Eins og ég hefi margoft komið inn á í pistlum mínum á árinu 2008, var árið 1968 mikið tímamótaár, ekki aðeins fyrir mannkyn heldur einnig fyrir mig. Þetta var árið sem brestir fóru að sjást í sovétkommúnismanum og sem ungt fólk í Vestur-Evrópu fór í vaxandi mæli að hafna lífsgæðakapphlaupinu og alheimskapítalismanum. Þá var kreppa og rétt eins og þá þurfum við enn að fara í naflaskoðun og hafna gróðahyggjunni sem hefur leitt okkur á vonarvöl. Sjálf var ég að taka út þroska og síðustu daga ársins dundaði ég mér við æfingartíma því nú skyldi tekið ökupróf.
Það var að morgni þess 30. desember 1968 sem ég mætti í Borgartún 7 ásamt ökukennaranum mínum því hann vildi vera viðstaddur. Svo kom birtist ungur og snaggaralegur prófdómarinn í fullu úniformi bifreiðaeftirlitsmanns og settist farþegamegin inn í litlu Volkswagen bjölluna, ökukennarinn afturí og ég undir stýri. Það voru að sjálfsögðu engin öryggisbelti í bílnum því krafa um notkun öryggisbelta í ökuprófi tóku gildi tveimur dögum síðar.
Þetta var löng ökuferð. Það var þvælst um allan bæinn og ökukennarinn og prófdómarinn hnakkrifust um pólitík, enda ástandið í pólitíkinni álíka eldfimt og nú, Þorláksmessuslagurinn einungis vikugamall, en Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur í viðreisnarstjórn sem hamaðist við að reka atkvæðin úr landi, til Svíþjóðar og Ástralíu.
Það var bakkað í stæði og gerðar fleiri skemmtilegar æfingar. Ég minnist þess þó að ég gerði eina villu í prófinu, en ég veit ekki hvort það var af völdum athyglisbrests prófdómarans sem var orðið heitt í hamsi í pólitískum umræðum, að hann minntist aldrei á villuna eða sá hana aldrei. Allavega hélt hann mikla lofræðu yfir ökuhæfni minni er komið var að nýju niður í Borgartún og fullyrti það að ef ökumenn ækju almennt eins og ég, yrðu fá slys í umferðinni. Um eftirmiðdaginn flýtti ég mér svo öðru sinni í Borgartún 7 og sótti ökuskírteinið mitt.
Þótt ég hafi ekið eins og ökuníðingur allar götur síðan, er ökuferilsskráin eins og hjá hverjum góðum hvítvoðung, en fyrstu sektina fékk ég 17 árum síðar og þá fyrir að vera einum kílómetra yfir sektarmörkum. Hin sektin var tuttugu árum eftir hina fyrri og lítið hærri. Þá hefi ég einu sinni valdið smátjóni á bíl með vinnubílnum, en þá bakkaði ég yfir vélahlífina á smábíl, en hann hafði stöðvað svo nálægt mér að ég sá hann ekki í speglum hins háfætta vinnubíls.
Kannski átti ég það skilið að ná bílprófinu fyrir 40 árum.
Um leið og ég óska sjálfri mér til hamingju með ökuprófsafmælið, vil ég óska öllum hinum afmælisbörnum dagsins einnig til hamingju með afmælið, þar á meðal Albert frænda mínum hjá Hitaveitu Suðurnesja sem er sextugur, og Rannveigu konu hans sem er mörgum árum yngri og svo að sjálfsögðu Tiger litla Woods sem er kylfusláttumaður vestur í Bandaríkjunum. Svo má nefna að fjórum dögum eftir að ég tók ökuprófið, fæddist næsti afburðaökumaður í Þýskalandi, en sá heitir Michael Schumacher og er kominn á eftirlaun fyrir fáeinum árum.
mánudagur, desember 29, 2008
30. desember 2008 - Enn ein fertug sagan.
laugardagur, desember 27, 2008
27. desember 2008 - Vitringarnir þrír
Þegar ég skrifaði pistilinn minn í gær reiknaði ég fastlega með þvi að tveir til þrír vitringar kæmu með gáfulegar athugasemdir á orð mín um Joseph Ratzinger. Vissulega skiluðu þrír vitringar sér (sjá Moggabloggið mitt), bara ekki þeir sem ég átti von á, nema auðvitað að ónefndur vinur minn, sem ég ber mikla virðingu fyrir á öðrum sviðum, sé farinn að skrifa gegn mér undir heitinu Efasemdir. En þrír voru þeir sem tóku að sér að verja ræfilstuskuna suður í Róm.
Það eru nokkrir vitringar sem telja sig vera með sérleyfi á trúmálum og þá sérstaklega orðum Biblíunnar. Verði þeim að góðu. Ég er ekki sérfræðingur í orðum Biblíunnar og þótt ég kannist við einstöku frasa úr þeirri bók, tek ég hæfilega mikið mark á henni, þó síður á gamla testamentinu sem er skrifað á margan hátt í anda úreldra samfélagsviðhorfa.
Einn vitringanna þriggja spurði hvort viðhorf mín væru komin úr hinni nýju þýðingu Biblíunnar. Svar mitt er einfalt. Það er nei. Viðhorf mín byggjast á almennri siðgæðisvitund um kærleika og fyrirgefningu í anda nýja testamentisins. Orð mín um það hvaða fólk sefur hjá hverjum er hinsvegar í anda nútímaviðhorfa sem eru að ná yfirhöndinni á vesturlöndum. Sumir kjósa samt að lifa í forneskju og anda gamla testamentisins.
Ég er að lesa sögu Harðar Torfasonar. Sumar af lýsingum hans þekki ég af eigin skinni frá fyrri árum, aðrar frá liðnum árum. Baráttunni er ekki lokið og henni lýkur seint á meðan karlar í hvítum kjólum á borð við Joseph Ratzinger halda áfram hatursáróðri sínum gegn minnihlutahópum í samfélaginu. Á meðan þurfum við að halda minningarvökur um tugi einstaklinga sem hafa látið lífið á hverju ári vegna fordóma, margir í kaþólskum ríkjum.
Með þessu langar mig að þakka þeim sem sjálfviljugir hafa haldið uppi vörnum fyrir mína hönd, þótt ég hafi kosið að þegja vegna blóðþrýstingsvandamála.
Svo ætla ég að klára Hörð Torfason ættingja minn með því að taka hann með mér í anda í rúmið í nótt.
föstudagur, desember 26, 2008
26. desember 2008 - Karl í hvítum kjól
Það ætti síst að vera mitt hlutverk að dæma karla sem ganga í kjólum, hvað þá hvítum kjólum, en einn er sá karlinn sem böðlast áfram suður í Róm og formælir öllum þeim sem gera slíkt hið sama, eða leggjast með öðrum körlum. Mér er að vísu ókunnugt um hvort Joseph Ratzinger páfi sé samkynhneigður, en samkvæmt opinberum gögnum hefur hann aldrei verið við kvenmann kenndur. Slíkur náungi sem að auki er klæðskiptingur, ætti að sleppa því að fordæma trans eða samkynhneigð.
Ég fékk fyrst að heyra af orðum mannsins gegn transfólki fyrir nokkrum dögum er ég fékk í hendurnar ræðu hans á ítölsku með úrdrætti á ensku þar sem hann talar um transfólk og síðar heyrði ég að hann hefði notað álíka gáfuleg ummæli um samkynhneigða. Í báðum tilfellum fannst mér hann höggva nærri sjálfum sér, gangandi um í kjól alla daga með karla í kringum sig jafnt daga sem nætur
Stundum efast ég um að við tilbiðjum sama Guð því almættið sem ég trúi á er uppfullt kærleika og fyrirgefningar á syndum mannanna. Það trúir á hið góða í hverri manneskju og er ekkert að skipta sér af því hvað fer fram í bólinu hjá fólki á meðan það er innan marka þess sem tvær fullorðnar manneskjur geta gert hvor annarri á meðan það er að vilja beggja.
Úrdráttur á ensku úr ræðu Josephs Ratzinger:
"... the Church (...) has a responsability for the creation and must endorse such responsability in the public sphere. By doing it, [the Church] must not only protect earth, water, air as gift of the creation belonging to everybody. It must protect mankind from self-distruction. something like "mankind ecology" is needed. The fact that the Church talks of the nature of the human being as man and woman and claims that this order of creation is respected is not obsolete metaphysics. In fact, this is about faith in the Creator and in listening to the word of the creation, whose contempt would be the self-distruction of mankind and, thus, the distruction of God's work itself. What it is often expressed and meant by the word "gender" is in fact mankind self-emancipation from the creation and the Creator. (...)"
Og svo ræðan öll á ítölsku:
http://www.vatican.va/holy_father/benedict_xvi/speeches/2008/december/documents/hf_ben-xvi_spe_20081222_curia-romana_it.html
fimmtudagur, desember 25, 2008
25. desember 2008 - Lífið var fjölbreytt fyrir 40 árum
Það skeði margt fyrir 40 árum ekki síður en nú, bæði gott og slæmt. Þá var kreppa eins og nú. Það voru miklar deilur í þjóðfélaginu og þegar Þorláksmessuslagurinn var í Bankastræti, var ég úti að aka með ökukennara. Mér lá á svo mér tækist að ná bílprófinu á afmælisdaginn. Í einhverjum bílskúr úti í bæ var Kobbi bróðir að skrúfa síðustu skrúfurnar í niðursetningu á nýuppgerðri vél í gömlum Ford árgerð 1955.
Á aðfangadag jóla árið 1968 var bíllinn tilbúinn og prófaður. Kobbi bróðir bauð mér með austur á Hvolsvöll, en systir okkar hafði náð sér í eiginmann úr Fljótshlíðinni og tilvalið að heimsækja þau yfir jólin. Systur okkar var tilkynnt að við ætluðum að vera komin austur klukkan fimm og svo var lagt af stað úr Reykjavík klukkan fjögur. Ekki þurfti bróðir að hafa áhyggjur af hraðanum því núverandi yfirvald á Selfossi var þá í jólaleyfi heima á Írafossi frá 3. bekk í MR.
Á þessum árum var að sjálfsögðu malarvegur alla leið og það var kalt, en ekki mikil hálka. Eins og áður sagði var bíllinn með nýuppgerða vél og ágætlega kraftmikill og bróðir lét gamminn geysa. Allt gekk vel í fyrstu og er við fórum í gegnum Selfoss sáum við fram á að verða ekki mikið á eftir áætlun. Nokkru austar komum við að bíl úti í vegkanti með vélarhlífina opna og bílstjórinn að bjástra eitthvað. Þetta var stór og gamall amerískur kaggi sem var meira en bróðir minn gat látið afskiptalaust og hann fór að aðstoða bílstjórann sem virtist á svipuðu reki og við, kannski lítið eldri.
Kannski var bensínstífla að hrjá kaggann, kannski frosið í leiðslum, en ekki fór hann í gang. Eftir heilmikið basl gáfust þeir upp á viðgerðinni og ákváðu að draga bílinn heim til stráksa lengst upp í Hreppa og gekk sú ferðin ágætlega. Eftir að hafa skilað honum heim á hlað, var haldið áfram austur á Hvolsvöll og er þangað var komið, var klukkan um níu á aðfangadagskvöld jóla. Voru systir mín og mágur þá farin að óttast um okkur og mágur minn að gera sig kláran að hafa samband við björgunarsveitina á Hvolsvelli þar sem hann var sjálfur meðlimur.
Það má svo fylgja sögunni að er við héldum áleiðis til Reykjavíkur á annan dag jóla, komst bíllinn með nýuppgerða vélina aldrei lengra en upp í Kambana en þar gaf hann upp öndina með kolúrbrædda vél.
Á aðfangadagskvöld jóla 2008, fjörtíu árum síðar, mætti ég á réttum tíma í mat til systur minnar og mágs sem nú eru ein eftir í kotinu sem nú er í Kópvogi og tilvalið að rifja upp gamlar minningar.
Með þessum orðum óska ég öllum áframhaldandi gleðilegra jóla.
miðvikudagur, desember 24, 2008
24. desember 2008 - Úti að aka á aðfangadag
Ég fór út að aka eftir hádegi á aðfangadag. Ekki þurfti ég að aka í miklum æsingi, aðeins að skreppa með jólagjöf til handa ungum og upprennandi KRing í vesturbænum, aðra gjöf til Jóns á Völlunum og þá þriðju til heimsætu ofan snjólínu í Breiðholti og fjölskyldna þeirra. Semsagt allt í samræmi við hefðir jólanna.
Þegar ég nálgaðist vesturbæinn, kom fyrsta hindrunin, fólk á leið í kirkjugarðinn og vildi njóta síðustu mínútnanna ofanjarðar. Engin alvarleg hindrun það. Umferðinni framhjá Fossvogskirkjugarði var stjórnað af vöskum lögregluþjónum og var það vel.
Umferðin suður í Hafnarfjörð var hræðileg. Sumir voru að flýta sér en aðrir óku eins og þetta væri þeirra síðasti dagur sem ætti að njóta til fullnustu. Ég hitti fjölskylduna á Völlunum og afhenti þeim pakkana sína. Á leiðinni þaðan lenti ég fyrir aftan einn á 30 km hraða á Reykjanesbrautinni og hann var sennilega á leiðinni FRÁ kirkjugarðinum og ég fór að óttast að ég næði ekki jólabaðinu fyrir klukkan sex.
En heim komst ég að lokum og í jólabaðið.
-----oOo-----
Ég vil óska þessum fáu lesendum mínum sem eftir eru sem og öllu öðru góðu fólki gleðilegrar hátíðar í Guðs friði.
24. desember 2008 - Snillingur kveður
Í morgun lést sænski listamaðurinn Alf Robertsson einungis 67 ára að aldri. Það sem ég held að hafi hrifið flest það fólk sem hlustaði á hann, var meðferð hans á laginu við sænska þjóðsönginn og hvernig hann tengdi sænskt hversdagslíf við þjóðsönginn með nýjum upplesnum texta þar sem lagið við þjóðsönginn var spilað undir.
Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í að tala um ævi og störf Alf Robertsson, en hann var meðal fremstu sona Gautaborgar, en vísa til fréttar um hann í Dagens nyheter, en einnig þessarar snilldar sem finna má á http://www.youtube.com :
http://www.youtube.com/watch?v=-L4m6YTnbn8
http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=2374&a=867557
þriðjudagur, desember 23, 2008
23. desember 2008 - Litli útrásarvíkingurinn
Eitt af skylduverkefnum Þorláksmessu ef tími leyfir, er að fara í friðargöngu. Hún leggur venjulega af stað frá Hlemmi klukkan 18.00 og gengið niður í bæ, í þetta sinn niður á Hallærisplan sem nú hefur hlotið hið virðulega heiti Ingólfstorg.
