þriðjudagur, mars 23, 2010

23. mars 2010 - Aftur brást Ríkisútvarpið!

Það var 17. júní árið 2000. Ég sat fyrir framan tölvuna mína þegar allt fór að hristast. Ég fann fyrir ótta þar sem ég var stödd uppi á sjöttu hæð, vitandi að lyftan var varasöm og hættulegt að fara niður stigana við þessar aðstæður, en þetta fór allt vel að frátalinni einni bókahillu sem féll fram með skemmd á einni bók. ég var með útvarpið í gangi en kveikti nú einnig á sjónvarpinu. Þar sáust 25 fullorðnir karlar sem hlupu í hræðslu sinni um grænt gras og fjöldi fólks sat á áhorfendapöllum og öskraði af hræðslu.. ég áttaði mig á að þetta fjallaði alls ekki um jarðskjálfta, heldur fótbolta sem gengur fyrir öllu öðru á Íslandi.

Laugardagskvöldið 20. mars og aðfararnótt sunnudagsins 21. mars var ég á næturvakt í vinnunni. Það var óvenjuróleg vakt, ekkert að ske. Einhver hundleiðinleg kvikmynd var í sjónvarpinu og í útvarpinu var óskalagaþáttur í gangi undir umsjón Snorra. Ég hafði Facebook opið og leit á það öðru hverju og skyndilega kom nýr status frá góðri skólasystur minni úr menntaskóla og síðar flokkssystur minni í Samfylkingunni. Hún hélt að það væri byrjað gos í Eyjafjallajökli. Klukkan var 00.34 skömmu eftir miðnættið. Mér brá! Ég renndi yfir fréttamiðlana og sá ekkert. Ég renndi aftur yfir fréttamiðlana og þá kom ný frétt hjá Doddsson.is um að hugsanlega væri hafið gos í Eyjafjallajökli. Í útvarpinu voru flutt óskalög hlustenda.

Ég skellti inn færslu um gosið sem status hjá mér. Einn þeirra fyrstu sem svöruðu með athugasemdum var einn ágætur kunningi minn og fréttamaður hjá RÚV: „Ertu ekki að djóka?“
Nei, ég var ekki að fíflast en fékk samt athugasemdir við færsluna varðandi geðheilbrigði mitt. Það liðu margar mínútur áður en einhver ræma kom í sjónvarpinu um hugsanlegt eldgos. Í útvarpinu voru spiluð óskalög af plötum. Það var ekki fyrr en klukkan eitt sem fréttir komu í útvarpinu um eldgos í Eyjafjallajökli.

Þarna brást RÚV gjörsamlega. Það leið rúmur klukkutími frá því hringt var í Neyðarlínuna uns fréttir komu í útvarpi. Þá voru bæði Facebook og Doddsson.is á undan, löngu á undan. Slíkt er ekki ásættanlegt. Ríkisútvarpið fær greitt fyrir neyðarþjónustu, hvorki Facebook né Mbl.is. Samt standa þessir fjölmiðlar sig miklu betur.

Með orðum mínum vil ég taka fram að þótt Ríkisútvarpið hafi brugðist rétt eins og 2000, þá stóðu fréttamenn þess sig með prýði eftir að á hólminn var komið.


0 ummæli:Skrifa ummæli