laugardagur, febrúar 18, 2006

19. febrúar 2006 - Af Tryggingastofnun og ósigrum

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins kvartar Karl Steinar Guðnason sáran yfir þeirri ósvífni öryrkja að hringja í Tryggingastofnun vegna ósvífinna endurgreiðslukrafna þeirrar stofnunnar gagnvart öryrkjum undir fyrirsögninni: Skjótið ekki sendiboðann!

Mér vitanlega stendur ekki til að skjóta vesalings illa launaða póstburðarfólkið sem ber út þessar tilkynningar frá Tryggingastofnun til fólks. Öryrkjarnir vita sem er að Tryggingastofnun krefur öryrkjana um þessar endurgreiðslur fyrir hönd ríkisvaldsins. Öryrkjar hafa hingað til ekki fengið annað en vont frá ríkisstjórninni sem vill helst ekkert vita af öryrkjum. Því verður að ráðast að þeim sem næstur stendur og það er Tryggingastofnun. Þess þá heldur þegar niðurlag viðtalsins fjallar um mjög gott samstarf Tryggingastofnunar við Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra. Karli Steinari ætti því að vera í lofa lagið að koma þessum skilaboðum frá öryrkjum til ráðherrans næst þegar hann talar við hann.

-----oOo-----

Þrír slæmir ósigrar dundu yfir okkur lítilmáttug á laugardag. Fyrst lenti Dagný Linda Kristjánsdóttir í 28. sæti af 30 keppendum sem luku keppni í svonefndri alpatvíkeppni á vetrarólympíuleikum í Tórinó á Ítalíu. Öfugt við það sem ætla mátti, var þessu tapi fagnað ákaft meðal Íslendinga og má segja að þar sé ólympíuhugsjónin ljóslifandi komin.

Þá tapaði Gránufélagið (Grays Athletics) fyrir hetjunum hugumstóru í Halifaxhreppi í fótbolta. Rétt eins og í fyrra tilfellinu var tapinu fagnað ákaft af stuðningsmönnum Halifaxhrepps þótt þetta sendi þær upp í 2-4 sæti í kvenfélagsdeildinni og auki þar með líkurnar á því að þær þurfi að spila í langneðstu deild að ári.

Loks tapaði íslenska þjóðin undankeppni í Júróvisjón og fagnaði jafnvel enn ákafar en í hinum tveimur tilfellunum. Í hverfinu þar sem ég bý var skotið upp flugeldum í tilefni tapsins þótt vitað sé, að með þessu eru litlar líkur fyrir því að Ísland komist í lokakeppnina í Júróvisjón í Aþenu í vor með trúðinn Silvíu Nótt í fararbroddi. Kannski var þetta hið einasta sem eftir er í áköfum tilraunum til að vinna Júróvisjón, að slá þessu öllu upp í háð og grín. Allt annað hefur verið reynt. Mínar samúðarkveðjur Ísland.

-----oOo-----

Að lokum fær Rakel Bára Þorvaldsdóttir verkfræðingur í Kaupmannahöfn alveg risastórt knús frá mér í tilefni af stórafmælinu. :)


0 ummæli:







Skrifa ummæli