Veðurmáttarvöldin voru okkur náðug í þetta sinn. Þrátt fyrir regnskúr rátt fyrir gönguna stytti upp og hélst þurrt þar til göngunni og útifundinum var lokið, en þar hélt hin síunga Birna Þórðardóttir aðalræðuna þótt Hamrahlíðarkórinn væri auðvitað í aðalhlutverkinu, syngjandi jólasálma alla leiðina og skapaði þannig stemmninguna sem hæfir deginum fyrir stærstu hátíð ársins.
Það sem vakti helst athygli mína í göngunni var ekki einvörðungu fagur söngur Hamrahlíðarkórsins, heldur dularfullur skeggjaður maður sem gekk á móti friðargöngunni rétt eins og þriðji síðasti Framsóknarmaðurinn fyrir tveimur árum. Maðurinn, sem var eitthvað kunnuglegur þrátt fyrir skeggið, læddist með veggjum og lét lítið fara fyrir sér og það var því ekki fyrr en ég mætti honum og horfði beint í augu hans sem ég áttaði mig á því hver hann var. Þarna var þá Litli útrásarvíkingurinn mættur ljóslifandi í eigin persónu.
Af því að ég var í friðargöngu, sagði ég engum frá að sinni og lofaði honum að fara í friði.
23. desember 2008 - Af rýrnun lífeyrissjóðs
Ég skrapp á fund hjá Lífeyrissjóðnum Kili á mánudag. Ekki var við miklu að búast því bæði er framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins sá hinn sami sem fjárfest hafði dyggilega í helstu þjófafyrirtækjum Íslandssögunnar fyrir hönd Íslenska lífeyrissjóðsins með hrikalegri rýrnun í kjölfarið, en einnig kann það aldrei góðri lukku að stýra að halda fund tveimur dögum fyrir jól.
Það var ekki liðinn langur tími af fundinum þegar ljóst var að ekki átti að segja allan sannleikann. Endurskoðandinn sem játaði að starfa hjá KPMG, neitaði að gefa upp hjá hvaða fyrirtækjum lífeyrissjóðurinn hefði fjárfest hjá, en stjórnarformaðurinn hélt því fram að það væru engin fjárglæfrafyrirtæki á listanum. Það er nú gott til þess að vita að Baugur, Stoðir og Exista svo nokkur séu nefnd, eru ekki fjárglæfrafyrirtæki með vafasama starfsemi. Þessi fyrirtæki og mörg önnur í svipuðum dúr komu nefnilega við sögu á fundi Íslenska lífeyrissjóðsins fyrir sex dögum síðan sbr. færslu mína hér að neðan..
Á fundinum kom fram að að rýrnun lífeyrissjóðsins Kjalar hefði verið um 15% að nafnverði á ellefu mánaða tímabili. Á sama tíma var verðbólgan um 18% sem segir að raunrýrnunin var í reynd nærri þriðjungur. Þegar hér var komið á fundinum voru gömlu mennirnir sem höfðu lagt ævistarf sitt í sölurnar í vinnu fyrir Eimskip komnir í reiðiham og fundurinn leystist nánast upp fyrir bragðið.
Ég skil þá félaga alveg mætavel, enda get ég ekki leikið sama leikinn með lífeyrissjóðinn Kjöl og ég gerði á dögunum með Íslenska lífeyrissjóðinn og flutt allt mitt með mér á öruggari stað.
http://velstyran.blog.is/blog/velstyran/entry/747154/
-----oOo-----
Ég vona að lífeyrisþegar Lífeyrissjóðsins Kjalar fái að njóta rausnar Ketkróks í nótt.
mánudagur, desember 22, 2008
22. desember 2008 - Nú er illt í efni, Gáttaþefur á leiðinni!
Það er orðið svo langt síðan ég framkvæmdi jólahreingerninguna að ég þarf að taka til aftur fyrir jól. Þá er ekki sniðugt að Gáttaþefur skuli vera á ferðinni.
Það er ótrúlegt hve hann er duglegur að þefa upp minnstu rykagnir í bókahillunum og ofan á myndarömmum. Þá er hann alveg sérstaklega viðkvæmur fyrir kattaklósettum og þau eru tvö á þessu heimili og bæði komin inn í stofu vegna válegs veðurútlits og varnaðarorða veðurfræðings fjölskyldunnar.
Ég get víst gleymt því að nokkur gefi mér í skóinn í fyrramálið
sunnudagur, desember 21, 2008
21. desember 2008 – Uppáhaldsjólaveinninn minn
Eins og fólk veit, leynist örlítill perri í okkur öllum. Perrinn getur verið af ýmsum ástæðum, fólk kveikir á leðri eða latexi, fagurlimuðum pústurrörum eða reiðhjólum.
Sjálf hefi ég ekki farið varhluta af grunsemdum í þessa veru. Ef ég horfði út um svefnherbergisgluggann minn á árum áður, sá ég beint inn um stofugluggann hjá nágrannakonu minni og þurfti ekki einu sinni að kaupa mér sjónvarp með risaflatskjá, mér nægði bara að fara á sex mánaða námskeið í varalestri til að átta mig á öllu sem fram fór á flatskjánum hinum megin við bílastæðin. Að endingu þoldi nágrannakonan ekki við lengur, seldi flatskjáinn sinn og keypti sér fiskabúr í staðinn.
Ef ég horfi út um stofugluggana eða af svölunum sé ég ágætlega inn í eldhúsið þar sem önnur nágrannakona mín bloggar af miklum móð. Þar sem umrædd nágrannakona er laus við athyglissýki, hefur hún hótað mér að kaupa sér þykkar eldhúsgardínur ef ég horfi yfir til hennar aftur, en ég held að það sé ekkert að marka orð hennar. Allavega tókst mér að draga hana með á tónleika á föstudagskvöldið sem sjá má af síðustu færslu.
Ástæða þess að ég get þessara þátta hér og nú er einföld. Uppáhaldsjólasveinninn minn, hann Gluggagægir, ætlar að stunda peepshow í nótt. Ég þori því ekki öðru en að klæðast mest kynþokkafulla náttfatnaðinum mínum í nótt því ég veit að ég hefi verið góð stelpa og fæ kannski eitthvað flott og sexí í háhælaskóinn minn í nótt.
laugardagur, desember 20, 2008
20. desember 2008 - Illa farið með Dúu dásamlegu!
Á föstudagskvöldið fórum ég og nágranni minn í næsta húsi, á tónleika á Café Rosenberg. Við höfðum mjög jöfn skipti á skemmtuninni, hún keyrði og ég drakk öl.
þegar inn var komið fengum við pláss í sófa við átta manna borð og var nú ekki annað en að vona að Dúa fyndi sér framtíðarprinsinn þarna inni. Ekki leið á löngu uns Kata yfirgöngustjóri frá Gay Pride mætti á staðinn og vantaði sæti fyrir sig og þrjár samkynhneigðar vinkonur sínar og eðlilegt að þær fengju sæti hjá mér. Þá voru einungis tvö sæti laus og leið ekki á löngu uns tveir fjallmyndarlegir karlmenn létu sjá sig og gripu lausu sætin tvö. Þeir reyndust vera Felix og Baldur. Þar með var vesalings Dúa umvafin samkynhneigðu fólki á alla kanta.
Tónleikarnir voru algjör snilld, en þar fóru Borgardætur með jólatónleika sína í troðfullum sal, en tónleikarnir voru teknir upp til útsendingar á Rás 2 um jólin. Að sjálfsögðu skemmti ég mér hið besta, en ég er ekki jafnviss um skemmtunina hjá Dúu þótt hún héldi því fram að hún hefði skemmt sér ágætlega. Það var allavega ekkert hægt að setja út á tónleika Borgardætra sem stóðu sig sem aldrei fyrr og kannski aðeins betur en það.
föstudagur, desember 19, 2008
19. desember 2008 - Enn í jólafríi
Merkilegt hve miklu er hægt að koma í verk á einum degi. Mér tókst að ná í jólagjöfina mína, versla bækur til jólagjafa og kaupa tvö sett af brunavarnarefnum til handa börnum mínum og barnabörnum. Takk Landsbjörg, Ágústa og Jón Ingi.
Það er full ástæða til að geta undraefnisins Burn Free enn og aftur. Ég þekki reynsluna af þessu undraefni og tel að það eigi að vera til á hverju heimili, auk sumarbústaða og eigi að vera með í útilegum að sumri til. Þá skilst mér að þetta sé náttúruefni og því fátt um ofnæmisviðbrögð við slíku efni. Að öðru leyti ætla ég ekki að tjá mig frekar um efnið, en læt örstutt myndband fylgja með um ótrúlega hraðan bruna. Ekki veitir af svona nokkrum dögum fyrir jól. Þess ber að geta að umrætt tré er greinilega orðið of þurrt og við að fella barrið þegar eldurinn verður því að aldurtila.
http://www.guzer.com/videos/christmas_tree_fire.php
Með þessu nota ég tækifærið og hugsa hlýlega til Sigríðar Sigurðardóttir sem var nátengd fjölskyldu minni og lést á Hrafnistu í fyrradag 89 ára að aldri.
fimmtudagur, desember 18, 2008
18. desember 2008 - Burn Free björgunarsett
Þótt það sé vika til jóla er ég komin í jólafrí. Einhverntímann hefði ég verið á leið út á sjó á þessum árstíma, en það er liðin tíð. Núna eyddi ég síðasta vinnudeginum fyrir jól á fundi um öryggismál í vinnunni.
Fundurinn minnti mig á annað atriði sem ástæða er til að velta fyrir sér nokkrum dögum fyrir jól. Það eru brunaslys. Eitthvert það sorglegasta sem hægt er að hugsa sér eru brunaslys í kringum jólin. Þá er ég ekki aðeins að hugsa um skaða á heimili, heldur og líkamstjón vegna bruna.
Fyrir nokkrum árum þurfti að sinna bilun í dælu. Við endurræsingu mótors varð sprenging í honum og eldtunga sleikti andlitið á vinnufélaga mínum. Ég var með efni í bílnum hjá mér sem heitir Burn Free og náði í efnið. Vinnufélaginn makaði þessu efni í andlitið á sér áður en hann hélt upp á Slysadeild til skoðunar. Daginn eftir var hann kominn til vinnu að nýju, án allra brunasára en jafnframt án andlitshára þeim megin sem eldtungan hafði sleikt hann. Síðan þá höfum við haft tröllatrú á þessu ágæta efni sem fæst hjá Landsbjörgu.
Það er kannski óvitlaust að gefa barnafólki fjölskyldunnar Burn Free björgunarsett í jólagjöf.
þriðjudagur, desember 16, 2008
17. desember 2008 - Verðbréfadrengir
Þegar spilaborg bankanna hrundi stóð ég í þeirri trú að ég hefði ekki tapað neinu vitandi að ég hafði fært helming séreignarsjóðsins míns frá hlutabréfabraski yfir í það sem ég hélt vera verðtryggt. Ég þurfti engar áhyggjur að hafa af hinum helmingnum því hann var sannanlega að fullu verðtryggður. Um mánaðarmótin okt/nóv stóð ég enn í þeirri trú að leið 4 í Íslenska lífeyrissjóðnum hjá Landsbréfum/Landsbanka væri á góðri siglingu verðtryggingar og væri lagður af stað í átt að þriðju milljóninni.
Um daginn fékk ég bréf frá Landsbankanum. Samkvæmt bréfinu hafði öruggasta ávöxtunarleiðin í séreignarsparnaði, ekki aðeins rýrnað, heldur rýrnað mest allra sparnaðarleiða í bankanum eða um þriðjung að raunvirði. Vegna þessa sá ég ástæðu til að mæta á fund í Íslenska lífeyrissjóðnum á þriðjudagskvöldið þar sem verðbréfadrengirnir héldu uppi vörnum fyrir sig og verk sín. Hið einasta sem var ánægjulegt við fundinn var að þarna hitti ég allnokkurn hóp gamalla skipsfélaga og annars fólks sem ég þekki frá fyrri árum og drakk kaffi með þeim um leið og hlustað var á afsakanir drengja sem eru vart vaxnir upp úr stuttbuxunum og hvernig þeir gömbluðu með peningana okkar á blóðugu fórnaraltari Jóns Ásgeirs, Hannesar Smárasonar og tengdra félaga.
Í dag fékk ég annað bréf frá einum þeirra lífeyrissjóða sem ég hafði greitt í háar upphæðir á margra ára tímabili. Þar er ástæða til enn meiri ótta, því þeir boða fund með eigendum sjóðsins tveimur dögum fyrir jól.
Þess má geta að framkvæmdastjóri þess sjóðs er sami verðbréfadrengur og var að afsaka sig á fundi Íslenska lífeyrissjóðsins.
Er nema von að maður hafi áhyggjur fyrir jólin?
16. desember 2008 - Ég nenni ekki að blogga
Ég er algjörlega tóm í höfðinu. Ég nenni ekki að blogga þessa dagana. Ég er búin að fá upp í kok af efnahagsþrengingum og pólitík og einustu jákvæðu hlutirnir sem ég man þessa stundina er írakskur fréttamaður sem sýndi af sér djörfung og hetjudáð á blaðamannafundi sem og tilnefning Obama á nýjum orkumálaráðherra sem hlotið hefur Nobelverðlaun í eðlisfræði.
Svo er ég búin að skrifa á jólakortin til útlanda og einungis Íslandskortin eftir. Síðan get ég farið að ljúka jólahreingerningum og pakka inn jólagjöfum.
Jú eitt enn. Fyrir þá sem muna eftir Gylfa Pústmann, þá á sá tryggi vinur minn 66 ára afmæli í dag. Til hamingju.
mánudagur, desember 15, 2008
15. desember 2008 - Jólakortin
Einn af mínum föstu liðum fyrir hver jól er jólakortaritun. Ég geri ekkert endilega eins og algengt var á árum áður og margir gera enn, að safna kortunum frá því í fyrra og svara þeim, heldur reyndi ég fremur að miða við þá reglu að senda kort til þeirra sem ég hafði samskipti við á síðustu árum.
Þetta árið voru samskipti mín við útlönd aðeins minni en árin á undan sem leiðir af sér að jólakortum til útlanda fækkar talsvert á sama tíma og fjöldi jólakorta innanlands stendur nokkurn veginn í stað. Á hverju ári lofa ég mér því að byrja fyrr á korunum og á hverju ári gleymi ég mér þar til um miðjan desember og skrifa kortin á lokasprettinum. Núna skrifaði ég kortin til landa innan og utan Evrópu í gærkvöldi og tók góða rispu í kortum innan Norðurlandanna. Ég ætti því að vera búin með allann pakkann á þriðjudagskvöldið og get þá farið að kaupa afganginn af jólagjöfunum og lesa þessar bækur sem mér hafa áskotnast síðustu dagana.
sunnudagur, desember 14, 2008
14. desember 2008 - Af læknisheimsóknum
Á föstudag átti ég tíma hjá heimilislækninum mínum. Vegna ótta míns um eigið heilsufar, ákvað hann að senda mig til sérfræðings og fékk tíma fyrir mig hjá sérfræðingnum strax eftir áramótin.
