mánudagur, mars 04, 2013

4. mars 2013 - Einkennileg viðbrögð


Þegar ég birti pistil minn um uppgjöf Árna Páls á blogginu í upphafi nýs dags 3. mars 2013 átti ég ekki von á miklum viðbrögðum enda eru bloggin mín löngu orðin að persónulegu spjalli sem fáir nenna að lesa nema þá helst nokkrir vina minna á Facebook og gamlir og forhertir bloggarar af guðs náð. Því til staðfestingar blogga ég orðið einungis endrum og eins og þá einvörðungu ef mér er mikið niðri fyrir.

Þess meira undrandi varð ég er bæði Smugan og Eyjan/Pressan sáu ástæðu til að birta bloggið mitt án þess að hafa samband við mig. Þetta minnir mig reyndar á stutt viðtal sem birtist við mig í DV fyrir mörgum árum, en sem var að öllu leyti tilbúningur blaðamanns, enda var ég fjarri landinu og ekki í símasambandi er blaðamaðurinn reyndi að ná sambandi við mig og því samdi hann viðtalið sjálfur. Af viðbrögðum við greininni í Pressunni virðist samt sem margir hafi einungis lesið greinina án þess að skoða bloggið mitt, en þar var mun ítarlegar farið í hlutina.

Best að taka fram hér og nú að ég er ekki á leiðinni að yfirgefa Samfylkinguna og alls ekki Samfylkingarfélagið í Reykjavík sem hefur verið sem klettur í ólgusjó jafnaðarmennskunnar.

Ég kom inn í Samfylkinguna árið 2006 frá vinstri. Áður hafði ég stutt Alþýðubandalagið og eftir uppstokkun stjórnmálanna árið 1999 gaf ég Vinstri hreyfingunni, grænu framboði atkvæði mitt um nokkurra ára skeið þótt aldrei væri ég meðlimur. Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2006 ákvað VG að hætta samstarfinu um Reykjavíkurlistann. Ég var ekki sátt við þá ákvörðun. Áratug fyrr hafði ég skipt um skoðun gagnvart Evrópusambandinu. Ég bjó í Svíþjóð þegar Svíþjóð gekk með í Evrópusambandið 1994 og greiddi atkvæði gegn Evrópusambandsaðild. Fljótlega eftir inngönguna fór ég að sjá jákvæð áhrif Evrópusambandsins á mannlífið í Svíþjóð, lærði af mistökum mínum og hefi síðan þá verið Evrópusinni. Sú skoðun mín styrktist síðar er ég hóf að starfa alþjóðlega að mannréttindamálum hinsegin fólks og komst að því hve rækilega Evrópusambandið styður við baráttu minnihlutahópa fyrir réttindum sínum.

Með slitum á Reykjavíkurlistanum ákvað ég því að söðla um, hætti óopinberum stuðningi við VG og gekk með í Samfylkinguna og hefi starfað þar síðan.  Ég varð aldrei mikill bógur í Samfylkingunni, tók þó þátt í félagsstarfinu eftir því sem ég hafði tíma, mætti iðulega á félagsfundi og stolt viðurkenni ég að ég var með á frægum fundi í Þjóðleikhúskjallaranum sem samþykkti ályktun gegn ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar 21. janúar 2009. Skömmu síðar var ég kosin inn í stjórn Samfylkingarfélagsins í Reykjavík og sat þar í tvö ár, en hætti í stjórn árið 2011 og hefi síðan þá verið lítt virk í Samfylkingunni. Það er því rangt sem segir í Pressunni að ég hafi verið áhrifamanneskja í Samfylkingunni, var og er frekar sem lítið peð í öflugri hreyfingu.

Starf Samfylkingarfélagsins í Reykjavík hefur löngum borið keim af jafnaðarmennsku til vinstri, friðarsjónarmiðum, feminisma, mannréttindabaráttu og náttúruvernd , atriði sem við fengum kannski í arf frá Alþýðubandalaginu og Kvennalistanum auk Evrópusamvinnunnar. Fyrir bragðið hefur starf Samfylkingarfélagsins í Reykjavík oft verið litið hornauga af sumum öðrum félögum Samfylkingarinnar sem ekki hafa viljað skrifa jafnafdráttarlaust upp á þessi vinstrisinnuðu gildi og kallað okkur órólegu deildina. Sjálf hefi ég verið á þeirri línu sumra félaga minna sem hafa viljað læra af félögum okkar í Svíþjóð og Þýskalandi, til dæmis hvað varðar félagsgjöld og skipulag.

Þegar Árni Páll gaf út á föstudag að ekki væri hægt að koma stjórnarskrárfrumvarpinu í gegnum Alþingi á þessu þingi varð ég að mótmæla. Þótt einungis séu sex dagar eftir af þessu þingi þurfa þeir ekkert að vera sex. Það eru þrjátíu og sex dagar eða meira til kosninga og því nægur tími til að koma málinu í gegnum Alþingi ef viljinn er fyrir hendi. Því hljómuðu orð Árna Páls eins og útrétt sáttarhönd til andstæðinganna sem voru fljótir að slá vopnin úr höndum Árna eins og þeirra hefur verið vaninn þessi fjögur ár sem Samfylkingin og VG hafa verið í ríkisstjórn. Um leið hrundi fylgið af Samfylkingunni  samanber ummæli á Facebook í gær. Ég hélt að Samfylkingin mætti ekki við frekara fylgistapi.

Það getur vel verið að Árni Páll hafi rétt fyrir sér að ekki sé hægt lengur að afgreiða stjórnarskrármálið þótt ég sé honum ósammála í því efni. En það er ekki sæmandi flokksformanni að koma með yfirlýsingar um uppgjöf áður en orustan er hafin nema hann sé að búa sig undir samstarf með Sjálfstæðisflokknum í hægristjórn eftir kosningar, en þá verður líka ástæða til að stofna nýjan Evrópusinnaðan vinstriflokk.

Eins og gefur að skilja er ég ekkert brennimerkt einum flokki til lífstíðar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli