miðvikudagur, febrúar 08, 2006

9. febrúar 2006 - Af dópistum

Ljóst er að orð mín frá því í gær ollu nokkurri geðshræringu meðal lesenda minna og hefi ég því ákveðið að fresta frekari skrifum um Múhameð spámann um sinn. Það er líka nóg annað sem ég er að velta fyrir mér.

Fíkniefnadeild lögreglunnar hefur vakið athygli á því að læknar hafi aðstoðað fíkniefnasmyglara við að losa efni úr innyflum þeirra, hafi þau stoppað á leiðinni út. Jafnframt þessu hafa þeir gert þá kröfu til lækna, að þeir tilkynni til lögreglu ef þeir þurfa að hjálpa fólki við að ná efnunum út, en læknar bera við þagnarskyldu sinni gegnvart sjúklingnum. Landlæknir hefur bent á þá leið að lagabreytingu þurfi á Alþingi til að unnt sé að létta á þagnareið lækna og að það þurfi að fara mjög varlega í slíka lagasetningu.

Mín skoðun á þessu máli er einföld. Næst á eftir læknaeiðnum er þagnarskyldan nánast heilög. Með því að kjafta frá, eru þeir að storka örlögunum. Því er einfaldast og best að reglurnar skuli áfram vera svo harkalegar sem hingað til.

Ég hefi aldrei prófað sterkari fíkniefni en tóbak og brennivín. Ég hefi alla tíð verið mjög andvíg neyslu ólöglegra fíkniefna og ég þekki lítið til þeirra undirheima þar sem misnotkun fíkniefna ræður ríkjum. Eitt veit ég þó, eins og reyndar stór hluti almennings, að fíkniefnaheimurinn er harður og menn svífast þar einskis við að ná fram markmiðum sínum. Eitt og eitt mannslíf skiptir litlu máli fyrir þá sem þar ráða og fátt gert í þeim tilgangi að koma illa höldnum einstaklingum undir læknishendur ef eitthvað bjátar á eins og dæmin sanna sbr líkfundarmálið fyrir austan og fleiri mál þar sem menn svikust um að kalla á aðstoð ef einhver var við dauðans dyr.

Hvernig verður þá ástandið ef lög krefja lækna um að kjafta frá ef þeir komast að einhverju slíku í starfi sínu? Svarið er einfalt. Sjúklingarnir munu í flestum tilfellum verða látnir deyja drottni sínum frekar en að þeim verði komið til aðstoðar og líkfundarmálunum mun fjölga mikið.

Það eru vafalaust til svo illa þenkjandi einstaklingar sem hugsa sem svo, að með því að einhver dópsmyglarinn deyi, verði einum dópistanum færra. Ég lít hinsvegar svo á að lífið sé heilagt og að það sé ítrasti réttur sérhverrar manneskju. Allt sem gert er í þeim tilgangi að deyða manneskju eða að koma í veg fyrir að hún njóti sjálfsagðrar læknishjálpar er af hinu illa. Það er sama hversu illa einn einstaklingur er haldinn af fíkniefnaneyslu, það mun enginn aðstandandi geta hugsað sér að neytandinn deyi, hvað þá á jafn grimmilegan hátt eins og með stíflaða þarma.

Hversu mörg lík ætli liggi þegar innlinduð í svarta plastpoka á hafsbotni hringinn í kringum landið og hversu mjög mun þeim fjölga verði hugmyndir fíkniefnalögreglunnar að veruleika? Þá er nú betra að læknarnir afhendi efnin til lögreglu án þess að segja til smyglarans.


0 ummæli:







Skrifa ummæli