fimmtudagur, mars 15, 2012

15. mars 2012 - Um bensínverð

Fyrir einum fjórum árum skrifaði ég bloggpistil þar sem ég þóttist sjá það að bensínverð halda áfram að stíga á næstu árum og verða loks óyfirstíganlegt fyrir eigendur bensínhákanna. Því miður virðist þessi ótti minn vera að rætast. Bensínverðið er komið yfir 260 krónur og mun halda áfram að hækka og vera nærri 300 krónum eftir mánuð eða um páska. Þetta er engin spádómsgáfa hjá mér heldur sú staðreynd að notkun á bensíni fer stöðugt vaxandi sem einfaldlega mun hækka heimsmarkaðsverðið.

Fyrir fáeinum árum voru einungis fáir bílar í Kína eða sem svaraði einum á hverja þúsund íbúa. Nú eru götur stórborga Kína fullar af bílum sem ganga fyrir dýru jarðefnaeldsneyti og sérhver nýr bíll sem ekur um göturnar þýðir hækkun á heimsmarkaðsverði. Framtíðin með eldsneytisskortinn er ekki lengur framtíð heldur nútíð. Það má vera að það komi tímabundnar lægðir í heimsmarkaðsverðið, en það verður aðeins í skamman tíma áður en bensínverðið fer upp aftur og verður enn hærra en áður.

Það er þegar sjáanlegt hve dregið hefur úr umferðinni í Reykjavík. Fólk ekur hægar og fólk ekur minna en áður. Sjálf ek ég um á rúmlega tveggja tonna jeppa með stóra bensínvél og ein ferð niður í bæ og til baka kostar mig um 800 krónur í bensínkostnað.

Eftir olíukreppuna 1973 var farið í að hitaveituvæða eins stóran hluta byggðs bóls á Íslandi og mögulegt var. Nú er kominn tími á næstu byltingu af sama tagi, samgöngubyltingu. Það er auðvelt að sjá fyrir sér eldsneytissparnað í formi þéttingar byggðar, en einnig í formi lesta um höfuðborgarsvæðið. Það má hugsa sér lest sem gengur frá Mjódd til Keflavíkur og aðra austur á Selfoss, en aðrar lestir eða sporvagna sem ganga niður í bæ sem og um Mosfellsbæ, Grafarvog, Árbæ og Breiðholt og geta allar haft skiptistöð í Mjóddinni.

Ég veit ekki hvað þarf að bíða lengi eftir því að samgönguyfirvöld taka við sér, kannski þangað til bensínlítrinn fer í 500 krónur. Því miður er þess ekki langt að bíða að bensínlítrinn fari svo hátt.  Ég reyni allavega að vera viðbúin hækkuninni og búin að fá mér reiðhjól til nota þegar ég þarf ekkert endilega að fara á bílnum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli