mánudagur, júní 15, 2015

15. júní 2015 - Fjöldauppsagnir?
Þessa dagana eru hjúkrunarfræðingar og geislafræðingar að segja upp störfum á spítulum landsins eftir að sett voru lög á þá til að ljúka verkfalli þeirra. Fjöldauppsagnir hafa áður verið reyndar með góðum árangri.  Fyrr á árum nýttu ríkisstjórnir sér bráðabirgðalög af miklum móð og minnast nú margir þess er ráðherra beitti Vigdísi Finnbogadóttur hótunum til að stöðva verkfall flugfreyja á tíu ára afmæli kvennafrídagsins þann 24. október 1985.  Þar var hinsvegar ekki um að ræða bráðbirgðalög þar sem Alþingi starfaði, en lögin keyrð í gegn á næturfundi aðfararnótt 24. október.

Ekki ætla ég að fjalla sérstaklega um verkfall flugfreyja árið 1985, heldur önnur bráðabirgðalög frá árinu 1970.  Vorið 1970 logaði Ísland í verkföllum í kjölfar kreppunnar 1967-1969, en yfirmenn á farskipum (vélstjórar, stýrimenn, loftskeytamenn og brytar) sem löngum höfðu verið afskiptir í launum út frá reglunni að þeir gætu bara bætt kjörin með smygli, hófu verkfall 21. júní. Mörg skip stöðvuðust og þann 30. júní voru sett bráðabirgðalög á verkfall þeirra og gerðardómi gert að úrskurða um laun þeirra í síðasta lagi í september sama ár. Í kjölfar bráðabirgðalaganna ákvað mikill meirihluti yfirmanna á skipunum að segja upp störfum miðað við 11. október 1970, eða eins og Ólafur Valur Sigurðsson þáverandi formaður Stýrimannafélags Íslands benti á í viðtali við Morgunblaðið, vel yfir 90% félagsmanna hans tóku þátt í uppsögnunum. 

Með væntanlegan gerðardóm höfðu skipafélögin engan áhuga á að semja við starfsfólkið og því tóku uppsagnirnar gildi frá og með 11. október og skipin byrjuðu að stöðvast eitt af öðru.  Innan við fimm dögum síðar tókust samningar um verulegar kjarabætur og skipin komust af stað að nýju þann 16. október.

Þessi aðgerð yfirmanna á farskipum tókst einungis með samstöðu mikils meirihluta félagsmanna.  Það stefndi í auðn á farskipaflotanum vegna lélegra launa, en með baráttugleði manna eins og Ólafs Vals og Ingólfs Ingólfssonar sem þá var nýlega orðinn formaður Vélstjórafélagsins tókst að bæta kjörin verulega.

Með þessu sendi ég baráttukveðjur til hjúkrunarfræðinga, geislafræðinga og annarra þeirra sem eiga um sárt að binda eftir nýsett lög gegn verkfalli þeirra.  


0 ummæli:Skrifa ummæli