sunnudagur, febrúar 05, 2006

5. febrúar 2006 - Enn af handboltanum

Það mætti ætla að ég væri mjög hrifin af handbolta þegar haft er í huga að þetta er þriðji dagurinn sem ég eyði plássi í þá ofbeldisíþrótt. Reyndin er þó sú að ég hefi lítinn áhuga fyrir íþróttinni og enn minna vit á henni.

Í gær birtust fréttir í Morgunblaðinu þess efnis að Viggó Sigurðsson hefði sagt upp störfum sem þjálfari handboltalandsliðsins. Í viðtali við Morgunblaðið kvartar hann sáran yfir fjölmiðlagagnrýni á sig, eða eins og vitnað sé til hans sjálfs, gagnrýni manna sem hafa sinnt þjálfun, en ekki náð merkilegum árangri sjálfir sem þjálfarar. Sjálfur var Viggó Sigurðsson manna óvægnastur við að gagnrýna aðra þjálfara áður en hann komst í núverandi stöðu sína.

Það má vera að umræddur Viggó geti stært sig af góðum árangri með handboltalandsliðið að undanförnu, þótt ekki teldi ég það góðan árangur að fimm leikmenn af innan við tuttugu skuli hafa meiðst á einni viku. Ég er ekki jafnviss um að leikmenn íslenska landsliðsins séu mér og Viggó sammála. Einn hefur tilkynnt að hann ætli sér ekki að leika aftur með liðinu á meðan Viggó sé þar þjálfari. Að auki lá við að Sigfús Sigurðsson færi heim í fýlu fyrir landsleikinn við Norðmenn og sér eftir því í dag að hafa ekki gert það, hafi ég skilið orð hans í Morgunblaðinu rétt. Þá er ljóst að fleiri leikmenn voru reknir útaf í refsingarskyni fyrir geðofsaköst þjálfarans gegn dómurum leikjanna.

Ég hefi ekkert vit á handbolta, en veit hve mannleg samskipti eru mikils virði. Því held ég að það sé í góðu lagi þótt landsliðsþjálfarinn taki pokann sinn í samræmi við uppsögn sína.

-----oOo-----

Björn Bjarnason telur að nýja leyniþjónustan hans sé ekki leyniþjónusta, heldur greiningardeild innan lögreglunnar. Þá vitum við það. Þetta er ekki leyniþjónusta, heldur greiningardeild.

Ég bíð spennt eftir næstu kvikmynd um njósnara greiningardeildar hennar hátignar, James Bond.

-----oOo-----

Ekki gekk betur hjá hetjunum okkar í Halifaxhreppi í gær. Þær lentu í því að spila gegn greyjunum hans Kidda litla og ætluðu sér að spila upp á þægilegt tap til að halda sér í kvenfélagsdeildinni. Það fór þó öðruvísi en ætlað var, því strákarnir hans Kidda litla kunnu bara ekki að skjóta á mark og því endaði leikurinn með steindauðu jafntefli.

Því sitja hetjurnar okkar enn í öðru til þriðja sæti í kvenfélagsdeildinni og mega þær nú fara að örvænta.


0 ummæli:







Skrifa ummæli