessaðan manninn lagt frá þeim tíma er við sigldum saman fyrir 35 árum síðan. Í gegnum árin hefi ég reglulega heyrt af nýjum fyrirtækjum og uppátækjum sem Haukur og Örn bróðir hans voru að stofnsetja og áttu að verða að stórfyrirtækjum og gróðamyllum, en af einhverjum ástæðum runnu flestar hugmyndirnar út í sandinn áður en þær komu til framkvæmda.

Fyrir nokkrum árum síðan opnuðu Haukur og kona hans heilunarstöð eða eitthvað þvíumlíkt á Skúlagötunni og fengu þau birt viðtal við sig á einhverri sjónvarpsrásinni. “Hvað skyldi þetta endast lengi?” hugsaði ég með mér og skömmu síðar var búllunni lokað. Svo birtast þau aftur, nú í DV og með beint samband við himnaríki og eru þau nú farin að framkvæma lækningar með hjálp lækna sem komnir eru yfir móðuna miklu. Jahérna hugsa ég með sjálfri mér. Það hlýtur að vera einhver gróði af þessu samkrulli við himnaríkið úr því Haukur virðist ætla að endast í þessu!

Hvenær ætli hann stofni söfnuð í kringum loddaraskapinn?


0 ummæli:Skrifa ummæli