föstudagur, apríl 25, 2014

25. apríl 2014 - Um Framsóknarmenn í Reykjavík


Það er ekki mitt að fjalla ítarlega um Framsóknarflokkinn, enda hefi ég aldrei kosið þann flokk og mun ekki gera í fyrirsjáanlegri framtíð. Umræða undanfarinna daga um Guðna Ágústsson og ætlaða neikvæða hegðun gagnvart honum á Facebook og öðrum samfélagsmiðlum gerir þó að verkum að ég á erfitt með að sitja hjá í umræðunni.

Ég vil byrja með að taka fram að ég á Alfreð Þorsteinssyni talsvert að þakka. Að sögn fólks sem þekkti til tók hann af skarið þegar fordómar réðu ríkjum gagnvart mér og ákvað í krafti formennsku sinnar í stjórn Veitustofnanna (síðar stjórn OR) að samþykkja ráðningu mína til starfa hjá Hitaveitu Reykjavíkur haustið 1996. Fyrir þetta er ég honum þakklát þótt ég sé honum ósammála í pólitík. Ég var líka stuðningsmanneskja R-listans í Reykjavík meðan hann var og hét þótt ég styddi hann frá vinstri, þ.e. sem fyrrum stuðningsmanneskja Alþýðubandalagsins þótt skilið hafi á milli síðar vegna einarðrar afstöðu arftakans VG gagnvart R-listanum og gegn Evrópusambandinu.

Eftir að R-listasamstarfinu lauk 2006 tók Björn Ingi Hrafnsson við keflinu af Alfreð Þorsteinssyni sem fulltrúi Framsóknarflokksins í borgarstjórn en eftir skamma dvöl í borgarstjórn sagði hann af sér og við tók Óskar Bergsson. Þar með hrundi fylgi Framsóknar í Reykjavík því Óskar Bergsson hefur ekki til að bera þá útgeislun sem stjórnmálamenn þurfa að hafa til að ná langt í pólitík enda hrökklaðist hann út við næstu kosningar á eftir og hefur Framsókn síðan verið áhrifalaus í Reykjavík.

Fyrir nokkru kom fram nýr framboðslisti Framsóknarflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Listinn leit sæmilega út þó að undanskildum manninum sem sat í fyrsta sæti, áður umræddur Óskar Bergsson sem vantar alla þá persónutöfra sem stjórnmálamenn þurfa að bera. Fólk kom að máli við mig og benti á að það væri þó flottur frambjóðandi í öðru sæti sem er Guðrún Bryndís Karlsdóttir verkfræðingur. Ég viðurkenndi að vissulega væri kominn góður frambjóðandi í annað sætið, en hvernig á fólk að geta kosið Guðrúnu ef það þarf fyrst að koma Óskari Bergssyni í borgarstjórn áður en hún kemst að?  Sem betur fer sá Óskar sjálfur hve hann var hindrandi í kosningabaráttunni og kaus að segja sig frá fyrsta sætinu. Þar með var leikurinn auðveldur fyrir Guðrúnu Bryndísi. Ónei, þá tók Framsóknarflokkurinn að sér að leita nýs oddvita fyrir Reykjavík og fundu loks eitthvert gamalt og úr sér gengið afturhald úr sunnlenskum sveitum sem hafði sest að í 101 Reykjavík á gamals aldri til þess að leiða flokkinn í stað þess að velja frambærilegasta frambjóðandann.

Eftir nokkra umhugsun ákvað Guðni Ágústsson að gefa ekki kost á sér. Ekki veit ég af hverju, en meðal andstæðinga þess að hann byði sig fram var sjálfur landbúnaðarráðherrann sem sagði eitthvað á þessa leið í sjónvarpsviðtali:
„Ég vil minna á það að það eru margir sem búa í 101 sem eru í framboði í Reykjavík. Það er lítið um úthverfafólk og ég held að það væri svolítið klókt að menn horfðu til Reykjavíkur allrar.“
Þar með var Sigurður Ingi Jóhannsson búinn að lýsa yfir andstöðu sinni við Guðna sem býr í Skuggahverfinu í 101 Reykjavík. Þar hafði Guðrún Bryndís búsetuna framyfir Guðna búandi í 105 Reykjavík þótt varla teljist það sem úthverfi.

Guðrún Bryndís Karlsdóttir býr yfir góðum þokka, mikilli kunnáttu og jafnvel persónutöfrum sem stjórnmálamenn þurfa að bera.  Framsóknarmenn hafa samt hafnað henni sem segir mér það að hún hafi gert þá reginskyssu að bjóða sig fram í röngum flokki. Hún er ekki Framsóknarmanneskja í eðli sínu og á ekki heima í Framsóknarflokknum. Megi henni farnast vel í framtíðinni þótt það verði varla á vettvangi Framsóknarflokksins.

P.s. Ég þekki Guðrúnu ekki neitt, hefi aldrei hitt hana og hefi einungis orð annarra fyrir góðum eiginleikum hennar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli