sunnudagur, febrúar 12, 2006

12. febrúar 2006 - Af prófkjöri

Norður á Akureyri fór fram í gær prófkjör Sjálfstæðisflokksins vegna sveitarstjórnarkosninganna í vor. Meðal þátttakenda var flóttafólk úr Samfylkingunni sem ætlaði sér stóra hluti í nýjum flokki, þau Sigbjörn Gunnarsson fyrrum sveitarstjóri í Mývatnssveit og Oktavía Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi og kosin til starfans af meðlimum Samfylkingarinnar á Akureyri.

Ekki veit ég hvað olli því að Sigbjörn og Oktavía snéru baki við flokknum sínum og gengu til liðs við höfuðandstæðinginn, en með því að skipta um flokk, voru þau í reynd að hverfa frá þeirri stefnu Samfylkingarinnar að ganga í Evrópusambandið, en einnig hurfu þau frá ýmsum stefnumálum í velferðarmálum þó ekki vilji ég halda fram að þau hafi yfirgefið sósíalismann. Samfylkingin hefur yfirgefið þá stefnu fyrir löngu og stendur of nærri Sjálfstæðisflokknum í ýmsum þjóðfélagsmálum í dag þannig að það ætti vart að hindra störf þeirra í sveitarstjórnarmálum.

Úrslit prófkjörsins liggja nú fyrir og sitja þessir tveir frambjóðendur eftir með rauðan bossann eftir rassskellingu kjósenda Sjálfstæðisflokksins sem höfnuðu þeim alfarið, en Sigbjörn hafnaði í níunda sæti og Oktavía í því fimmtánda. Það má deila um af hverju kjósendur höfnuðu þessum reynsluboltum úr sveitastjórnarpólitíkinni, en vafalaust munu kjósendur Samfylkingarinnar á Akureyri geta haldið mikla kosningagleði eftir þetta prófkjör, því það er ljóst að ekki fór fylgið með Sigbirni og Oktavíu þegar þau yfirgáfu flokkinn sinn.

-----oOo-----

Ég var farin að hafa miklar áhyggjur af hetjunum hugumstóru í Halifaxhreppi eftir slæmt gengi liðsins að undanförnu í ensku kvenfélagsdeildinni þar sem þær unnu hvern leikinn á fætur öðrum og höfðu komið sér rækilega fyrir í öðru til þriðja sæti í deildinni. Í gær mættu þær nautunum í Héraford í steikhúsi hinna síðarnefndu, belgdu sig út af nautafillé með bökuðum kartöflum og bernaissesósu áður en þær hófu leikinn og þá tókst að bjarga andlitinu.

Hetjurnar okkar skiluðu nú því sem til var ætlast og töpuðu snilldarlega leiknum og féllu niður í sjötta sæti með þessum glæsilega ósigri. Að auki eygja þær möguleika á að komast enn neðar, en Útgönguborg fylgir fast á eftir þeim og á leik til góða gegn vonlausum andstæðingi.


0 ummæli:Skrifa ummæli