Eftir að heim var komið, fletti ég upp á sérfræðingnum í læknatali og hann reyndist vera.............dýralæknir.
-----oOo-----
Á laugardag, eftir bréfamaraþon Íslandsdeildar Amnesty, kom ég við á Aðventugleði Samfylkingarinnar. Hún var nánast eins og Gay Pride því þau tvö sem lásu upp úr bókum sínum voru vinir mínir Hörður Torfason og Margrét Pála Ólafsdóttir.
Bæði eru þau góðir upplesarar og stóðu sig vel sem slík, en það var hrein unun að hlusta á Möggu Pálu segja frá fremur en að lesa úr bók sinni. Ég hlakka til að lesa báðar bækur þeirra sem komnar eru hingað heim.
-----oOo-----
Mér er ókunnugt um hvort kona að nafni Guðlaug og móðir tveggja frændsystkina minna lesi blogg mitt, enda hefi ég ekki heyrt hana né séð í áratugi. En hvort heldur er, fær hún hjartanlegar hamingjuóskir með stórafmælið sitt.
laugardagur, desember 13, 2008
13. desember 2008 - Um Melódíur minninganna
Það er fjöldi fólks sem setur samasem merki á milli Bíldudals og Jóns Kr. Ólafssonar söngvara með meiru, þessa manns sem hefur verið trúr sínum bæ frá fæðingu og fram á þennan dag. Því varð ég að komast yfir æviminningar Jóns Kr. Ólafssonar á Bíldudal á dögunum, enda hefur Jón Kr. frá mörgu að segja á löngum lífsferli þá ekki síst af samferðamönnum sínum lífs og liðnum.
Ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með bókina. Skrásetjari hennar er annar góður Bílddælingur, Hafliði Magnússon sem gert hefur lífinu á nýsköpunartogurum góð skil og þeim ýmsu skemmtilegu karakterum sem þar störfuðu og því bjóst ég við fjörlegri lýsingum á mönnum og málefnum. Það rættist þó ekki því bókin reyndist of mikið bundin við söngferil Jóns og minningar hans af prestum staðarins og safnaðarstarfi, en alls ekki farið mikið í minningar hans af samferðamönnum sínum á Bíldudal fyrr og síðar.
Það er alveg ljóst að ævi Jóns og saga Bíldudals á seinni tímum eru samofin órjúfanlegum böndum, svo órjúfanlegum að ekki er hægt að minnast á sögu annars öðruvísi en að skrifa rækilega um hinn í leiðinni. Þetta vantar að miklu leyti í bókina. Í tilraunum til að hvítþvo allt og alla af einkennum sínum eru æskuminningar kappans afgreiddar í örfáum orðum.
Það er vissulega aðeins getið stöku merkismanns eins og Bjarna senjórs og Ingólfs bróður hans, en alls ekki nóg, enda mikil tengsl á milli Jóns Kr. og þeirra bræðra og náfrænda þeirra Inga Rafns sem hvergi er getið. Annarra er í engu getið, hvergi er nefndur Sigurður frá Uppsölum í Selárdal, bróðir Gísla og Jóns vinar hans í Valhöll er einungis minnst á einni mynd.Þá er fátt sagt af fóstra Jóns Kr., Hallgrími Ottóssyni. Það er ástæða til að nefna þetta því það virtist mikil og góð vinátta á milli þessa fólks og Jóns Kr. og fékk ég á tilfinninguna að sumt þetta fólk héldi hlífiskildi yfir honum er hann var ungur og óreyndur í lífsins ólgusjó og jafnvel fordæmdur af fólki utan síns nánasta umhverfis.
Þessa fólks og fjölda annarra er kannski minnst annars staðar, en það birtist okkur kannski í minningarbrotum þó síðar verði, enda af nógu að taka.
föstudagur, desember 12, 2008
12. desember 2008 - Nákvæmur veðurfræðingur
Á fimmtudag var ég að hlusta á viðtal á einhverri útvarpsstöðinni við einhvern veðurfræðing sem var að vara við miklu hvassviðri á fimmtudagskvöldið. „Veðrið verður mjög slæmt til klukkan ellefu, en þá snýst vindurinn og lægir.“
Ég sat hér heima um kvöldið og rétt fyrir klukkan ellefu um kvöldið vorum ég og Tárhildur grátkisa að fylgjast með ljósastaurunum sem svignuðu í rokinu fyrir utan gluggann. Síðan rölti ég inn í stofu og heyrði þá ekkert í veðrinu. Ég rölti þá aftur inn í herbergi og þá hafði veðrinu slotað. Þá var klukkan rétt orðin ellefu.
Því miður lagði ég ekki á mig nafn umrædds veðurfræðings, en svona nákvæmir menn eru gulls ígildi.
fimmtudagur, desember 11, 2008
11. desember 2008 - Nej, jag blir inte statsmininster!
Þessa rúmu tvo mánuði sem liðið hafa frá því kreppan skall á íslensku þjóðinni hefur ráðmönnum helst verið legið á hálsi fyrir aðgerðarleysi og fyrir að hafa ekki sagt allan sannleikann um ástand mála.
Í gær flutti Göran Persson fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar erindi þar sem hann lagði áherslu á opna umræðu í kreppunni. Hann ætti að hafa reynsluna. Honum er reyndar ætlað að hafa meiri reynslu en efni standa til því hann var skolminister (menntamálaráðherra, ekki menningarmálaráðherra) þegar kreppan skall á Svíþjóð árið 1991. Skömmu síðar féll ríkisstjórn sósíaldemókrata og hægri stjórn tók við völdum og ríkti í þrjú ár.
Þegar hinn geðþekki Ingvar Carlsson tók aftur við forsætisráðuneytinu haustið 1994 var Göran Persson gerður að fjármálaráðherra. Þá þegar höfðu flest skítverkin í kreppunni þegar verið unnin og aðeins eftir að sópa upp leifunum af kreppunni sem lenti í höndunum á Göran Persson. Það var síðan í mars 1996 að Ingvar Carlsson ákvað að segja af sér ráðherraembætti og allir vissu hver væri krónprinsinn, ekki síst eftir að Mona Sahlin hafði þá þegar orðið að segja af sér embætti eftir kaup á Toblerone í fríhöfninni. Krónprinsinn var Göran Persson.
Þegar Göran Persson gekk inn á lokaðan fund þar sem ákveða skyldi hver tæki við stjórn Socialdemokraterna af Ingvar Carlsson í mars 1996, var hann spurður af fréttamönnum hvort hann yrði forsætisráðherra? Svarið var stutt og laggott. Nej, jag blir inte statsminister! svarði Göran Persson með þykkjuþunga.
45 mínútum síðar kom hann út sem væntanlegur formaður flokksins og forsætisráðherra. Þá missti ég allt álit mitt á manninum sem aldrei hafði komið heiðarlega fram við fólk. Ég tók heldur ekkert mark á honum í morgun, ekki frekar en á árum áður.
Göran Persson hefur aldrei getað sagt sannleikann án þess að roðna.
miðvikudagur, desember 10, 2008
10. desember 2008 - Þögnin
Á dögunum komst ég yfir bókina Talað út, sem kom út fyrir ári hjá Sölku og innihélt pistla eftir Jónínu Leósdóttur, pistla sem flestir höfðu birst áður í Nýju lífi er hún starfaði þar sem ritstjórnarfulltrúi. Þessir pistlar voru oftast tímalausir og eiga margir fullt erindi til fólks löngu eftir að þeir birtust í blaðinu, en þó var einn pistillinn sem mér fannst áhugaverðari en aðrir, en hann fjallaði um þögnina og það sífellda áreiti sem nútímahávaðinn hefur á fólk.
Þegar ég las þennan pistil, rifjaðist upp fyrir mér er ég var einhverju sinni stödd á göngu nærri Selvogsgötunni, fjarri mannabyggðum. Þetta var síðsumars, engar mannaferðir sjáanlegar. Það var ekkert sem truflaði og þegar komið var í yfir fjögur metra hæð var jafnvel lítið af fuglasöng. Það var algjör kyrrð.
Þessi djúpa þögn sem helltist yfir mig þar sem ég var alein í óbyggðum er kannski það sem helst situr í mér meira en ári síðar, þessi þögn sem er orðin svo sjaldgæf í nútímaþjóðfélaginu.
Hið fyrsta sem ég gerði eftir að ég kom í bílinn við Kaldársel eftir tíu tíma göngu var að rjúfa þögnina með því að kveikja á útvarpinu.
-----oOo-----
Mig langar til að minna á Amnesty tónleikana í Hafnarhúsinu í kvöld í tilefni af 60 ára afmæli mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna.
þriðjudagur, desember 09, 2008
9. desember 2008 – Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott fyrir Geir.
Þessi orð sem heyrðust á sínum tíma í dægurlagatexta áttu vel við forsætisráðherra Íslands á Alþingi á mánudag eftir að einhver ungmenni gerðu atlögu að háttvirtu Alþingi með hrópum og köllum af þingpöllum. Slíkt kann aldrei góðri lukku að stýra fyrir þá sem stóðu fyrir hávaðanum, enda fór svo að sum ungmennin voru borin út í lögreglubíl, ekið á lögreglustöð, yfirheyrð og sleppt.
Bloggheimar fylltust samstundis af vandlætingu þeirra sem vita hvernig á að haga sér á þingpöllum og Geir getur þakkað ungmennunum í hjarta sínu fyrir stuðninginn við ríkisstjórnina, því slíkar uppákomur gera ekkert annað en að draga úr áhuga fjölda fólks á þátttöku í frekari mótmælum gegn sökudólgunum í hruni efnahagskerfis þjóðarinnar.
sunnudagur, desember 07, 2008
8. desember 2008 - Símastæði
Það mun vera komið kerfi þar sem nóg er að hringja þegar búið er að leggja bílnum í gjaldskylt bílastæði niður í bæ og hringja svo aftur þegar farið er og þá er kostnaðurinn við bílastæðið dregið af reikningi ökumannsins eða þá dregið af kreditkortareikningi viðkomandi.
Snemma í haust skráði ég mig inn hjá bílastæðafyrirtæki sem mun heita Góðar lausnir ehf og greiddi einhverja upphæð inn á reikning hjá þeim til að ekki þyrfti að draga nokkrar krónur í hvert sinn af kreditkortinu mínu Þetta gekk sæmilega til að byrja með. Ég þurfti að skreppa niður á Hallveigarstíg að degi til og lagði í bílastæði, hringdi svo í uppgefið símanúmer og skráði inn bílinn. Ég þurfti að vísu að fá hjálp frá næsta stöðumælaverði vegna óþolinmæði minnar við að bíða eftir allri romsunni hjá röddinni í símanum. Þetta gekk þó allt og sömuleiðis gekk vel að skrá mig úr bílastæðinu.
Ég endurtók leikinn tvisvar eða þrisvar næsta mánuðinn og allt gekk vel. En svo var ég einhverju sinni nýskriðin heim eftir næturvaktina og rétt komin á koddann þegar ég fékk sms. Ég leit á símann og við mér blöstu skilaboð frá bílastæðafyrirtækinu:
„Tilkynning fra Simastaedi. Thvi midur hefur bilastaedagreidslukerfinu verid lokad fra og med fostudeginum 21. november 2008. Virdingafyllst Godar launir ehf“.
Veit einhver hvað varð um þetta fyrirtæki og þá hvað varð um inneignina sem þegar hafði verið lögð inn? Eða var þetta símastæðakerfi þá bara í plati?
Spyr ein sem ekki veit.
laugardagur, desember 06, 2008
7. desember 2008 - Þess vegna er ég hætt að mæta á Austurvöll
Í óstöðugu efnahagskerfi með ónýtan gjaldmiðil er nauðsynlegt að tryggja rétta skiptingu fjármagns með verðtryggingu. Eftir meila rússíbanareið íslenska krónuræfilsins á síðustu fimm áratugum reyndist nauðsynlegt að verðtryggja lán til þess að þeir sem skulduðu borguðu það til baka sem þeir skulduðu og lítið umfram það. Með verðtryggingunni árið 1979 komst loksins á jafnvægi á milli lánardrottna og skuldunauta sem ekki hafði verið áður, að lánardrottnarnir sem í mörgum tilfellum voru lífeyrissjóðirnir sem eiga að heita í eigu almennings í þessu landi, hættu að tapa stórfé á útlánum og fengu það til baka sem þeir lánuðu, en skuldararnir hættu að græða á að fá lánað og borguðu lánið til baka.
Þrátt fyrir verðtrygginguna fóru fáir á hausinn í óðaverðbólgunni á níunda áratugnum þar sem verðbólgan fór upp í 80% (ekki í 130% eins og staðhæft var). Á sama hátt munu fáir fara á hausinn í 17-25% verðbólgunni í dag með ívilnunum hins opinbera á greiðslunum.
Þessa dagana gerast háværar kröfur um að nota lífeyrissjóðina í eitthvað skynsamlegt, byggja upp atvinnuvegina að nýju, niðurgreiða lánin og allt á minn kostnað sem ætla á eftirlaun eftir rúman áratug. Svar mitt er einfalt. Ég vil ekki lána ykkur á þeim kjörum sem þið viljið borga. Ég vil ekki heldur gambla með lífeyrissjóðinn minn í áhættufjárfestingar.
Á meðan við búum við núverandi hagkerfi með núverandi gjaldmiðil, mun ég berjast með öllum ráðum gegn afnámi verðtryggingarinnar. Ég er þó reiðubúin að endurskoða afstöðu mína þegar við verðum komin með nýtt hagkerfi og nýjan gjaldmiðil. Þess vegna get ég ekki tekið undir orð vörubílstjórans sem talaði á Austurvelli á laugardag né heldur orð þeirra sem munu krefjast afnáms verðtryggingar á fundi í Háskólabíó á mánudag.
Reynið svo að halda ykkur við baráttu gegn þeim sem báru sökina á efnahagshruninu, en hættið að berjast gegn okkur almúgafólkinu með lífeyrissjóðinn okkar. Ef þið teljið okkur bera sökina, þá komið hreint út með þær kröfur gegn okkur. Annars skuluð þið krefjast annarra aðgerða til að létta undir með ykkur greiðslubyrðina eða gegn sökudólgunum í efnahagshruninu.
föstudagur, desember 05, 2008
6. desember 2008 - Heimastjórnarflokkurinn?
Í fréttum á föstudagskvöldið var sýnt frá umræðum á Alþingi þar sem ónefnd þingkona trúði orðum Davíðs Oddssonar frá því á fimmtudag eins og nýju neti og ég fór að velta því fyrir mér hvort Davíð ætti afturkvæmt í Sjálfstæðisflokkinn á ný.
Þarna var komin manneskja sem trúir öllu sem Davíð segir, kona sem er ekki hrifin af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, baráttumanneskja gegn samstarfi Evrópuþjóða og gegn upptöku alvöru gjaldmiðils. Hún og flokksfélagar hennar virðast hafa tekið ástfólstri við Davíð og samsæriskenningar hans gegn Geir og Sollu.
Þarna er kannski lausnin fyrir Davíð úr Seðlabankanum, að stofna þjóðernissinnaðan Heimastjórnarflokk ásamt Álfheiði Ingadóttur og Framsóknarmönnunum Guðna og Bjarna. Ég er viss um að þau nái óánægjufylginu frá Frjálslynda flokknum til sín sem og skuldsettu útgerðarauðvaldi og harðasta kjarna bændastéttarinnar.
Ég get um leið fullvissað Álfheiði um að ást hennar á Davíð og sannleika hans eykur ekkert álit mitt á skoðunum hennar.
5. desember 2008 - Fólk er fífl!
Einhver bloggari lýsti samfélaginu svo á dögunum að allir hinir ábyrgu væru í því þessa dagana að firra sjálfa sig ábyrgð svo að á endanum yrði íslensku þjóðinni kennt um allt sem aflaga hefði farið og og hún ein yrði að taka á sig sökina fyrir því hvernig ástandið er orðið.
Þetta er alveg rétt! Efnahagshrunið á Íslandi í haust er íslensku þjóðinni að kenna. Ég ætla ekki að kenna íslenskum almenningi um að hafa lifað umfram efni því miðað við landsframleiðsluna eru til næg verðmæti í landinu til mjög góðra lífskjara og stærstur hluti íslensku þjóðarinnar hefur ekki gert annað en að þiggja sinn bita af stórri kökunni. Sum okkar hafa ekki einu sinni fengið sinn réttláta skerf af kökunni en þurfa samt að bera ábyrgð á hruninu. Það er heldur ekki þar sem sökin liggur.
Ágætur fyrrum samstarfsmaður minn í gamla daga sem síðar gerðist millistjórnandi og kom talsvert við sögu í frægu olíusamráði orðaði hlutina á einfaldan hátt því í tölvuskeyti til einhvers annars millistjórnanda sagði hann hlutina hreint út: Fólk er fífl!
Það er nákvæmlega þar sem sökin liggur. Fólk er fífl! Við getum endalaust kastað eggjum og banönum í Alþingishús og Svörtuloft, stjórnarráð og glæsivillur kapítalistanna sem höfðu okkur að fíflum, en sökin verður áfram sem hingað til okkar sjálfra því við erum fíflin sem millistjórnandinn talaði um.
Það má halda því fram að sökin sé mismikil. Sjálf kaus ég Samfylkinguna í síðustu kosningum af því að ég vildi breytingar. Ég vildi samstarf Evrópuþjóða og ég vildi vopnlausan frið við allar þjóðir og ég vildi afturhvarf frá þeirri nýfrjálshyggju sem hafði verið skefjalaust rekin á Íslandi á undanförnum árum. Um leið axlaði ég ábyrgð á stjórnarathöfnum núverandi ríkisstjórnar með atkvæði mínu. Fjöldi fólks, nálægt helmingi atkvæðisbærra Íslendinga, kaus þáverandi stjórnarflokka og lýsti þar með yfir stuðningi sínum við áframhald nýfrjálshyggjunnar.
Það er ekki eins og að þetta hefði átt að koma fólki á óvart. Það er alveg sama hversu illa Sjálfstæðisflokkurinn leikur íslensku þjóðina, hann á sitt fasta fylgi og þótt mælt fylgið sé nú í sögulegu lágmarki, munu flestir gömlu kjósendurnir rata heim á básinn sinn við næstu kosningar alveg eins og við síðustu kosningar og þar áður og í gamla daga og í kreppunni 1967 og löngu áður.
Vegna þessa sauðsháttar hæstvirtra kjósenda komast yfirvöld upp með hvað sem er, ráðast inn í fjarlæg ríki, styðja hersetu í landinu, styðja einkaher Björns Bjarnasonar, styðja nýfrjálshyggju, styðja með atkvæði sínu ómengaðan kapítalismann, sérlífeyri ráðamanna, fullveðsettan eignarkvóta og lagalausa útrás í stað heftrar útrásar, allt í nafni nýfrjálshyggjunnar.
Íslenska þjóðin kaus þetta og íslenska þjóðin fékk að kenna á atkvæði sínu, því fólk er fífl! Þetta veit Davíð Oddsson og því getur hann sagt hvaða bull sem er og allir sauðirnir hlaupa á básinn sinn og rymja í kór til stuðnings kreppunni því..
...Fólk er fífl!
fimmtudagur, desember 04, 2008
4. desember 2008 - Að reisa sér hurðarás um öxl
Þegar fólk kaupir sér íbúð er hugmyndin venjulega sú að komast í tryggt húsnæði þar til annað hvort að skipt verði yfir í stærri íbúð með stærri fjölskyldu eða þá betri með bættum efnahag.Það má líka hugsa sér fólk sem velur að minnka við sig af einhverjum ástæðum eða hreinlega vegna þess að fjölskyldan minnkar eða tekjurnar rýrna.
Ég verð þó að viðurkenna að ég var dálítið slegin yfir viðtali í Kastljósi sjónvarpsins við mann sem ætlar að hætta að greiða af íbúðinni sinni. Ekki lengur, því þegar ég sá hvaða leik hann var að spinna, missti ég samúðina með honum. Hann segist hafa sett íbúðina sína á sölu á 36,9 milljónir krónuræfla í ágúst, en þá skuldaði hann 28 milljónir. Núna eftir efnahagshrunið hefur lánið aukist í rúma 31 milljón og þá vill hann skyndilega að bankinn (veðhafinn) leysi til sín lánið. Hann segist reikna með því að íbúðin geti farið á 25 milljónir á uppboði. Ef honum er svo mikið í mun að losna við ibúðina sína, af hverju reyndi hann þá ekki að selja hana strax í ágúst á 28 milljónir í staðinn fyrir 36,9 milljónir. Hann hefði þá örugglega átt auðveldar með að losna við íbúðina heldur en í dag.
Eftir að ég hafði horft á Kastljósið tvisvar varð mér ljóst að maðurinn var að flytja leikrit, væntanlega í þeim tilgangi að sýna fram á gagnsleysi verðtryggingar lána. Ef hann hefði verið kominn í svo slæma stöðu að hann hefði ekki getað greitt af láninu sínu, hefði hann hegðað sér allt öðruvísi í stað þess að krefjast afsláttar af lánunum sínum eins og það fólk er að gera sem hefur hæst í dag í þeim tilgangi að ná lífeyrissjóðnum mínum til sín á silfurfati.
Sjálf sit ég í svipuðum sporum og sá sem var í viðtalinu, þó að því fráskildu að ég held áfram að greiða af láninu mínu og að ég hefi ekki tekið ný lán út á hækkandi markaðsverð íbúðarinnar eins og viðmælandinn virðist hafa gert í tvígang. Ég keypti íbúðina mína 2004 og lenti fljótlega í umfangsmiklum framkvæmdum sem nú eru uppgreiddar. Þótt lánin hafi vissulega hækkað um þrjár milljónir á þessum árum og markaðsverð íbúðarinnar hækkað helmingi meira, þá eru þetta bara tölur á blaði fyrir mig sem ætla að búa hér áfram. Þannig reikna ég fastlega með því að lánin verði búin að ná markaðsverði íbúðarinnar á næsta ári sem segir mér að verðmæti lánsins verði orðið meira en verðmæti íbúðarinnar. Það gerir ekkert til því ég er ekkert á leiðinni að selja íbúðina á næstu árum og ég vona að verðmætin verði farin að stíga talsvert áður en ég verð svo gömul að ég geti ekki lengur búið í íbúðinni eftir kannski aldarfjórðung.
Löngu áður en að því kemur, verður afar mikilvægt að ungir piltar verði ekki búnir að ræna mig lífeyrissjóðnum mínum með leikriti í Kastljósinu, svo ég neyðist ekki til að selja íbúðina fyrir mat og öðrum brýnum nauðsynjum.
http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4431268/0
miðvikudagur, desember 03, 2008
3. desember 2008 - Jólin mín byrja í desember!
Fyrir rúmum tveimur árum, nánar tiltekið í júlí 2006, var ég stödd nærri Hábungu Esjunnar er ég mætti jólasvein í sínu náttúrulega umhverfi. Jólasveinn sá sem reyndist vera Skyrgámur, var að vísu í sumarfatnaði og með sumarklippt skegg, í gallabuxum og vettlingalaus, en samt í rauðum jakka, en með léttari rauða húfu en á vetrum og snéri hún öfug á kollinum í blíðviðrinu.
Skyrgámur reyndist ákaflega geðþekkur eins og jólasveina er siður. Ég spurði Skyrgám hvort hann stundaði mikið IKEA í október og nóvember, en þá hnussaði í honum og sagði mér í trúnaði að enginn þeirra bræðra léti sjá sig í verslanamiðstöðvum fyrr en þeirra rétti tími væri kominn og sjálfur myndi hann mæta til byggða 19. desember að venju og byrja á því að færa góðum börnum eitthvað gott í skóinn að morgni þess dags.
Undanfarin tvö ár hefi ég verið með banner á blogginu mínu þar sem áminnt er um að jólin mín byrji í desember. Þetta var þörf áminning því ég þoli ekki jólaauglýsingar í nóvember, hvað þá í október.
Þetta árið hafa þeir bræður og blessunin hún móðir þeirra verið ákaflega hógvær. Verð ég að viðurkenna að ég hefi vart heyrt jólasöngva í ár. Þá hefi ég verið blessunarlega laus við Heimsumból í Kringlunni og VætKristmas í Smáralind, en tekið stóran sveig framhjá IKEA og Rúmfatalagernum.
En nú er kominn desember og sjálfsagt að athuga hvað er til af jólalögum í plötuskápnum og Borgardætur og Dolly Parton hljóma sem aldrei fyrr.
þriðjudagur, desember 02, 2008
´2. desember 2008 - Merkisdagar
1. desember hefur löngum þótt mikill merkisdagur. Ekki er það eingöngu vegna minningar um fullveldisdag þjóðar sem glataði fullveldi sínu nokkrum dögum áður en hún hélt upp á 90 ára fullveldi sitt eða alnæmisdagsins, heldur og miklu fremur af persónulegum ástæðum. Í gær voru nefnilega komin tólf ár frá því er ég hóf formlega störf hjá Hitaveitu Reykjavíkur, en af því að daginn bar upp á sunnudag, var fyrsti starfsdagurinn 2. desember
Ekki ætla ég að fjölyrða mikið um ráðningu mína. Það breytir ekki því að ég er enn við svipuð störf og fyrir tólf árum, þ.e. við stýringu og eftirlit með framleiðslu og dreifingu á heitu vatni þótt verkefnin hafi aukist verulega á þeim árum sem liðin eru frá því ég hóf störf hjá Hitaveitunni.
Það er eðlilegt að ég sæktist eftir slíku starfi eftir heimkomu mína til Íslands árið 1996. Ég hafði unnið við svipuð störf í Stokkhólmi í nokkur ár áður en heim var komið og líkað vel.
Ef allt fer að óskum, mun ég geta haldið áfram störfum hjá Orkuveitunni, sem stofnuð var fyrir tæpum áratug úr Hitaveitu og Rafmagnsveitu og síðar einnig Vatnsveitu, í tíu til tólf ár til viðbótar áður en farið verður á eftirlaun. Ég hefi ekki áhuga fyrir að skipta um starf og tel að ég sé best niðurkomin á þessum stað þar til starfsævinni lýkur.
Ég viðurkenni alveg að stundum togar sjórinn aðeins í mig. Um leið geri ég mér grein fyrir því að á mínum aldri fer maður ekki á sjóinn til framtíðarstarfa. Þeim hluta ævinnar er lokið. Ég get þó vel hugsað mér að skreppa einstöku ferðir á sjóinn til afleysninga og viðhalds þekkingar.
mánudagur, desember 01, 2008
1. desember 2008 - Fésbókarástir!
Ónefndur, en fráskilinn kunningi minn hefur enn ekki lært að meta hið jákvæða við einlífið og er talsvert upp á kvenhöndina, fer oft út á lífið í von um að finna sér nýjan lífsförunaut, en því miður helst honum illa á konum.
Einhverju sinni hóf hann að stunda hestamennsku af miklum móð. Það var ljóst að það var ekki einvörðungu hrifning á hestum sem rak hann áfram, heldur lá eitthvað meira á bakvið. Hann stundaði hestamennskuna af miklum móð um nokkurra mánaða skeið, en þá vildi svo til að hann féll af baki og slasaðist nokkuð. Um svipað leyti kulnuðu ástir kunningjans og óþekktrar hestakonu og hefur hann ekki minnst á hesta aftur í mín eyru.
Fljótlega eftir þetta hóf hann að hlaupa á fjöll af miklum móð. Ekki var hann í gönguhóp með mér, enda hefði ég ekki haft roð við honum því hann tók fjöllin sömu tökum og hestana áður. Esjan var meðal þess fyrsta sem féll fyrir fótum hans, síðan komu önnur fjöll og firnindi, Laugavegurinn, Fimmvörðuháls, Snæfellsjökull, Hvannadalshnjúkur. Svo virtist ákafinn kulna jafnskjótt og hann hófst. Ekki veit ég af hverju.
Að undanförnu hefur Fésbókin átt hug og hjörtu þjóðarinnar. Sagt er að nærri fjórði hver Íslendingur sé kominn á Fésbók og einhverjir eru þeir sem hafa náð sér í sína heittelskuðu á því ágæta vefsvæði. Kunningi minn kynntist Fésbókinni og hóf að safna kvenkyns vinkonum út um alla jörð. Um daginn kom ég að honum þar sem hann sat fyrir framan tölvuna sína og hlustaði á Youtube vefinn. Þrátt fyrir fremur lítinn áhuga mannsins á sígildri tónlist, veitti ég því athygli að hann var að hlusta á eitthvert kórverk eftir Mozart. Það fór ekkert á milli mála að ástin hafði bankað á dyr kunningjans einu sinni enn, en spurningin er nú hvort ein kona nægi honum lengur, því umrætt kórverk var að sjálfsögðu flutt af heilum kvennakór!
sunnudagur, nóvember 30, 2008
30. nóvember 2008 - Af Gävlebock og jólatré
Þegar ég var að alast upp, þótti siður á gamlárskvöld að velta bílum og kveikja í lögreglustöðinni. Þessa er getið í bókmenntum og minnir mig að þess sé sérstaklega minnst í Atómstöð Halldórs Laxness. Þessi góði siður lagðist af með tilkomu sjónvarps og Áramótaskaups í Reykjavík, en vegna svipaðs athæfis í Hafnarfirði á þrettándanum var siður þessi mun þrálátari á þeim bænum.
Um svipað leyti og siðurinn lagðist af í Reykjavík, hófu kaupmenn í Gävle í Svíþjóð að reisa geithafur úr hálmi á Slottstorget þar í bæ. Fljótlega komst á sá siður að brenna Gävlebocken að nóttu til á aðventunni og helst fyrir nýár. Svo rammt kvað að þessu að hægt var að veðja um hversu lengi bocken skyldi standa í breskum veðbönkum. Nú hafa kaupmenn í Gävle eyðilagt þennan góða sið með því að nota eldtraustan hálm í geithafurinn og hefur hann ekki verið brenndur síðan 3. desember 2005 þrátt fyrir tilraunir til slíks.
Gävlebocken var endurreistur á Slottstorget í Gävle í fyrradag og enn úr sama óbrennanlega hálminum og síðustu tvö árin. Í dag var kveikt á jólatrénu á Austurvelli.
Ekki ætla ég að hvetja til þess að sá siður að kveikja í einhverju verði endurvakinn. Hinsvegar finnst mér hægt að gera margt annað skemmtilegra á Austurvelli en að kasta matvælum á Alþingishúsið. Ég er þá að sjálfsögðu alls ekki að hugsa um hið lítt eldfima útlenska jólatré fyrir framan Alþingishúsið, enda hefur það verið bæjarprýði um margra áratuga skeið. En unglingarnir sem kasta matvælum í Alþingishúsið mættu alveg byrja að dansa í kringum jólatréð í stað þess að grýta matvælum í saklausan húskumbaldann.
http://sv.wikipedia.org/wiki/Julbocken_i_G%C3%A4vle
http://www.youtube.com/watch?v=LlLnAUWZ0Dc
30. nóvember 2008 - Fyrirtæki og stofnanir á hausnum!
Þau fyrirtæki voru til sem manni fannst að myndu aldrei hverfa af yfirborði jarðar, fyrirtæki og stofnanir sem virtust vera óendanleg. Allt í einu hurfu þau bara. Eitt þessara fyrirtækja var Ræsir hf. Þótt það hafi ekki verið stofnað fyrr en 1942 var sem það yrði við Skúlagötuna að eilífu. Svo byggði það sér stórhýsi inn við Smálönd og hvarf skömmu síðar. Annað fyrirtæki af líkum toga er Eimskip. Þessar vikurnar er það á barmi gjaldþrots, allt eigið fé búið og gríðarlegar skuldir að sliga félagið.
Nú berast fréttir af því að Morgunblaðið sé á heljarþröminni. Starfsfólkið fái vart útborgað og reynt sé að fá inn nýtt hlutafé til að bjarga félaginu.
Þau eru ófá skiptin sem maður bölvaði Mogganum og skoðunum þess. Sjálf var ég áskrifandi að Þjóðviljanum í gamla daga og sá ýmislegt athugavert við Rússagrýlur og aðra hægri slagsíðu Morgunblaðsins. Um leið var ekki hægt annað en að bera ákveðna virðingu fyrir Mogganum. Mogginn var ekki bara dagblað, miklu fremur sem stofnun sem ekki mátti hreyfa við þótt vissulega mætti létta verulega á skoðunum þess. Þess vegna var Mogginn gjarnan annað blaðið sem gripið var í á eftir málgagninu.
Nú þegar gömlu flokksmálgögnin eru horfin, öll með tölu, og Mogginn orðinn mun umbótasinnaðri og frjálslyndari en áður, er blaðið orðið að fastri tilveru í lífinu. Ég reyndi að segja blaðinu upp fyrir fáeinum árum þegar farið var að gefa út fríblöð, en sú tilraun stóð í einungis þrjá mánuði. Þá gafst ég upp hefi verið áskrifandi síðan.
Ég ætla svo sannarlega að vona að Morgunblaðið haldi áfram að koma út og fari ekki að leggja upp laupanna á þessum erfiðleikatímum.
Ef svo verður, mun óhætt að segja að nýfrjálshyggjubyltingin hafi ekki bara étið börnin sín, heldur og boðbera sinn!
laugardagur, nóvember 29, 2008
29. nóvember 2008 - Konur eiga orðið.
Ég kom við hjá bókaútgáfunni Sölku á föstudagskvöldið, en þar var verið að fagna útgáfu dagatalsbókar ársins 2009, en hún ber heitið: Konur eiga orðið, allan ársins hring.
Auk þess að vera dagbók fyrir árið 2009, birtast þar hugrenningar 65 kvenna, ein í byrjun hverrar viku og ein í byrjun hvers mánaðar. Sjálf á ég eina hugrenningu í bókinni, eina hugrenningu að vori.
Þess má geta að bókin er tileinkuð rannsóknum á þunglyndi kvenna. Kristín Birgisdóttir sá um útgáfuna en Myrra Leifsdóttir sá um útfærslu bókarinnar, en auk þeirra eiga 12 kvenljósmyndarar myndir í bókinni, ein fyrir hvern mánuð.
Glæsilegt verk sem aðstandendur geta verið stoltir af. Bara verst að ég þurfti að yfirgefa samkvæmið of snemma til að fara á vaktina mína.
http://www.salkaforlag.is/
föstudagur, nóvember 28, 2008
28. nóvember 2008 – Hversu há þurfa iðgjöld að vera til að standa undir vöxtum og hagnaðarvon af 42 milljarða fjárfestingu?
Um daginn bauð Kaldbakur hf, eignarhaldsfélag Þorsteins Más Baldvinssonar, hvorki meira né minna en 42 milljarða í Tryggingamiðstöðina. Þessi háa upphæð minnir ekki aðeins á fjárglæfrastarfsemina sem átti sér stað í kringum Sterling flugfélagið, heldur virðist nánast vonlaust að ná henni til baka nema með stórfelldum iðgjaldahækkunum ef heiðarlega er staðið að henni. Síðar bárust fréttir af því að ætlunin væri að láta Landsbankann kaupa hlut í félaginu með því að greiða stóran hluta verðsins fyrir félagið.
Ég fór að velta fyrir mér hve miklar rekstrartekjur umfram rekstrargjöld þyrftu að vera til að geta staðið undir kaupunum? Svarið er einfaldlega að ég hefi ekki hugmynd um það, en það hljóta að vera mjög háar rekstrartekjur. Sjálf minnist ég ágætlega ítrekaðra kvartana tryggingarfélaga vegna of lágra iðgjalda, en á sama tíma, talsverðan hagnað tryggingafélaganna. Þá hefi ég sjálf verið í viðskiptum við Tryggingamiðstöðina undanfarin ár og komist vel frá þeim viðskiptum við félagið og mjög svo þægilegt og þjónustulipurt starfsfólk þess. Sömuleiðis hefur Tryggingamiðstöðin staðið sig ágætlega í samkeppni við önnur tryggingafélög hvað verðlag snertir, allavega í mínu tilfelli með eina íbúð og einn bíl.
Þó fer að hrikta í gagnkvæmu trausti þegar heyrist um baráttuna um eigendahlutinn. Ég er ekki viss um að iðgjöld mín og annarra þoli þá hækkun sem vextir af 42 milljörðum krefjast. Þá er ég heldur ekkert ginnkeypt fyrir fjármálaævintýri sömu gerðar og Sterling sukkið og sem leiðir ágætlega rekið fyrirtæki beinustu leið í gjaldþrot eftir að hafa náð því lánsfé sem hægt er út úr bönkunum á minn kostnað.
Því létti mér að heyra að Landsbankinn hefur ákveðið að taka ekki þátt í sukkinu með Tryggingamiðstöðina, en vona um leið að takist að halda félaginu á floti sem lengst, helst án þátttöku fjárglæframanna.
http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item239236/
miðvikudagur, nóvember 26, 2008
27. nóvember 2008 - Verður rannsóknarnefndin hlutlaus?
Það eru komnar rúmar átta vikur síðan hrunið átti sér stað. Það tók ríkisstjórn Geirs Hilmars átta vikur að ákveða hvernig rannsóknarnefndin vegna efnahagshrunin ætti að líta út. Eru þetta eðlileg vinnubrögð?
Kíkjum aðeins á nefndina sjálfa. Einn fulltrúa á að skipa af Hæstarétti. Með fullri virðingu fyrir Hæstarétti er erfitt að sjá hvernig Hæstiréttur getur skipað hlutlausan rannsóknarfulltrúa í nefndina þegar haft er í huga að í Hæstirétti er einungis fólk sem hefur verið skipað af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins í stjórnartíð Davíðs Oddssonar og eftirmanna hans. Þar má nefna frænda Davíðs, leikfélaga og vafalaust aðra vini hans ef betur er að gáð. Hvernig á slíkur fulltrúi að geta gætt fyllsta hlutleysis?
Umboðsmaður Alþingis á að skipa fulltrúa, sjálfur gamall Sjálfstæðismaður, sat í stjórn Heimdallar og Sambands ungra Sjálfstæðismanna á yngri árum. Hann er þó sá sem helst er hægt að treysta í þessari svokölluðu rannsóknarnefnd. Þá verður að kalla til forsætisnefnd Alþingis. Þar er Sturla Böðvarsson í forsæti og fyrsti flutningsmaður frumvarpsins um rannsóknarnefndina. Hann er vart til stórræðanna í baráttunni gegn spillingu í þjóðfélaginu, sjálfur virðulegur þegn útrásarvíkinganna sbr er hann tók á móti Arnarfellinu fyrir hönd Færeyinga og mannsins sem fékk Elton John til að spila í afmælinu sínu.
Ég held að það sé mjög erfitt að finna algjörlega óvilhalla fulltrúa í þessa rannsóknarnefnd á Íslandi. Nánast öll yfirstétt íslensks þjóðfélags er meira og minna háð þessum útrásarvíkingum að einhverju leyti, fjárhagslegum böndum, fjölskylduböndum, vinaböndum, menningarböndum. Það er því ljóst að ef rannsóknarnefndin á að skila marktækri niðurstöðu, verður að sækja hana til útlanda. Þannig má hugsa sér að Alþingi fari fram á það við norrænar frændþjóðir að þær láti Ríkisendurskoðanir Norðurlandanna eða efnahagsbrotadeildir þeirra um að skipa fólk í rannsóknarnefndina.
Að sjálfsögðu þurfa umræddar rannsóknarnefndir að hafa fullt sjálfstæði til að ganga eins langt í rannsóknarvinnunni og þurfa þykir. Það verður hinsvegar ákaflega erfitt að fá fólk til að treysta þeirri rannsóknarnefnd sem nú á að skipa, að því er virðist, til þess eins að hvítþvo embættismannakerfið sem brást hrapalega í upphafi kreppunnar!
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/11/26/vidtaekar_rannsoknarheimildir/
26. nóvember 2008 - Samfélagsfræði fyrir innflytjendur!
Það er sagt að til þess að öðlast þýskt ríkisfang, þurfi innflytjendur að gangast undir próf í þýskri samfélagsfræði. Það eru ýmsar skoðanir á þessu prófi, hvort það sé yfirhöfuð nauðsynlegt og eins hvort það sé of létt eða of þungt eftir atvikum. Er ég rakst á pistil í Dagens nyheter um þetta próf, var ómögulegt annað en að lesa áfram:
http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=148&a=854538
Auðvitað er svona próf innflytjendafjandsamlegt. En um leið má spyrja sig þess hvort þeir sem sækja um þýskt ríkisfang ætli sér ekki að gerast Þjóðverjar uns dauðinn knýr á dyr.
Með takmarkaða kunnáttu um þýska sögu og samfélagsfræði, en með talsverða virðingu fyrir þýskri þjóð í farteskinu hóf ég að svara spurningunum. Ég hafði þó eitt framyfir marga sem er að búið var að þýða prófið yfir á sænsku. Svona leit því prófið út er ég hóf að svara því:
http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=148&a=854547
Þegar upp var staðið hafði ég svarað 25 réttum spurningum af 33, en einungis þurfti að svara 17 spurningum réttum til að ná því. Þar með hefi ég uppfyllt einn þátt af þremur til að öðlast þýskt ríkisfang.
Nú á ég bara eftir að pakka saman og flytja til Þýskalands og læra þýsku og dvelja þar í land í fimm ár áður en öðrum skilyrðum verður fullnægt. Og þó, ég held að ég nenni því ekki á þessum aldri. Það er víst alveg nóg að vera með þau þjóðfélagsréttindi sem ég hefi nú þegar!
þriðjudagur, nóvember 25, 2008
25. nóvember 2008 - Margrét Pétursdóttir var best!
Þegar Íslendingabók kom á netið gjörbreyttust ættir mínar. Bæði bættist mikill fjöldi ættingja við sem ég hafði ekki haft hugmynd um, en svo tapaðist heill ættleggur þegar leiðréttingar voru gerðar á ættfærslunni í Íslendingabók. Duttu þá margir frægðarpiltarnir út, m.a. Björgvin Halldórsson fyrrverandi frændi minn, Ómar Ragnarsson fyrrverandi ættingi minni og Steinn Ármann Magnússon fyrrverandi ættingi minn. Í stað þeirra fékk ég fátæka gyðingastúlku á Bessastöðum, ekki þessa núverandi, heldur eina bláfátæka sem kom með hörmangarakaupmönnum snemma á 18. öld.
Öllu betri var árangurinn í föðurættinni. Langamma mín þar sem enginn vissi nein deili á fjölskyldu hennar, reyndist vera ein í hópi 22 barna föður síns og er ég sífellt að rekast á nýtt frændfólk í þeim ættleggnum. Meðal ættingja í þeirri áttinni má nefna Hörð Torfason söngvaskáld og er ég las ævisögu Péturs heitins Sigurðssonar alþingismanns, reyndist hann kominn af bróður langömmu minnar og fjórmenningur við mig.
Síðastliðinn laugardag tók hópur á fésbókinni sem kallar sig neyðarstjórn kvenna, til sinna ráða og klæddi styttuna af Jóni Sigurðssyni í bleikan kjól. Einhver benti mér á að ein í hópnum væri dóttir Péturs sjómanns. Það tók mig ekki langan tíma að finna hana í ævisögunni um Pétur sem og Íslendingabók og flýtti ég mér að óska fésbókarvináttu við frænkuna á fésbókinni.
Ég beið svo í ofvæni eftir að heyra í Margréti í sjónvarpsútsendingu af borgarafundinum í Háskólabíó á mánudagskvöldið. Hún kom þar fram, sá og sigraði eins og hennar var von og vísa. Sjálf fylltist ég stolti yfir nýfundinni frænku minni á fundi þar sem ég var ósátt við margt sem ég sá og heyrði, bæði af hálfu stjórnmálamanna og almennings. Margrét Pétursdóttir fór heim sem sigurvegari kvöldsins.
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/11/24/bankaleyndina_burt/
mánudagur, nóvember 24, 2008
24. nóvember 2008 - Er Tryggingamiðstöðin 42 milljarða virði?
Fyrir fáeinum árum keyptu íslenskir fjárglæframenn flugfélagið Sterling á fjóra milljarða króna, fengu síðan leifarnar af flugrekstri Mærsk gefins samkvæmt óáreiðanlegum heimildum. Síðan gekk það kaupum og sölum milli náskyldra aðila og loks var það keypt á 20 milljarða af sömu aðilum og höfðu keypt það eigi löngu áður á fjóra milljarða. Þegar búið var að draga nógu mikið lánsfé út úr félaginu var það látið fara á hausinn, íslenskir skattgreiðendur sátu uppi með sárt ennið, en vesalings séra Eilif Krogager stofnandi Sterling, sneri sér við í gröfinni.
Nú virðast sumir sömu aðilar ætla að leika sama leikinn með Tryggingamiðstöðina. Allt í einu hefur hún aukist geysilega í verðmætum sem virðist vera sama bólan eins og með Sterling. Helstu eigendur Tryggingamiðstöðvarinnar ætla að kaupa félagið af sjálfum sér á uppsprengdu verði til að bjarga Stoðum hf (FL-grúpp, skrifað FJ-group). Að sjálfsögðu eru kaupin gerð með lánsfé frá bönkunum sem eru nú í eigu íslensku þjóðarinnar eftir að þeir hrundu eins og spilaborg. Semsagt, útrásarvíkingarnir sem komu íslensku þjóðinni á hausinn eru ekki hættir að hafa íslensku þjóðina að fíflum og fjárhagslegum féþúfum.
Ég ætla ekki að fjalla hér mikið um Stím og FS-37. Greinin sem birtist í Morgunblaðinu á sunnudag er því miður pólitískt lituð, en bæði Agnes Bragadóttir og Óli Björn Kárason eru svo rækilega trúlofuð bláu höndinni að erfitt er að taka fullt mark á skrifum þeirra, ekki frekar en varnarræðum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Hannesar Smárasonar. Það er samt full ástæða til að vara við slíkum leynifélögum sem hér um ræðir og sem virðast sett á fót til að ræna restinni af aurum fátæku ekkjunnar eða íslensku þjóðarinnar.
Á sama tíma er fyrrum stjórnarformaður hins gjaldþrota Kaupþings að undirbúa kaup á brunarústum Kaupþings Luxembourg. Hvar fékk gjaldþrota maðurinn peninga til slíkra kaupa? Ætli hann hafi stolið miklu undan þegar Kaupþing fór á hausinn? Hvernig væri þá að hann kæmi heim með aurana og skilaði þeim.
Á meðan hnípin þjóð í vanda horfir á ræningjana halda áfram að ræna restinni af þjóðarauðnum sitja ríkisstjórn, Alþingi, Seðlabanki og Fjármálaeftirlit á hliðarlínunni og aðhafast ekkert. Þeir eru hvort eð er nýbúnir að fá himinhátt lán svo nú er óhætt að endurtaka leikinn og starta einkaþotunum.
Sem eigandi að einum þrjúhundruðþúsundasta hluta í bönkunum greiði ég atkvæði gegn lánveitingu til handa Kaldbak til að kaupa Tryggingamiðstöðina á 42 milljarða. Fyrirtækið er ekki þess virði.
sunnudagur, nóvember 23, 2008
23. nóvember 2008 - Davíð Oddsson og kisur
Er ég nefndi í síðustu færslu að ég hefði gengið ein stífluhringinn áður en ég tók þátt í spurningakeppni, ýkti ég aðeins. Með í för var nefnilega ungur sveinn, Tómas að nafni og fannhvítur á lit, gengur um á fjórum fótum og býr ásamt hundum tveimur og tveimur manneskjum á jarðhæðinni í blokkinni þar sem ég bý. Tómas þessi dýrkar mig og uppáhaldsfæða hans er harðfiskur. Hann getur legið á jörðinni fyrir neðan svalirnar mínar klukkustundum saman og gónt upp í von um að ég birtist með harðfiskbita og þá á hann það til að elta mig er ég fer út í göngu í von um að fá sælgætið góða í verðlaun fyrir fylgdina.
Á dögunum las ég í DV að Davíð Oddsson hefði eyðilagt megrunarkúrinn fyrir ungum ferfættum nágranna sínum með harðfiski. Með þessari frétt jókst álit mitt á Davíð Oddssyni um nokkrar hæðir. Ég hafði sjálf eyðilagt fyrirskipaðan megrunarkúr Tómasar kattar á sama hátt og Davíð rústaði megrunarkúr nágranna síns. Við lestur fréttarinnar fann ég auðvitað strax til samkenndar með Davíð.
Bara verst hvað vestfirski steinbíturinn í Kolaportinu er dýr í innkaupum, enda vel þeginn af mínum kisum auk Tómasar, en harðfiskur sá er um leið uppáhaldssælgætið sem kettir elska framar öllu öðru. Jafnvel ég á það til að fá mér bita með köttunum.
laugardagur, nóvember 22, 2008
22. nóvember 2008 - Gáfnaljósin sigruðu!
Í fyrra lenti ég í spurningakeppni innan fyrirtækisins þar sem ég vinn. Ég var beðin um að taka þátt í keppninni fyrir hönd sviðsins, þ.e. kerfisstjórnar sem er hópur starfsmanna Orkuveitunnar sem sjá um að keyra kerfin, fylgjast með hitastigi og þrýstingi úti í hverfum, fara út í bæ og mæla ástand og þar sem sumir taka á móti kvörtunum og koma þeim áfram, semsagt grunnþjónustu Orkuveitunnar. Við stóðum okkur vel, rétt náðum að komast í úrslitakeppnina þar sem við lentum, ef ég man rétt, í þriðja sæti.
Spurningakeppni sviðanna er erfið keppni. Hún er af sama meiði og Pubqiz keppnin sem haldin er á Grand Rokk á föstudagskvöldum, en kannski erfiðari ef eitthvað er, 25 spurningar af blönduðu tagi og það lið sem fær flest stig vinnur keppnina í hvert sinn.
Í síðustu viku mættum við til keppni og kölluðum okkur „gáfnaljósin“, ég sjálf, Þórarinn verkfræðingur og Þorsteinn vélfræðingur og áttum ekki von á góðu er við sáum snillingana sem við öttum ati við. Hvað höfðum við gefið okkur út í? Vorum við komin á hálan ís? Svo hófst spurningakeppnin og við spýttum í lófana. Þeir skyldu sko ekki vinna okkur „gáfnaljósin“ án fyrirhafnar. Vð unnum keppnina, fengum 17 stig á móti 14 stigum þess liðs sem næst kom á eftir okkur í svínslegri keppni um gáfur. Þar með vorum við komin í úrslitakeppnina að viku liðinni.
Vikan á milli var erfið. Er ég skreið heim af næturvakt morguninn áður en úrslitakeppnin fór fram, dreymdi mig að framkvæmdasviðið myndi vinna keppnina. Þá hafði það þegar fallið út, svo þurfti að finna nýja sigurvegara. Á föstudagskvöldi gekk ég ein stífluhringinn umhverfis Árbæjarlón áður en ég hélt til vinnu og úrslitakeppninnar á föstudagskvöldi.
Svo hófst keppnin. Við gerðum okkar besta. Sumt vissi Þórarinn, annað vissi Þorsteinn, ég vissi ekki neitt. Kannski ekki neitt, en ekki margt. þegar leið á keppnina fór ég að bíða þess að þessu tæki að ljúka, allir virtust vita allt betur en við. Svo lauk keppninni og loks vorum lesin úrslitin. Þegar fimm lið sem við höfðum att kappi við höfðu verið lesin upp án þess að við hefðum verið nefnd, var ástæða að fagna. Við höfðum unnið keppnina, „gáfnaljósin“ í kerfisstjórn.
Úti í salnum klappaði ein manneskja. Sviðið okkar er víst ekki fjölmennara en svo að ein manneskja úti í sal fagnaði með okkur. Það var samt ástæða til fagnaðar. Litla sviðið með rúmlega tuttugu manneskjur hafði sigrað stóru sviðin, en um leið sýnt öllum hinum að við erum mikilvægur hluti af heildinni.
Mér finnst ástæða til að setja mig úr liðinu fyrir keppni næsta árs. Látum unga fólkið taka við.
föstudagur, nóvember 21, 2008
21. nóvember 2008 - Um ættartölusafnrit séra Þórðar í Hítardal.
Ég fékk Ættartölusafnrit séra Þórðar Jónssonar í Hítardal í hendurnar á dögunum, mikið rit í tveimur bindum og rúmlega þúsund blaðsíðum og unnið af Guðrúnu Ásu Grímsdóttur. Þetta er auðvitað algjör gersemi fyrir áhugafólk um ættfræði fyrri tíma þar sem áa íslensku þjóðarinnar er rækilega getið á hverri blaðsíðu. Þar sem ég fletti bókunum rak ég augun í orð Þórðar um Sigríði Halldórsdóttur frá Fróðá, fædd á síðari hluta sextándu aldar, en þar segir (bls 220):
Sigríður Halldórsdóttir sem féll með Jóni Oddssyni systurmanni sínum. Hún bar sig að flýja, komst í skip með engelskum en var sett á land aftur því hún var þungbúin og veik. Var henni drekkt á Ballarárhlíð anno 1610 við Hvammsfjörð.
Af Jón þessum (eiginmanni Steinunnar Halldórsdóttur) er aftur á móti önnur saga:
Jón bjó í Fagurey þegar hann féll með Sigríði Halldórsdóttur systur konu sinnar og flúði hann anno 1610, komst hann í skip og giftist í Englandi og vegnaði þar vel. Hann lét hér eftir hjá konu sinni sjö börn.
Í Íslendingabók er í litlu getið Þorleifs þess sem getinn var í umræddu hjúskaparbroti, en hann mun vera fæddur árið 1608.
Svo erum við að kvarta og kveina yfir slæmum yfirvöldum og kreppu annó 2008!
fimmtudagur, nóvember 20, 2008
20. nóvember 2008 - Á að neita Íslandi um lánið?
Eftirfarandi bréf barst mér á fimmtudag frá tveimur aðilum:
http://www.imf.org/external/np/exr/contacts/contacts.aspx
Dear sirs
I, the undersigned citizen of Iceland request that you do not submit the IMF loan to the government of Iceland until it has been investigated who is responsible for the economic collpase of the country and until those found responsible have been removed from all authoritative positions
Warm regards,
(nafn)
Ég sendi það á publicaffairs@imf.org . Ég hvet alla að senda svona bréf. Réttlætið þarf fram að ganga með góðu eða illu.
(Tilvitnun lýkur)
Ég fór að veltu innihaldi þessa stutta bréfs fyrir mér. Nú eru komnar yfir sjö vikur frá því hrunið byrjaði með yfirtöku Glitnis og enn hefur vart nokkrum verið vikið frá störfum fyrir mesta fjármálahneyksli Íslandssögunnar. Allir hlutaðeigandi sitja fastir á sínum stað og hreyfa sig lítt. Allir eru saklausir í stöðum sínum í ríkisstjórn, Seðlabanka, Fjármálaeftirliti. Jafnvel þeir bankastjórar sem þurftu að víkja eðlis máls vegna, starfa nú sem ráðgefandi aðilar hjá hinum sömu stofnunum og fyrrum. Og pappírstætararnir ganga á fullu við að eyða sönnunargögnum um sök þeirra.
Sjálfri finnst mér þessi aðgerð ákaflega varasöm, en það breytir ekki því, að full ástæða er til að fara varlega í að lána vafasömum spillingaröflum mikið fé, fé sem íslenska þjóðin þarf að greiða að fullu. Því treysti ég mér ekki til að standa að sendingu þessa bréfs, en hefi samt skilning á þeim aðilum sem senda bréfið til IMF.
20. nóvember 2008 - Flokkauppgjör í vændum?
Það verður fjör á Fróni þegar líður á janúar næstkomandi. Þá verður gaman að fylgjast með pólitíkinni.
Það verður gaman að fylgjast með uppgjörinu í Framsóknarflokknum. Mig grunar að Guðni sé ekki hættur og þá ekki Bjarni Harðarson. Báðir eru þeir harðir andstæðingar Evrópusambandsaðildar þótt hinn yngri hluti flokksins vilji fremur samvinnuleiðina með Evrópu. Ætla þeir að stofna Bændaflokkinn sem nú er mjög í umræðunni?
Innan Sjálfstæðisflokksins er sama umræða hávær. Hún er þó mun fyrirsjáanlegri að þar er einn maður sem ræður. Ég er hinsvegar ekki lengur viss um að forsvarmenn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu verði jafnhlýðnir eftir flokksþingið í janúar og hingað til. Flokkseigendafélagið með Davíð, Kjartan og Hannes í broddi fylkingar mun bera hina ofurliði og halda nafninu og eignunum.
Munu þá forsvarmenn í atvinnulífinu sitja og þegja? Nei ég held ekki. Þeir munu eiga möguleika á að ganga yfir í Samfylkinguna, en margir munu þó fremur vilja fara sína eigin leið, Evrópuleiðina frá Sjálfstæðisflokknum.
Ég veit ekki hvort svona muni fara. Kannski verður óttinn við kjósendur sterkari óttanum við Davíð og Sjálfstæðisflokkurinn getur tekið höndum saman við Framsókn og Samfylkingu um viðræður við Evrópusambandið. En þá geta líka Davíð og Geir og Hannes og Friðrik J. Arngrímsson fylkt liði með Guðna og Bjarna í einhverju sem kalla má Þjóðvarnarflokk hinn seinni
Uppgjörið eftir efnahagshrunið er ekki hafið, en það verða læti. Það er ég viss um.
þriðjudagur, nóvember 18, 2008
19. nóvember 2008 – Seðlabanki án ábyrgðar
Áður höfðu fyrrum forystumenn bankanna lýst sig saklausa af því að hafa komið efnahag þjóðarinnar á kaldan klaka, einstöku ráðherrar, allir sem mögulega áttu einhvern þátt í hruninu voru orðnir hvítþvegnir og höfðu aldrei gert neitt af sér. Samt hrundi efnahagur íslensku þjóðarinnar eins og spilaborg.
En úr því að ljóst er að Seðlabankinn er ábyrgðarlaus af efnahagshruninu, má velta því fyrir sér, hvort nokkur þörf sé fyrir ábyrgðarlausan Seðlabanka. Að vísu hafa löngum verið til skrýtin störf í ýmsum ríkjum og fólk hefur skemmt sér með bröndurum af flotamálaráðherra Ungverjalands sem er jú umlukið ríkjum á alla vegu, sjávarútvegsráðherra Sviss sem einungis getur státað af nokkrum stöðuvötnum og Seðlabankastjóra á Íslandi þar sem ekki eru til neinir peningar. Þótt þörfin fyrir seðlabanka til að stjórna íslensku hagkerfi hafi minnkað talsvert að undanförnu þar sem einungis skuldir hafa aukist, þá er jákvætt að hafa tryggan seðlabanka við endurreisn efnahags þjóðarinnar úr rústunum.
