mánudagur, febrúar 06, 2006

6. febrúar 2006 - Tapsár?

Þá hefur Kristján Hreinsson stórskáld í Skerjafirði lagt fram stjórnsýslukæru gegn útvarpinu vegna lagsins hennar Ágústu Evu Erlendsdóttur alias Silvíu Nótt í íslensku útgáfunni af Júróvisjón. Það er eðlilegt að hann sé sár. Það er ákveðið að hún muni vinna keppnina rétt eins og að búið er að ákveða að Ragnhildur Steinunn mun vinna atkvæðagreiðsluna um kynþokkafyllstu konuna á konudaginn eftir nokkrar vikur.

Það er kannski ekki alveg hægt að bera þær tvær saman, Ragnhildi og Silvíu. Ragnhildur Steinunn er að því leyti verðugur arftaki fjarskyldrar frænku minnar að norðan sem ekki fékk að vinna þennan titil í fyrra, að hún er í sambúð með frænda mínum í fjórða lið af Varmadalsættinni, en unglingar Íslands ætla að kjósa Silvíu Nótt. Þeim er alveg sama um gæði lagsins sem mér finnst óttalega lélegt, eða er það söngkonan sem er léleg?

Í fyrra tók einhver Norðmaður í glansgalla og grín, þátt í Júróvisjón með eitthvert það lélegasta þungarokkslag sem ég hefi heyrt. Hann komst alla leið í lokakeppnina á sama tíma og Selma okkar Björnsdóttir féll úr undankeppninni með lag sem spáð hafði verið sigri. Af hverju ekki að grínast líka? Eftir tuttugu ár af alvöru og sigurvonum hefur ekkert gengið og kominn tími til að reyna eitthvað nýtt.

Fyrir tveimur árum söng náungi einn frá Austurríki um dýrin sín í Júróvisjón og var með mömmu sína á sviðinu. Íslenskir fjölmiðlar fóru háðulegum orðum um þetta ágæta framlag, en íslenska þjóðin gaf því tíu stig ef mig misminnir ekki og það fékk þrjár hringingar frá mér auk þess að það endaði mjög ofarlega í lokakeppninni.

Látum Kristján Hreinsson sigla sinn sjó. Þótt ég sé langhrifnust af laginu með Regínu Ósk, þá held ég að Silvía Nótt ásamt Homma og Namma fari alla leið í lokakeppni Júróvisjón.


0 ummæli:Skrifa ummæli