mánudagur, maí 18, 2015

18. maí 2015 - Sítt hár eða karlmennska


Ein ágæt kona og vinur minn á Facebook birti á síðu sinni gamlan innsendara ásamt svari úr Fálkanum sáluga skömmu áður en hann fór á hausinn árið 1966.  Þetta fjallaði um sítt hár sem enginn unglingur gat hugsað sér að vera án á þessum fyrstu Bítlaárum og viðbrögð Fálkans voru eins og búast mátti við af miðaldra karlkyns ritstjórum enda skil ég vel að blaðið hafi farið á hausinn fáeinum mánuðum síðar.

Þegar haft er í huga hver viðbrögð karlasamfélagsins voru gagnvart síðu hári árið 1966 er auðvelt að ímynda sér af hverju ég þorði ekki að koma útúr skápnum á þessum tíma.  Hommar voru í besta falli sendir til geðlæknis en í versta falli á Klepp þegar hér var komið sögu, hvað þá transfólk sem langaði kannski til að vera aðeins kvenlegra en efni stóðu til.  Þarna var ég nýorðin 14 ára og á kafi í tilvistarkreppu vegna kynvitundar minnar og langaði helst til að koma mér í burtu frá öllu saman og hneykslunartónninn í svari blaðsins við því einu að piltur langaði til að safna hári eins og Bítlarnir var nóg til að ég gróf tilfinningar mínar enn neðar í sálarfylgsnin.

Rúmum tveimur áratugum síðar var ég komin af stað öðru sinni til að leita mér hjálpar við kynáttunarvanda mínum þar sem Sölvína Konráðs sálfræðingur vildi allt fyrir mig gera, meðal annars hafði hún rætt við nokkra geðlækna um vanda skjólstæðings síns. Tveir reyndust mér vel, en einn vildi fyrir alla muni leggja mig inn til greiningar.  Nafn hans skiptir ekki máli lengur, ég hafnaði boði hans og leit svo á að hann hefði ekki skilning á þörfum mínum og að þessi innlögn myndi einungis skaða mig persónulega þar sem ég þjáðist ekki af neinum hættulegum geðsjúkdómi.  Fyrir bragðið vildi hann ekki sinna mér frekar og ég fékk aðra og þess hæfari til að greina mig áður en ég fór loks úr landi árið 1989.

Nokkru áður en ég fór úr landi fékk ég skilaboð frá ungum transstrák sem hafði verið lokaður inni til greiningar á kynáttunarvanda hans.  Því miður tókst mér aldrei að svara honum þar sem hann hafði verið lokaður aftur inni áður en ég náði sambandi við hann og því náði ég ekki sambandi við hann fyrr en mörgum árum síðar.  Hann lauk síðar aðgerðarferli til leiðréttingar á kyni á Íslandi. 

Þegar maður les þennan innsendara í Fálkanum fer ég að hugsa til þess hve Ísland var aftarlega á merinni í frjálsræðinu árið 1966 og meira en þremur áratugum áður en fyrsta aðgerðin til leiðréttingar á kyni var framkvæmd á Íslandi og var enn í gömlu sporunum tuttugu árum eftir greinina í Fálkanum.

Einasta leiðin fyrir okkur sem vorum fyrst var því að flýja land og sækja okkur líf og aðstoð erlendis.  Við vorum engar hetjur.  Hetjurnar dóu allar.  Þær féllu margar fyrir eigin hendi, en áður höfðu hetjurnar verið brenndar á báli eins og Jóhanna frá Örk.

Við komum bara fram opinberlega á réttum tíma eftir þrautagöngu í myrkviðum fáfræðinnar. 



0 ummæli:







Skrifa ummæli