Það er svo önnur saga að ég tel Davíð Oddsson óhæfan til að stjórna slíkum seðlabanka og tel reyndar að leita eigi liðsinnis hins franska Jean-Claude Trichet til að stjórna bankanum enda hefur hann mikla reynslu af slíkum störfum.
Eins og gefur að skilja hefur hann öllu fjölbreyttari reynslu af hagstjórn en Davíð Oddsson og fylgir hér með ferilskrá (Curriculum Vitae) kappans:
http://www.ecb.int/ecb/orga/decisions/html/cvtrichet.en.html
mánudagur, nóvember 17, 2008
18. nóvember 2008 - Kæri Steingrímur Jóhann Sigfússon
Ég get ekki annað en hrifist af því hve þú ert mælskur, sérstaklega þegar þú talar af fullu ábyrgðarleysi. Ég hlustaði á viðtal við þig í Kastljósi mánudagsins og ég nánast hneykslaðist ef ábyrgðarleysi þínu. Þú vildir fara einhverjar aðrar leiðir, en samt hafðir þú ekkert plan B uppi í erminni heldur ætlaðist til að einhverjir aðrir ættu að vera með plan B uppi í erminni, þ.e. ríkisstjórnin. Því vil ég hryggja þig með því að það er ekkert plan B til í þeirri arfaslöku stöðu sem ríkisstjórn Íslands er í.
Steingrímur. Þú veist mætavel að ef einhver tekur að sér að gæta fjár náungans, þá ber honum að skila fénu aftur þegar eigandinn óskar þess eða þá eftir samkomulagi á milli eiganda og fjárins og fjárhirðisins. Þú veist það jafnvel og ég að það átti að svíkja eigendur um skil fjárins og slíkt kann aldrei að enda vel. Fjárhirðirinn átti sér baktryggingu í formi íslenska ríkisins og Seðlabanka Íslands, en bankastjórinn í ríkisbankanum lýsti því yfir að hann ætlaði ekki að borga fyrir einhverja fjárglæframenn. Í slíku tilfelli er ekki um neitt annað að ræða en að láta hart mæta hörðu. Það var að vísu sóðalegt að beita Íslendinga hryðjuverkalögum, en það breytti ekki því að Íslendingar verða að standa skil á sínu og hafa verið þekktir fyrir slíkt fram að þessu. Nú hafa orð ríkisbankastjórans og fleiri aðila eyðilagt álitið á íslensku þjóðinni um langa framtíð og við þurfum á öllu okkar að halda til að byggja upp álitið að nýju.
Með kröfum þínum um að fara einhverja aðra leið eins og dómstólaleiðina ertu í reynd að setja þig á sama hest og nýfrjálshyggjupostularnir, þeir hinir sömu sem keyrðu Ísland á kaf í skuldir. Með því móti ertu að koma þeim skilaboðum til eigenda fjárins að þeir geti étið það sem úti frýs og þannig aukið enn á þann vanda sem þjóðin stendur í þessar vikurnar þegar við erum útspottuð og fyrirlitin beggja vegna Atlantshafsins
Við þolum ekki að bíða lengur. Við höfum þegar beðið í sjö vikur eftir lausn þessara mála og það er sjö vikum of mikið og allan tímann hefur sigið meir og meir á ógæfuhliðina. Nú vilt þú bíða í fleiri mánuði og jafnvel svo árum skiptir á meðan verið er að þvæla fjármunum bankanna í gegnum dómskerfi allra landa. Hvernig verður þá staðan þegar dómur loksins fellur? Nei, gerðu það fyrir okkur og sýndu okkur ábyrga stjórnarandstöðu einu sinni, ekki þegja afnám sérlífeyrisréttinda í kaf, ekki standa ásamt Davíð Oddssyni utan við samfélag þjóðanna í einstrengislegum tilraunum ykkar að viðhalda ónýtum krónuræflinum og við að neita að borga skuldirnar sem íslenska þjóðin er í ábyrgð fyrir.
Kæri Steingrímur. Einu sinni studdi ég þig og þá pólitík sem þú stóðst fyrir. Ég studdi Alþýðubandalagið meðan það var og hét og sömuleiðis taldi ég mig vera nærri skoðunum Vinstri grænna fyrstu árin sem þau samtök voru við lýði. Ég styð þig enn í kröfunni um afdráttarlausan frið á jörðu og jöfnuð til handa öllu mannkyni, en ég er löngu hætt að styðja þig í baráttunni gegn Evrópu og í öfgafullri náttúruverndarbaráttu.
Mér þykir samt örlítið vænt um þig enn í dag þótt eitthvað sé byrjað að falla á væntumþykjuna. Í dag styð ég mun ábyrgari stjórnarhætti en þú býður okkur, þótt ég vilji sjá kosningar og nýtt umboð til Alþingis sem allra fyrst. Hvernig litist þér á að fara að fordæmi Guðna Ágústssonar sem vék fyrir Valgerði og bjóða Katrínu Jakobsdóttur sæti þitt innan Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Það yrði örugglega heillaspor fyrir bæði þjóðina og þig.
P.s. Ef þú lofar þessu, skal ég aldrei framar skrifa um LandCruiser 100 lúxusjeppann þinn sem þú eyðilagðir í Bólstaðarhlíðarbrekkunni hér um árið, þegar þú varst nýlega búinn að segja þjóðinni að þú keyrðir um á Volvo árgerð 1972.
17. nóvember 2008 - Af degi íslenskrar tungu
Trúnaðarmaður stéttarfélagsins okkar þegar ég starfaði í Svíþjóð, átti dálítið erfitt með textaskrif, sennilega verið með einhverja skrifblindu. Ef hann þurfti að senda frá sér einhvern texta til félagsins eða á aðra staði, hafði hann það að sið að kalla á þá manneskju á vaktinni sem hann treysti best í skrifaðri sænsku til að lesa yfir textana sína áður en hann sendi þá. Af einhverjum ástæðum valdi hann ekki einhvern Svíana vaktinni til verksins, heldur mig sem þó var illa talandi á sænsku en kannski aðeins betri að skrifa hana.
Það var sagt frá málræktarþingi í fréttum sjónvarpsins á degi íslenskrar tungu. Þar kom fram að hlutfall íslenskukennslu í skólum hér er einungis 16,1% á sama tíma og það er 23% í Noregi og 28,7% í Danmörku. Þýðir þetta þá að það sé sérstakur skortur á íslenskukennslu á Íslandi? Svarið er einfalt. Nei.
Það er mikil rækt lögð við íslenskukennslu á Íslandi, ekki aðeins í skólum, heldur í öllu samfélaginu. Fólk má ekki mismæla sig í ræðu eða riti án þess að einhver málfarslöggan sér ástæðu til að gera athugasemdir. Það er ekki fyrr en komið er að útrásarvíkingunum og poppurunum sem ástæða verður til að hafa áhyggjur, öllum poppurunum sem ætla að leggja heiminn að fótum sér með því að syngja á útlensku og svo útrásarvíkingunum sem þurftu endilega að sýna mörlandanum hvað þeir væru góðir í útlensku að jafnvel aðalfundaskýrslurnar voru komnar á útlensku.
Margar þjóðir nærri okkur leggja ekki mikla áherslu á málið. Það eru mörg ár síðan ég fór að velta því fyrir mér hvort danskan væri deyjandi tungumál. Þótt ástandið hafi verið betra í Svíþjóð og Noregi, er samt ástæða fyrir þessar þjóðir til að leggja ríka áherslu á þjóðtunguna. Ísland er hinsvegar í góðum málum. Um leið þurfum við að vera vakandi og gæta okkar vel fyrir erlendum áhrifum á tunguna.
Höldum áfram að vera fordómalausar málfarslöggur, en munum að fjöldi fólks þjáist af lesblindu og skrifblindu.
sunnudagur, nóvember 16, 2008
16. nóvember 2008 - Endurfundir að Brúarlandi
Um helgina hefi ég tekið þátt í tveimur endurfundasamkvæmum gamalla skólafélaga. Á föstudagskvöldið hittumst við nokkur sem vorum saman í öldungadeild MH og útskrifuðumst 1988. Það voru yndislegir samanfundir í allt of fámennum gleðskap.
Á laugardagskvöldið var svo annað samkvæmi nokkurra krakka sem eignuðust fyrstu skólatöskurnar sínar haustið 1958, fyrir hálfri öld, áttu sínar fegurstu æskuminningar í Brúarlandsskóla og síðar Varmárskóla. Þar var öllu betri mæting, en einungis tveir strákar skrópuðu, en að auki eru þrjú búsett erlendis og ein stúlkan, Þórunn Bjarnadóttir frá Mosfelli, látin fyrir nokkrum árum síðan. Fyrir bragðið vorum við aðeins tólf sem mættum í Brúarland, skoðuðum gömlu kennslustofuna okkar og létum mynda okkur saman í fyrrverandi leikfimissalnum og rifjuðum upp gamlar minningar. Síðan var samkvæminu haldið áfram heima hjá Brynjari í Markholtinu og stóð gleðin fram undir miðnættið er aldurhnignir krakkagrislingarnir héldu heim á leið eftir ánægjulega kvöldstund.
Á efri myndinni sem var tekin í apríl 1963 eru eftirfarandi frá vinstri:
Páll Árnason Reykjalundi, Birgir Gunnarsson Álafossi, Brynjar Viggósson Markholti, Reynir Óskarsson Hlíðartúni, Anna Kristjánsdóttir Reykjahlíð, Þorsteinn Guðmundsson Þormóðsdal, Jóel Jóelsson Reykjahlíð, Eygló Ebba Hreinsdóttir Markholti, Kjartan Jónsson Hraðastöðum, Valgerður Hermannsdóttir Helgastöðum, Kolbrún Gestsdóttir Úlfarsá, Sigríður Halldórsdóttir Gljúfrasteini, Marta Hauksdóttir Helgafelli, Guðbjörg Þórðardóttir Reykjaborg, Signý Jóhannsdóttir Dalsgarði, Helga Haraldsdóttir Markholti, Birgir D. Sveinsson kennari.
Á myndina vantar Þórunni Bjarnadóttur Mosfelli og Dagný Hjálmarsdóttur Lyngási.
Á neðri myndinni sem var tekin 15. nóvember 2008 eru eftirfarandi:
Sitjandi: Guðbjörg Þórðardóttir Mosfellsbæ, Birgir D. Sveinsson aðalkennari hópsins 1960-1964 og síðar skólastjóri Varmárskóla Mosfellsbæ, Klara Klængsdóttir aðalkennari hópsins 1958-1960 Mosfellsbæ, Jórunn Árnadóttir eiginkona Birgis, Eygló Ebba Hreinsdóttir Reykjavík.
Standandi: Dagný Hjálmarsdóttir Kópavogi, Signý Jóhannsdóttir Furuvöllum Mosfellsbæ, Marta Hauksdóttir Helgafelli Mosfellsbæ, Kjartan Jónsson Dunki Dalabyggð, Anna Kristjánsdóttir Reykjavík, Sigríður Halldórsdóttir Reykjavík, Valgerður Hermannsdóttir Mosfellsbæ, Jóel Jóelsson Seltjarnarnesi, Brynjar Viggósson Mosfellsbæ, Helga Haraldsdóttir Mosfellsbæ.
laugardagur, nóvember 15, 2008
15. nóvember 2008 - Kommúnistaávarpið ...
... er komið í bókabúðir. Lærdómsrit Bókmenntafélagsins. Eitthvað á þessa leið hljómaði auglýsing sem var lesin í útvarpi á föstudag og nostalgían náði tökum á mér. Við skoðun á bókakosti mínum fann ég svo Rigerðir Marx og Engels djúpt inni í bókaskáp hjá mér, gamla prentun af þessum ágætu ritum og útgefnar árið 1968 af bókaútgáfunni Heimskringlu.
Ekki seinna vænna að hrista rykið af merkilegu bókmenntum nú þegar við höfum fengið óþyrmilega að kenna á nýfrjálshyggjunni.
föstudagur, nóvember 14, 2008
14. nóvembr 2008 – Íslamskur hryðjuverkamaður eða íslenskur útrásarvíkingur?
Nú er ljóst að tvennum sögum fer af strandi Ólafs Harðarsonar eða Ólafs Haraldssonar eða hvað hann nú heitir sá ágæti maður. Ólafur segir eitt og maður fær á tilfinninguna að Danir séu óskaplega vondir við Íslendinga, en svo heyrist danska útgáfan af sama atburði og hún er gjörólík rétt eins og að um tvo algjörlega aðskilda atburði sé að ræða.
Þegar ég skoðaði mynd af manninum í morgun fékk ég það á tilfinninguna að Danir hefðu haldið að þarna færi einhver vafasamur stuðningsmaður Osama Bin Laden, maðurinn með mikið hár og skegg og húfuræfil sem helst minnti á túrban Ósama séður úr fjarlægð. Er það nema von að danska strandgæslan hafi haldið eitthvað misjafnt um manninn?
Við athugun var maðurinn kannski ekki hryðjuverkamaður, allavega ekki af því tagi sem Dönum er mest í nöp við, heldur rammíslenskur útrásarvíkingur. Vesalings Ólafur Haraldsson eða Ólafur Harðarson eða hvað hann nú heitir sá ágæti maður, má prísa sig sælan að hafa ekki rekið að ströndum Bretlands þar sem Gordon frá Brúnastöðum ræður ríkjum!
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/11/14/logregla_ber_sogu_islendings_til_baka/
14. nóvember 2008 - Glataður er geymdur eyrir
Fólk sem ég þekki ágætlega festi sér litla íbúð fyrir kreppuna 1967 – 1969, meira en áratug áður en íbúðalán urðu verðtryggð. Fólkið sem ég hefi í huga, þurfti að kreista fram hverja þá krónu sem það gat mögulega náð í til að leggja fram í útborgun á íbúðinni og þurfti að velta hverri krónu tvisvar fyrir sér næstu tvö árin á eftir, en þá var ástandið orðið gott. Verðbólgan hækkaði íbúðaverðið á sama tíma og lánið rýrnaði hratt og vel. Fáeinum árum síðar keypti fólkið sér hæð í tvíbýlishúsi, gat lagt fram álitlega upphæð af söluandvirði fyrri íbúðar til að greiða útborgun í hæðinni og allir voru ánægðir, kannski ekki allir, en örugglega þeir sem skulduðu.
Eins og gefur að skilja þurfti einhver að borga brúsann því íbúðir kosta sitt. Þeir sem veittu lánin sátu eftir með sárt ennið, bankar sem höfðu lánað á neikvæðum vöxtum, lífeyrissjóðir og aðrir lánveitendur. Fyrir nokkru fékk ég sundurliðað yfirlit yfir verðmæti þess sem ég hafði greitt í lífeyrissjóði frá því ég byrjaði fyrst að vinna til þessa dags. Það var sem áfall að sjá þetta. Mestöll þau lífeyrissjóðsgjöld sem ég hafði greitt á árunum 1966 til óðaverbólguáranna eftir 1980 voru horfin, brunnin upp, orðin að steinsteypu hjá fólki sem þurfti ekki að borga íbúðirnar sínar sjálft vegna neikvæðra vaxta hjá lífeyrissjóðum.
