mánudagur, febrúar 13, 2006

13. febrúar 2006 - Af prófkjöri og Toyotu

Nú þegar prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík er lokið verð ég að fagna. Miðað við frambjóðendur í prófkjörinu, get ég ekki ímyndað mér sterkari framboðslista en þann sem kjósendur völdu.

Dagur B. Eggertsson hefur staðið sig vel á líðandi kjörtímabili. Hann hefur gert mistök að mínu mati, en hann hefur einnig haft kjark í sér til að viðurkenna þau og batnandi manni er best að lifa. Ég hafði lítið álit á stjórnhæfni Steinunnar Valdísar í byrjun, en eftir að hún varð borgarstjóri hefur hún vaxið með vegsemd hverri. Stefán Jón Hafstein var ekki beinlínis rassskelltur, en hann kemur samt verst út úr þessu prófkjöri. Ég er alveg sátt við létta hirtingu, enda ósátt við hugmyndir hans um Elliðaárdalinn og óþarfa réttindakröfur laxveiðimanna. Að öðru leyti er ég sátt við Stefán Jón, góðan baráttumann og fylginn sér.

Það er athyglisvert að í tveimur af fjórum efstu sætunum sitja manneskjur sem hafa verið óflokksbundnar í Samfylkingunni, Dagur B. og Björk Vilhelmsdóttir í fjórða sæti. Hann er nýgenginn í flokkin, en hún yfirgaf Vinstrigræna og bauð sig fram á lista Samfylkingar án þess að bindast á klafa flokksins og náði góðum árangri. Loks ber að fagna Oddný Sturludóttur sem kom inn án þess að hafa verið áberandi í flokknum, fór hægt af stað og lenti í fimmta sæti.

Ég lendi í vandræðum. Svandís efst hjá Vinstrigrænum og Dagur hjá Samfylkingu. Mig grunar að yfirburðir Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík að undanförnu muni minnka verulega eftir þessi glæsilegu úrslit.

-----oOo-----

Undanfarin tvö sunnudagskvöld hafa verið á dagskrá sjónvarpsins þættir um Bítlabæinn Keflavík. Ekki ætla ég að deila um gæði þessara sjónvarpsþátta eða hvort þeir hafi verið lofgjörð til handa Rúnari Júlíussyni. Það var kannski ekki ætlunin, en ég sat yfir báðum þáttunum og naut þeirra í botn.

Í huganum þyrluðust upp minningar frá þeim tíma er ég var að svindla mér inn í Glaumbæ um helgar, en þá gilti 20 ára aldurstakmark til að komast þangað inn, en tekið vægar á því á fimmtudögum. Þá var nú gott að eiga frænda sem vann í Glaumbæ, Jón heitinn Hildiberg. Þess má geta að Glaumbær brann 26 dögum áður en ég náði tvítugsaldri. Þá var ég víðsfjarri og tvítugsafmælinu var eytt í hafi á leið frá Nýfundnalandi til Finnlands.

Seinni þátturinn var mér öllu skemmtilegri en hinn fyrri, Ðe Lónlí Blú Bojs og Lummurnar sáu til þess og allar minningarnar sem tengdust árunum eftir gos. Fleiri svona þætti takk.

-----oOo-----

Toyota-umboðið á Íslandi er talið eitt frábærasta bílaumboð landsins. Ekki er það einungis vegna góðra bifreiða, heldur og vegna einstaklega góðrar þjónustu við viðskiptavini sína. Ég minnist þess er ein góð vinkona mín og vinnufélagi fékk sér ársgamla Toyotu hjá umboðinu fyrir nokkrum árum. Það kom einhver smágalli upp í bílnum og hún þurfti að setja hann á verkstæði hjá Toyota. Hún fékk annan bíl lánaðan á meðan hennar var inni, endurgjaldslaust. Er hún sótti bílinn daginn eftir, var ekki einungis búið að gera við bílinn. Það var búið að þrífa hann hátt og lágt og á milli framsætanna lá lítill konfektkassi. Þessi stelpa er orðin tryggur viðskiptavinur Toyota til framtíðar.

Þegar ríkisstjórnin var sem mest í höndum útgerðarauðvaldsins um miðjan áttunda áratugarins og óðaverðbólgan hin versta sem sést hefur frá 1923 í Evrópu, var ég á togara í Vestmannaeyjum. Þegar við vorum í landi var gjarnan skroppið á ball og hlustað á Gylfa Ægisson og Ðe Lónlí Blú Bojs. Útgerðin átti eitt landfarartæki sem var Zetor dráttarvél og er til mynd af útgerðarstjóranum sem ekur um á Zetornum. Sá heitir Magnús Kristinsson og var sonur útgerðarmannsins Kristins Pálssonar.

Síðan eru liðin mörg ár. Togarinn er enn að, orðinn 33 ára gamall, en útgerðarstjórinn heldur betur farinn að færa út kvíarnar. Nú er hann orðinn Útgerðarmaðurinn, faðirinn látinn og er sárt saknað. Maggi hefur hinsvegar prófað ýmislegt á undanförnum árum. Hann var einn helsti hvatamaður kaupanna á enska knattspyrnuliðinu Stoke, en viðurkennir að þau kaup hafi verið mistök. Um áramótin keypti hann Toyotaumboðið. Fyrir helgina bætti hann um betur og keypti Bílaleigu Loftleiða (Hertz). Getur það verið? Samkvæmt orðum sjávarútvegsráðherra er útgerðin á hausnum?

http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frett.html?nid=1184769


Ég þekki Magga Kristins ágætlega og hann er góður félagi. Ég veit og að hann fer vel með sitt og sinna. En er þetta ekki einum of? Hann kaupir besta bílaumboð landsins einn daginn og stærstu bílaleigu landsins hinn næsta. Allt á sama tíma og útgerð á Íslandi er á hvínandi kúpunni!!!!

-----oOo-----

Þá er það á hreinu. Bíllinn hans Steingríms J. Sigfússonar sem hann keyrði útaf um daginn er af gerðinni Toyota LandCruiser 100. Það sést greinilega á myndum sem fylgja vef VÍS þar sem bíllinn er auglýstur á uppboði tjónabíla

http://utbod.vis.is/items/auctionItem.aspx?idAuctionItem=1596

Það má svo velta fyrir sér þegar myndirnar eru skoðaðar, hvort rétt sé að Steingrímur hafi gleymt að spenna beltin í þessari örlagaríku ferð? Öll rifbein öðru megin brotna, lunga leggst saman, stýrið beyglast, dæmigert fyrir þann sem notar ekki bílbeltin. Er ekki kominn tími til að alþingismenn fari að nota bílbeltin sem þeir lögleiddu?


0 ummæli:







Skrifa ummæli