Á miðvikudagskvöldið var ég stödd á fundi hjá Samfylkingarfélaginu í Reykjavík vegna kröfu ungra jafnaðarmanna um tímabundið afnám verðtryggingar. Á fimmtudagsmorguninn heyrði ég viðtal við Ingólf H. Ingólfsson fjármálaráðgjafa þar sem hann fylkti sér undir þann hóp sem vill afnám verðtryggingar og ég get ekki lengur orða bundist.
Það má segja að ég hafi sjaldan fjárfest á réttan hátt, oftast verið á vitlausum stað á vitlausum tíma, verið óheppin í fjárfestingum. Það eru einungis fjögur ár síðan ég keypti núverandi húsnæði og skulda ég mikið í íbúðinniÉg hefi þó reynt að gæta lífeyrissjóðsins míns og séreignarsparnaðar og farið mjög varlega í vafasömum fjárfestingum á undanförnum árum. Það er ósköp eðlilegt því ég á einungis rúman áratug eftir í eftirlaun ef eitthvað verður eftir af lífeyrissjóðnum mínum.
Nú kemur unga fólkið og heimtar að fá lífeyrissjóðinn minn til að greiða niður íbúðirnar sínar. Ég hefi engin efni á slíku við núverandi aðstæður í samfélaginu.
Allt frá því ég man eftir mér á sjötta áratug síðustu aldar, hefur hagkerfi Íslands verið í molum. Það er allt of lítið og viðkvæmt og illviðráðanlegt. Það má helst líkja því við rússíbana. Til þess að fá stöðugleika á hagkerfið þurfum við að tryggja aðgang að öflugra hagkerfi, t.d. Evrópusambandsins. Því get ég ekki samþykkt afnám verðtryggingar við núverandi aðstæður, en ég skal verða fyrst til að hvetja til afnáms hennar um leið og Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu og tengir krónuræfilinn við Evru undir forystu Seðlabanka Evrópu.
fimmtudagur, nóvember 13, 2008
13. nóvember 2008 - Kæra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir!
Í fyrradag settir þú ofan í forystu Alþýðusambandsins fyrir þá kröfu að vilja setja ákveðna ráðherra úr embætti. Skiljanlega hefur þú ekki áhrif á samstarfsflokkinn, en slíkt er athafnaleysið í ríkisstjórn Íslands síðan þú veiktist að vandamálin eru þau verstu síðan á Sturlungaöld og afleiðingarnar eru þær verstu síðan í móðurharðindunum. Ef þetta er ekki nóg til að ráðherrar segi af sér, þá er Ísland versta gerð af bananalýðveldi.
Ég veit það alveg að umræddur ráðherra Samfylkingar sem þú varðir í fyrradag, er hinn myndarlegasti piltur og ljómaði eins og fermingardrengur við hlið aðstoðarmanns Davíðs Oddssonar á fleiri blaðamannafundum í upphafi kreppunnar. Það er bara ekki nóg. Rétt eins og fjármálaráðherrann, hefur hann takmarkaða þekkingu á þeim málefnum sem hann tók við eftir myndun núverandi ríkisstjórnar. Að auki ber hann ábyrgð, ekki aðeins á eigin gjörðum, heldur og undirmanna sinna sem brugðust með skelfilegum afleiðingum.
Bjarni Harðarson sýslungi Björgvins framkvæmdi persónulegt skammarstrik og galt fyrir það með þingmennsku sinni. Þrátt fyrir það ber ég virðingu fyrir Bjarna fyrir að taka ábyrgð á gjörðum sínum og er hann maður að meiri fyrir bragðið. Afglöp Björgvins og Árna eru ekki persónuleg eins og Bjarna, en þau eru pólitísk, falla undir pólitíska ábyrgð á störfum undirmanna og ollu íslensku þjóðinni hundruða milljarða tjóni. Þess vegna á sagnfræðingurinn Björgvin að taka pokann sinn úr embætti viðskiptaráðherra rétt eins og dýralæknirinn úr embætti fjármálaráðherra og færa sig í sæti óbreytts þingmanns og láta öðrum eftir ráðherraembætti sitt.
Það er fleira sem ég er ósátt við í störfum þínum þessa dagana. Á meðan þú varst á sjúkrahúsi í útlöndum hóf Geir Hilmar Haarde að dansa, ekki við næstsætustu stelpuna á ballinu, heldur við óþekka óknyttastrákinn í Svörtuloftum. Sú taug sem tengir þá saman frá því þeir léku sér saman í menntaskóla er rammari en hver sú kona sem reynir að ógna ástarsambandi þeirra. Allt í einu ert þú farin að hegða þér eins og sú næstsætasta. Losaðu þig við Geir og sendu óknyttastrákinn í skammarkrókinn. Þeir eru ekki verðir aðdáunar þinnar og þú ein getur losað um tilfinningabönd þeirra.
Loks langar mig til að viðra eitt ljótt mál sem þú hefur ekki viljað taka afdráttarlausa afstöðu til. Breskur hryðjuverkaher er á leið til landsins og þrátt fyrir einarða afstöðu þína í friðarmálum opnar þú fyrir þann möguleika að þessir sömu hermenn, sumir kannski blóðugir upp að öxlum eftir dráp á saklausu fólki í Írak, eigi að vernda okkur gegn breska heimsveldinu á meðan við snæðum jólasteikina. Ég vil ekki sjá þessa undirmenn Gordons frá Brúnastöðum hér á landi um jólin gæta okkar fyrir Gordon frá Brúnastöðum. Gordon hefur gert nóg af sér samt sem og þessir legátar hans. Það er til nóg af enskum friðarsinnum sem eiga frekar skilið að vera boðið til hinnar friðelskandi þjóðar á Íslandi um jólin.
Svo skulum við ganga til samninga við Evrópusambandið um fulla og óskoraða aðild að sambandinu og gera það fljótt og vel.
mánudagur, nóvember 10, 2008
11. nóvember 2008 - Hvað varð um Icesave peningana?
Nú eru komnar sex vikur frá því íslenska hagkerfið hrundi eins og spilaborg og enn bíður íslenska þjóðin þess hvað verða vill. Ríkisstjórnin svarar út í hött eða engu og allt er eins og áður, sama ábyrgðarlausa ríkisstjórnin, sama ábyrgðarlausa bankastjórn Seðlabankans og sömu ábyrgðarlausu stjórnendur Fjármálaeftirlitsins. Á meðan stefnir allt beinustu leið til andskotans og úrræðin láta bíða eftir sér.
Ríkisstjórn og Seðlabanka hefur fyrir löngu tekist að slá ryki í augu þjóðarinnar með blaðri um um svokallaða Icesave reikninga og gera þá að milliríkjamáli á milli Íslands og Englands. Á meðan þeir halda áfram að berja hausnum við steininn kemur hver framagosinn fram í dagsljósið og reynir að telja okkur trú um að þessir peningar séu til og að eigendur umræddra reikninga muni fá þá endurgreidda, að allt hafi verið í himnalagi þegar allt hrundi. Báðir fyrrum bankastjórar Landsbankans hafa haldið þessu fram sem og einn aðaleigandinn.
Hvað er þá verið að rífast um? Ef þessir peningar eru til, er þá nokkuð annað að gera en að borga eigendum Icesave reikninganna það sem þeir eiga og málið er dautt? Ef búið er að binda þessa peninga í útlánum, er þá nokkuð annað að gera en að greiða enskri ríkisstjórn með skuldabréfunum og láta þá um að greiða út peningana um leið og þeir koma inn?
Allir eru svo saklausir. Jafnvel Hannes Smárason og Pálmi Haraldsson eru orðnir eins og saklausir sauðir á leið til slátrunar sem hafa átt sér það aðalsmerki að vera góðir við börn, gamalmenni og aðra eigendur sparibauka.
Ég fæ á tilfinninguna að einhver sé að ljúga að mér, en hverju? Það get ég ekki með nokkru móti vitað vegna laumubragða vesælla ráðherra. Hvernig á ég að geta treyst þessu pakki? Eru þeir að bíða þess að þjóðin leysi þá undan ábyrgðarlausum stjórnarathöfnum, öllu heldur athafnaleysi, með byltingu?
Ef þeir gera ekkert af viti, verður það niðurstaðan. Íslenska þjóðin getur ekki beðið í tvö og hálft ár eftir að fá að segja skoðun sína.
10. nóvember 2008 - Bubbi á útlensku?
Íslenskir tónlistarmenn hafa löngum reynt að öðlast heimsfrægð á Íslandi með því að kyrja lög sín á útlensku og þá aðallega á ensku án mikils framdráttar, þó með einni eða tveimur undantekningum. Margir hafa þó farið aðra leið og reynt að halda uppi tónlistarlegum samræðum á okkar ástkæra ylhýra og öðlast frægð fyrir hér á skerinu fjarri heimsmenningunni.
Einn þeirra er Bubbi Mortens. Bubbi hefur rokkað í nærri þrjá áratugi, risið hátt og fallið djúpt, en samt ávallt verið hann sjálfur með öllum þeim kostum og göllum sem sem prýða afburðamann á tónlistarsviðinu. Sjálf hefi ég oft verið í vafa um hrifningu mína á honum, stundum metið hann mikils, stundum lítils. Gott dæmi tvískinnungs míns í hans garð er fyrsta plata Bubba og félaga. Þar kemur fyrir lagið um áhöfnina á Rosanum sem ég hefi aldrei tekið í sátt, en á sömu plötu er sömuleiðis einhver mesta snilld Bubba, lagið um Agnesi og Friðrik.
En hver væri frægð Bubba ef lögin hans væru öll á útlensku? Hann hefði vafalaust náð langt einhversstaðar úti í heimi, en ég er ekki jafnviss um að hann ætti þann stað í þjóðarsálinni og hann á í dag ef svo væri. Í Rokklandi sunnudagsins var spiluð gömul upptaka með Bubba þar sem hann kyrjar lag á útlensku. Áður en laginu lauk var ég farin að gera eitthvað annað en að hlusta.
Ég held að Íslendingar megi þakka Bubba fyrir að hann skuli ávallt reynt að halda íslenskri tónlist í hæstu hæðum með því að flytja næstum allt sitt á tungumáli því sem allt of fáir skilja en hann fer snilldarlega með.
-----oOo-----
Loks ein örlítil gleðifrétt frá kosningum í Bandaríkjunum:
http://abcnews.go.com/video/playerIndex?id=6211987
sunnudagur, nóvember 09, 2008
9. nóvember 2008 - Þegar þeir síðustu verða fyrstir er gaman!
Við sem höfum fylgst með gæfu og ógæfu Fótboltafélags Halifaxhrepps höfum ástæðu til að fagna í dag og er löngu kominn tími til fagnaðar.
Það var fyrir mörgum árum sem Gísli Einarsson þáverandi ritstjóri Skessuhorns stofnaði aðdáendaklúbb Fótboltafélags Halifaxhrepps í Vestur-Jórvíkurskíri í Englandi, en liðið barðist þá hetjulegri baráttu við að halda sér í langneðstu deild (fjórðu deild) í ensku boltasparki. Þegar aðdáendaklúbburinn var sem stærstur náði hann um sjö hundruð meðlimum, flestum í Lundarreykjadalnum en einnig annars staðar á Vesturlandi auk nokkurra aðdáenda á höfuðborgarsvæðinu. Stuðningurinn dugði þó skammt því svo fór að lokum að Halifaxhreppur fann gatið á botninum og féll niður í kvenfélagsdeildina (5. deild sem þá var kennd við Nationwide Conference). Árangur félagsins í þeirri deild var ákaflega misjafn, eða allt frá því að berjast um endurnýjaða stöðu í langneðstu deild til þess að berjast fyrir sæti sínu í kvenfélagsdeildinni.
Sjálf heimsótti ég félagið einu sinni er ég var í heimsókn í næsta hrepp sem Gísli kennir reyndar við Reykholtsdalinn (Rochdale). Sú heimsókn var félaginu ekki framdráttar því tveimur árum síðar, þ.e. á síðastliðnu sumri varð það gjaldþrota.
Heimamenn í Halifaxhreppi gátu ekki hugsað sér að láta félagið deyja drottni sínum og fógetanum og endurreistu það sem samvinnufélag og veittu því inngöngu í Samband enskra samvinnufélaga. Það dugði þó ekki til því breska knattspyrnusambandið, sem er álíka grettið og Gordon frá Brúnastöðum, dæmdi félagið niður um þrjár deildir og varð það því að byrja á botninum á áttundu deild nú í haust.
Haustið byrjaði illa. Það voru ekki komnir margir leikir er Halifaxhreppur var í hópi neðstu liða með þrjá tapaða leiki og eitt jafntefli. Þá ákvað Jimmy Vinningur þjálfari að svona mætti ekki ganga lengur og skipaði strákunum okkar að bíta í skjaldarrendur og sýna mótherjunum hvað í þeim bjó. Og Halifaxhreppur fór að vinna leiki.
Laugardaginn 8. nóvember 2008 náði Fótboltafélag Halifaxhrepps loksins því langþráða takmarki að komast á topp áttundu deildar enskrar knattspyrnu. Mega nú Mannshestahreppur og Lifrarpollur og Rassenal og Efratún fara að gæta sín því nú loksins er sigurgangan óendanlega hafin af alvöru!
laugardagur, nóvember 08, 2008
8. nóvember 2008 - Pestin!
Jú, mikil ósköp. ég hefi verið hræðilega löt við bloggfærslur að undanförnu. Þig getið kallað þetta hvaða nafni sem er, leti, bloggfælni, andleysi eða veikindum. Þetta á allt rétt á sér.
Að undanförnu hefi ég verið með einhverja pest. Hiti og höfuðverkur hafa fylgt mér og ég hefi ekki getað hugsað skýrt. Ég hefi þó reynt af smita vinnufélagana af þessari sömu pest í von um að ná einhverjum aukavöktum, en það hefur enn ekki gengið eftir.
Ég reyni svo að skrifa eitthvað af viti strax á laugardagskvöld, enda hlýtur pestin að taka enda hjá mér.
(P.s. Ég tek það fram að engin alvara liggur að baki ósk minni um smitun til handa vinnufélögum mínum)
fimmtudagur, nóvember 06, 2008
6. nóvember 2008 - Kim!
„Hann lítur ekki vel út kallinn,“ sögðu þulurnar í morgunútvarpinu um Kim Larsen, þegar talið barst að síðustu tónleikaferð hans og reykvenjum. Þegar haft er í huga að þriðji morgunútvarpsþulurinn er einlægur aðdáandi Kim Larsen má velt því fyrir sér hvort þær hefðu talað svona fjálglega um danska stórreykingamanninn ef Gestur Einar hefði verið viðstaddur!